Holur Um sex þúsund kílómetrar af vegakerfi Vegagerðarinnar eru með bundnu slitlagi. Klæðing er bundið slitlag sem er mun ódýrara en malbik.
Holur Um sex þúsund kílómetrar af vegakerfi Vegagerðarinnar eru með bundnu slitlagi. Klæðing er bundið slitlag sem er mun ódýrara en malbik. — Ljósmynd/Vegagerðin
Í gær varaði Vegagerðin við steinkasti frá Borgarnesi að Holtavörðuheiði og ósléttum vegi og steinkasti á heiðinni. Við blæðingarnar safnast upp lausir steinar á veginum sem geta skapað hættu. Vegakerfið virðist vera að gefa sig á stórum landsvæðum

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Í gær varaði Vegagerðin við steinkasti frá Borgarnesi að Holtavörðuheiði og ósléttum vegi og steinkasti á heiðinni. Við blæðingarnar safnast upp lausir steinar á veginum sem geta skapað hættu. Vegakerfið virðist vera að gefa sig á stórum landsvæðum. Sigþór Sigurðsson framkvæmdastjóri Colas sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að innviðaskuldin væri 10 milljarðar á ári, síðan í efnahagshruninu 2009. Engin leið væri út úr vandanum önnur en að tvöfalda fjárveitingar til viðhalds veganna, úr 10 milljörðum í 20 milljarða á ári.

Ástæða blæðinga í klæðningu

Pálmi Þór Sævarsson svæðisstjóri Vestursvæðis Vegagerðarinnar útskýrði ágætlega í viðtali við Morgunblaðið þann 18. febrúar sl. hvað valdi því að blæðing verði á vegunum:

„Það sem gerist er að undirlagið blotnar og frýs síðan. Þegar hlánar, eins og gerðist í miklum rigningum í vetur, kemst vatnið ekki ekki út, þrýstist upp í gegnum klæðninguna og tekur bikið með sér upp þegar þunginn þrýstir á. Í sumum tilfellum eru þetta vegir með ónýtt burðarlag sem er gamalt og niðurbrotið.“

Daginn eftir birti Vegagerðin á vef sínum útskýringar á því hvað valdi blæðingum á vegunum. Þar kemur fram að sveiflur í veðri, frost, þíða, og mikið umferðarálag, ekki síst þungaflutningar, séu taldir helstu orsakaþættir vetrarblæðinga. Raki og bleyta safnist upp í burðarlaginu í þessum hitasveiflum á meðan neðri lög vegbyggingarinnar eru enn frosin. Þegar álag kemur frá dekkjum ökutækja á slitlagið í þessum aðstæðum, hefur vatnið sem safnast hefur saman í burðarlaginu enga aðra undankomuleið en upp í gegnum slitlagið.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að þegar vatnið þrýstist upp í gegnum slitlagið tekur það bikið úr klæðningunni með sér sem síðan festist í dekkjum. Bikið er klístrað og tekur einnig upp hálkuvörn sem getur legið á yfirborði vegarins, svo sem salt og lausamöl, sem er á veginum. Við þetta eykst rúmmálið verulega og verður að stórum bikklessum sem dreifast um vegyfirborðið. Gömul burðarlög sem eru búin að missa burð eru mjög rík af fínefnum og ekki með frostþítt efni. Þetta veldur því að þessi gömlu burðarlög eru mun líklegri til að safna í sig vatni en þau sem eru ný og þar með eru meiri líkur á vetrarblæðingum.

6.000 km af bundnu slitlagi

Lítilsháttar vetrarblæðingar eru þekkt vandamál á vegum með klæðingu en umfangsmiklar vetrarblæðingar hafa sem betur fer ekki verið algengar í gegnum tíðina, en þær eru alvarlegar þegar þær verða. Alvarlegt tjón getur orðið á farartækjum og slys á fólki í verstu tilfellum en sem betur fer er tjón mest í formi þrifa á dekkjum og undirvagni ökutækja en mælt er með að leita ráða hjá fagfólki hvað það varðar.

Malbikið er fimm sinnum dýrara

Um sex þúsund kílómetrar af tæplega 13 þúsund kílómetra vegakerfi Vegagerðarinnar er með bundnu slitlagi. Um 90% af bundna slitlaginu er klæðing og 10% malbik en þyrfti að vera mun meira m.v. álag á vegina. Þess má geta að malbik er um fimm sinnum dýrara en klæðing. Klæðing er bundið slitlag sem er mun ódýrara en malbik. Það er fljótlegt í útlögn og ekki þarf blöndunarstöð. Klæðning þolir allt að 2-3 þúsund bíla umferð á sólarhring og er hagkvæm þegar vel tekst til.

Höf.: Óskar Bergsson