Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Session Craft Bar, vinsælum bar við Bankastræti í miðborg Reykjavíkur, verður lokað eftir kvöldið í kvöld. Ástæðan er sú að forsendur rekstrarins eru brostnar eftir að opnunartími hans var styttur frá klukkan 1 á nóttu niður í 23 á kvöldin. Þetta var gert eftir að kvartanir bárust vegna hávaða. Barnum er lýst sem einum þeim rólegasta á þessu svæði en allt í kring eru skemmtistaðir sem opnir eru til fjögur eða hálffimm á nóttunni.
Ásmundur Þór Sveinsson, einn eigenda Session, segir forsvarsmenn staðarins hafa gefist upp eftir erfið samskipti við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. „Þetta byrjaði í kjölfar covid, sem hafði verið nógu erfiður tími. Þá fór að koma mikið af hávaðakvörtunum út af þessum rólega bar. Heilbrigðiseftirlitið gerði hljóðmælingar og skrifaði skýrslu. Í niðurlagi hennar segir að hávaðinn sem mældist á staðnum komi að utan. Þessi skýrsla var samt notuð til að stytta opnunartímann hjá okkur. Þá fór af stað sirkus þar sem við reyndum að átta okkur á því hvað þyrfti að gera. Heilbrigðiseftirlitið vildi minnka ónæði frá staðnum en hvaða ónæði það var var erfitt að henda reiður á. Eftir marga fundi og samtöl fengum við aldrei út hvað það var sem þeir vildu að við gerðum. Við gáfumst því á endanum bara upp. Við höfum reynt að vanda öll samskipti en kannski hefði maður þurft að æsa sig eitthvað.”
Session Craft Bar var opnaður árið 2018 og naut frá upphafi vinsælda enda eins konar vin í eyðimörkinni; rólegur staður þar sem hægt var að setjast niður og tala saman án háværrar tónlistar. „Í grunninn er þetta bara rólegur bar. Hingað hefur fólk komið og spjallað eða spilað borðspil áður en það hélt annað í meira fjör. Við höfum lagt upp með að bjóða upp á besta handverksbjórinn og höfum verið dugleg að taka inn bjór frá brugghúsum úti á landi,“ segir Ásmundur.
Hann segir að eigendur séu opnir með að skoða það að opna Session á nýjum stað ef rétt húsnæði finnst. Næsta mál á dagskrá er þó að kveðja núverandi stað með viðeigandi hætti. „Við höfum verið með hlaupahóp hérna á laugardagsmorgnum og hann verður á sínum stað klukkan 11. Svo verður bjórskóli um miðjan daginn. Við slúttum þessu svo um kvöldið og hingað kemur prestur klukkan hálf tíu sem mun jarða staðinn. Ef einhver vill nýta sér heimsókn frá presti og innsigla vináttuna eða sambandið er ég viss um að hann er til í að taka slíkt að sér.“