Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Fram er komin á Alþingi beiðni til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um skýrslu um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og um viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar. Er ráðherra m.a. spurður um hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
Níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins standa að skýrslubeiðninni, en fyrsti flutningsmaður málsins er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þess er óskað að í skýrslunni verði fjallað um samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar sem og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2013 um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli.
Einnig er óskað umfjöllunar um verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta og hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009.
Þá vilja skýrslubeiðendur að upplýst verði hvort framkvæmd lokunar flugbrautarinnar og háttsemi Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia hafi verið í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, m.a. með tilliti til flugöryggis og almannaöryggis, sem og hvort samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um fellingu trjáa í Öskjuhlíð.
Svo sem kunnugt er hefur það verkefni ekki gengið þrautalaust en er nú loks hafið.
Í greinargerð með beiðninni segir m.a. að Reykjavíkurflugvöllur gegni mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi þjóðarinnar, sé mikilvægur varaflugvöllur og sérstaklega fyrir Keflavíkurflugvöll. Það ástand sem skapaðist aðfaranótt 8. febrúar sl. hafi vakið óhug meðal almennings, þegar austur/vesturbraut flugvallarins var lokuð fyrir lendingar, en hún er nýtt í 25% tilfella í sjúkraflugi.
„Lokun flugbrautarinnar hefur sett sjúkraflug í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin er til komin vegna þess að ekki hefur mátt fella tré í Öskjuhlíð. Borgaryfirvöld hafa vitað af þessu vandamáli í a.m.k. áratug en hafa látið hjá líða að grípa til aðgerða í samræmi við samkomulag við ríkið. Um grundvallarhagsmuni er að ræða sem varða öryggi landsmanna,“ segir í greinargerðinni.