Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Okkur vantar svona miðil og ég hef fengið miklar undirtektir eftir að ég birti þessa færslu,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Þór birti í vikunni ákall á Facebook-síðu sinni um að einhver tæki sig til og endurvekti bæjarblaðið Nesfréttir. Það var gefið út í rúm 36 ár af Kristjáni Jóhannssyni prentara en hefur ekki komið út eftir að hann féll frá síðla árs 2023.
Kveikjan að skrifum Þórs var sú að hann rak augun í hið rómaða blað Mosfelling sem gefið hefur verið út af myndarskap í Mosfellsbæ í tæpan aldarfjórðung.
„Okkur vantar þennan miðil aftur. Nesfréttir voru hluti af bæjarbragnum og voru lesnar spjaldanna á milli. Bærinn og stofnanir auglýstu viðburði og komu ýmsu á framfæri við íbúa. Skemmtilegar greinar og viðtöl auk íþróttafrétta voru vinsælar og svo auðvitað Seltirningur mánaðarins sem var ómissandi að fræðast um,“ skrifaði Þór.
Þór kveðst viss um að grundvöllur sé fyrir slíkum rekstri enda þurfi auglýsendur að koma skilaboðum til Seltirninga eins og annars staðar. „Ég er til skrafs og ráðagerða um málið ef einhver er spenntur fyrir þessu þarfa lífsgæðamáli hér hjá okkur,“ segir bæjarstjórinn.