Arnar Sigurðsson, Addi Sandari, fæddist 15. nóvember 1931. Hann lést 28. janúar 2025.

Útför Arnars fór fram 21. febrúar 2025.

Það er oft sagt að líf okkar sé ekki einungis mótað af þeim sem við þekkjum, heldur einnig af þeim sem við völdum að vinna með. Addi var einn þeirra sem ég var svo heppinn að kynnast og umgangast, bæði sem samstarfsfélaga og vin, þrátt fyrir mikinn aldursmun, ég um tvítugt og Addi þá um fimmtugt, en einnig sem ómetanlegur hluti af lífi fjölskyldunnar.

Addi og faðir minn byrjuðu að vinna saman upp úr 1975 og urðu óaðskiljanlegir samstarfsfélagar í gegnum árin. Það var árið 1980, þegar ég byrjaði sjálfur að vinna með þeim á fasteignasölunni Fasteignahöllin á Háaleitisbraut 58-60, sem ég fékk að kynnast Adda betur og uppskera dýrmæta vináttu og lærdóm á þessum tíma. Hann var ekki bara samstarfsfélagi, heldur einnig mikill stuðningsmaður, fyrirmynd og vinur sem var alltaf tilbúinn að deila þekkingu sinni og reynslu.

Addi var maður með mjög sterkar skoðanir og var aldrei kjaftstopp þegar hann talaði. Hann var eins og alfræðiorðabók þegar kom að sjávarútveginum, fylgdist alltaf með öllum nýjustu breytingum og þróun á þeim sviðum og hafði skoðun á öllum málum. Ég hringdi oft í hann í seinni tíð, og hvert einasta samtal var fróðlegt. Hann gat farið yfir ástand líðandi stundar – hvort sem það var í sjávarútvegi eða öðrum greinum. Hann fylgdist líka vel með pólitíkinni og hafði mjög sterkar skoðanir þar líka. Hann var einlægur og hreinskilinn, og lá aldrei á sínum skoðunum, sama hver átti í hlut.

Addi var maður sem lifði fyrir það sem honum lá á hjarta og var aldrei feiminn við að deila því sem hann trúði á. Þetta gerði hann að ómetanlegum samstarfsfélaga, sem og vini í seinni tíð. Það var alltaf eitthvað sérstakt við hvernig hann gaf sér tíma til að hlusta, veita ráð, og hvernig hann var til staðar fyrir okkur hin þegar við þurftum á honum að halda.

Við munum alltaf minnast Adda með virðingu, þakklæti og vináttu sem verður aldrei gleymd.

Addi minn, þú misstir mikið þegar hún Baddý þín féll frá. Þú talaðir oft um veikindaferlið hennar og maður fann mikið til með þér, þetta var erfiður fráskilnaður. En ég samgleðst þér í dag að nú hefur hún tekið á móti þér á nýjum framandi slóðum og ég er þess fullviss að það er glatt á hjalla eins og það var svo oft þegar ég fékk að njóta nærveru þinnar.

Ættingjum og vinum votta ég innilega samúð.

Guð geymi þig og takk fyrir allt. Þinn vinur,

Agnar yngri.

Kær félagi og vinur okkar, Arnar Sigurðsson er látinn. Hann lést 28. janúar sl.

Hann hafði verið félagi í Akóges í Reykjavík frá 1968 eða rúm 57 ár en hafði áður verið í félaginu í Vestmannaeyjum frá árinu 1966. Hann var heiðursfélagi í félaginu okkar og sannur heiðursmaður, góður félagi sem alltaf hafði eitthvað gott að leggja til allra mála.

Arnar var formaður í félaginu 1981 auk fjölda annarra trúnaðar- og nefndarstarfa sem hann tók að sér á liðnum árum.

Við félagar söknum góðs drengs sem nú hefur horfið frá okkur og þökkum fyrir ánægjuleg kynni og góða nærveru.

Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Akóges í Reykjavík,

Hlynur Ólafsson.