Ástríður Helgadóttir fæddist 14. júlí 1933 á Hrappsstöðum í Vopnafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði 9. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Helgi Gíslason, bóndi á Hrappsstöðum, f. 6.2. 1897, d. 27.7. 1976, og Guðrún Óladóttir, húsfreyja á Hrappsstöðum, f. 4.4. 1898, d. 18.12. 1937. Systkini Ástu eru: Gísli Sigurður, f. 1924, d. 2011, Helga Vilborg, f. 1925, d. 1981, maki var Helge Granberg, Hallgrímur, f. 1927, d. 2019, maki var Sigrún Jakobsdóttir, Stefán, f. 1929, d. 2019, maki Oddný Pálína Jóhannsdóttir, Björn Ingvar, f. 1929, d. 1985, Jónína, f. 1931, maki var Jón Gíslason, Ólöf, f. 1933, d. 2022, maki var Sigurður Björnsson, og Einar, f. 1935, d. 2015.

Ásta giftist 29.12. 1956 Gunnsteini Karlssyni, f. 2.8. 1929 í Haga í Vopnafirði, hann lést 15. nóvember 2016. Börn þeirra eru: 1) Trausti, bóndi á Rauðhólum, f. 2.5. 1958. Maki Steinunn Zoëga fisktæknir, f. 28.8. 1960. Börn þeirra eru: a) Sveinn Oddsson Zoëga tölvunarfræðingur, f. 30.3. 1978. Maki Eva Mjöll Þorfinnsdóttir viðskiptafræðingur, f. 13.6. 1976. Synir Sveins og Hrannar Grímsdóttur, fyrrv. konu hans, eru: Freyr, f. 22.1. 2007, og Hafliði, f. 31.7. 2009. Börn Evu eru: Daníel Smári Hafþórsson, f. 23.3. 1995, Ásta Sigrún Einarsdóttir, f. 6.3. 2001, og Brynjar Dan Einarsson, f. 9.1. 2008. b) Eygló Traustadóttir, stjórnsýslu- og upplýsingafræðingur, f. 2.3. 1983. Maki Óli Gneisti Sóleyjarson, bókasafns- og upplýsingafræðingur, f. 4.2. 1979. Synir þeirra eru: Gunnsteinn Þór, f. 17.7. 2009, og Ingimar Vilhelm, f. 8.3. 2013. 2) Ásta Hanna, landfræðingur, kennari og náms- og starfsráðgjafi, f. 6.1. 1962, búsett á Vopnafirði.

Þriggja ára gömul fór Ásta í fóstur til nöfnu sinnar Ástríðar Sveinsdóttur og manns hennar Ásbjarnar Stefánssonar á Guðmundarstöðum í Vopnafirði. Ásta fór í fóstur vegna veikinda móður sinnar, en Guðrún móðir hennar lést þegar Ásta var fjögurra ára gömul. Hún ólst upp á Guðmundarstöðum til fullorðinsára. Ásta á Guðmundarstöðum lést árið 1956.

Barnaskólafræðsla Ástu fór að mestu fram á Guðmundarstöðum. Hún var einn vetur í skóla á Laugum í Reykjadal. Ásta var í Húsmæðraskólanum á Staðarfelli í Dölum veturinn 1952-1953 ásamt Lóló tvíburasystur sinni. Næsta vetur var hún í vist í Reykjavík.

Ásta var mest heima á Guðmundarstöðum þar til hún flutti í Rauðhóla til Gunnsteins árið 1956. Þau bjuggu á Rauðhólum ásamt foreldrum Gunnsteins, Karli Valdimar Péturssyni og Ingunni Vilhelmínu Guðjónsdóttur, til ársins 1966. Þá fluttu þau með fjölskylduna í kauptúnið á Vopnafirði. Þar byggðu þau sér hús þar sem Ásta bjó í næstum 50 ár.

Ásta vann við fiskvinnslu, en lengst vann hún í Samvinnubankanum og síðast í Landsbankanum.

Útför Ástu fer fram frá Hofskirkju í Vopnafirði í dag, 22. febrúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ásta tengdamamma mín er fallin frá og er mikill söknuður að því að hafa hana ekki lengur hjá okkur og njóta góðsemi hennar og visku.

Í október 1981 flutti ég á Vopnafjörð til að búa á Rauðhólum með Trausta. Svenni sonur minn sem var þriggja ára var með í för. Það vetraði snemma þetta ár og við komumst ekki í sveitina fyrr en 2-3 dögum eftir að við komum á Vopnafjörð vegna ófærðar. Það var vel tekið á móti okkur á Kolbeinsgötunni hjá Ástu og Gunnsteini og þar vorum við í góðu yfirlæti þessa daga. Þar áttum við oft eftir að dvelja aftur þegar á þurfti að halda og mátti segja að við fjölskyldan ættum þar annað heimili.

Ásta var fróð og vel lesin og sjaldan kom maður að tómum kofanum hjá henni þegar maður spurði hana að einhverju. Hún hafði gaman af að ferðast og ferðuðust þau Gunnsteinn ásamt Ástu Hönnu víða um landið. Fóru gjarnan fáfarnar slóðir og gistu í sumarbústöðum. Oft var farið í Stóruvík á Héraði til að fara í berjamó og margar stundir áttu þau í bústaðnum sínum hér á Vopnafirði. Stundum voru barnabörnin með í för og höfðu þau gaman af. Ásta fór líka nokkrum sinnum til útlanda.

Ásta hafði gaman af allri ræktun, garðurinn var stór og þar var líka gróðurhús fullt af angandi rósum og öðrum blómum.

Hún var líka mikil handavinnukona og heklaði og prjónaði af miklu kappi, ekki síst ef hún var beðin um að gera eitthvað. Þá sat hún við þangað til verkinu lauk. Eftir hana liggja ótal sjöl, teppi, gardínur, peysur og ullarsokkar ásamt mörgu fleiru, allt svo fallegt og vel gert enda var Ásta sérlega vandvirk. Fyrir nokkrum árum heklaði hún teppi handa stórum hluta fjölskyldunnar, komin á níræðisaldur.

Fyrir tveimur og hálfu ári fékk Ásta heilablæðingu og lamaðist vinstra megin og komst ekki á fætur eftir það. En mátturinn jókst þó smátt og smátt aftur alveg fram undir það síðasta. Hugurinn var alltaf skýr og minnið gott. Eftir að Ásta varð rúmföst var hennar helsta afþreying að lesa, því að sjónin var góð þó að heyrnin væri farin. Hún sinnti lestrinum af kappi eins og öðru sem hún gerði og las stundum eina bók á dag.

Ásta var mikill dýravinur og stundum var köttur eða kanína á heimilinu. Við fengum okkur hvolp í sumar og hún hafði mjög gaman af að fá hann Sóma í heimsókn til sín á hjúkrunarheimilið.

Takk fyrir allt, elsku Ásta. Minningin um góða konu mun lifa.

Steinunn R. Zoëga.

Elsku amma mín.

Ég er þakklát. Þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu. Einmitt þig. Þú áttir endalaust af umhyggju og væntumþykju fyrir mig. Ég var alltaf velkomin hjá þér. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig. Við áttum hvor aðra að. Eða eins og stendur á ísskápsseglinum sem ég gaf þér: „Yndislega amma, þú dáir mig og dýrkar – og ég þig!“

Ég á svo margar góðar minningar um þig. Við vörðum miklum tíma saman þegar ég var krakki. Ég man eftir göngutúrunum upp í Kletta. Þetta stóra ævintýraland, beint ofan við húsið ykkar afa. Ég man eftir rjómapönnukökunum sem voru svo góðar hjá þér. Ég man eftir endalausum spilastundum. Ég kom oft til ykkar afa eftir skóla eða um helgar og við spiluðum tímunum saman – rommí, ólsen, þjóf, veiðimann, kasínu, lönguvitleysu, svartapétur, borðvist og alls konar spil. Seinna spilaðirðu svo við strákana mína, Gunnstein Þór og Ingimar Vilhelm. Ég er þakklát fyrir að þeir fengu að kynnast þér.

Ég man eftir bústaðaferðunum, bæði í Ytri-Hvamm þar sem þið afi áttuð ykkar yndisreit mitt á milli æskuheimilanna ykkar og svo ferðirnar þar sem farið var lengra. Eftirminnileg er ferðin í Brautarhöfðavík í Húnavatnssýslu þar sem við brugðum okkur á Strandirnar í leiðinni fyrst við vorum komin svona langt hvort sem var. Eins ferðin í Arasel í Lóni þar sem við m.a. skruppum upp á jökul á snjóbíl. Mörg haust fórum við líka í Stóru-Vík á Héraði með það helsta markmið að tína ber m.a. í Hallormsstaðaskógi. Eftir að ég varð fullorðin hélt ég áfram að kíkja við í bústað hjá ykkur þegar færi gafst, t.d. á Snæfellsnesi, í Skagafirði og í Fnjóskadal.

En mest vorum við saman á Kolbeinsgötunni og þar snérist þetta oftast ekki um stórar upplifanir. Þar snérist þetta um samveru og nærveru; litlu hlutina, spilin og spjallið.

Sumarið 2022 kom stóra áfallið. Þú fékkst heilablóðfall og gast ekki gengið eftir það. Á tímabili vorum við hrædd um að við værum búin að missa þig, a.m.k. hluta af þér, en þú komst til baka. Eldklár og skýr í kollinum eins og þú áttir að þér að vera. Eftir áfallið vildir þú ekki nota heyrnartækin en við gátum áfram spjallað. Ég skrifaði, þú last og svaraðir mér. Og þú mundir allt sem þér var sagt. Seinna um sumarið fékkstu covid og þurftir að vera í einangrun. Það vildi svo heppilega til að ég var nýbúin að fá covid og var í sumarfríi fyrir austan. Ég gat því endurgoldið brot af þeirri umhyggju sem þú sýndir mér í gegnum tíðina. Ég er þakklát fyrir þessa daga sem snérust einmitt svo mikið um samveru og nærveru.

Þú heldur áfram að hlýja mér og mínum því þú skildir eftir fallega vettlinga, húfur, sjöl, peysur, teppi og sokka. Við yljum okkur líka við ljúfar minningar. Takk fyrir allt, elsku amma.

Eygló Traustadóttir.

Það er komið að kveðjustund en í dag kveðja fjölskylda, vinir og sveitungar hana Ástu ömmusystur mína. Ég minnist Ástu með hlýju og kærleik enda var hún einstaklega góð kona og reyndist mér vel.

Þær amma voru tvíburasystur, númer sjö og átta í níu systkina hópi. Þegar þær voru fimm ára misstu systkinin móður sína sem dó úr berklum á Kristnesi. Í kjölfarið voru systurnar aðskildar, Ásta fór í fóstur í Guðmundarstaði en amma var heima á Hrappsstöðum hjá föður þeirra. Ég ólst upp við óendanlegan kærleik frá ömmu minni og afa í Vopnafirði og í kaupbæti fékk ég ást og kærleik frá systkinum ömmu. Ég þekkti ekkert annað en að heimsækja þau flest þegar ég var í Vopnafirði og man varla eftir að hafa komið þangað án þess að heimsækja Ástu. Hún tók mér alltaf eins og eigin barnabarni, brosti á sinn sposka hátt, faðmaði mig, hélt aðeins lengur um hendur mínar en þurfti og bar svo á borð kræsingar. Það var hálfgert ævintýri að koma til Ástu. Hún og Gunnsteinn áttu svo fallegt hús, fallegt heimili, einstakan garð, dýrðlegar rósir, gróðurhús og svo átti hún alltaf eitthvað gott í gogginn. Ásta hafði þann eiginleika að gera fallegt í kringum sig eins og sagt er, var mjög smekkleg, mjög veitul og hafði hlýja nærveru.

Sem barn áttaði ég mig ekki á þeim sársauka sem móðurmissir þýðir. Ég velti því heldur ekkert fyrir mér hvað það þýddi að vera tvíburi og fá ekki að alast upp saman. Ég fann bara ósýnilega strenginn á milli þeirra en þær systur voru nánar og urðu að ég held nánari eftir því sem árin liðu. Þeim tókst báðum að lifa í sátt við Guð og menn og hugsuðu mikið um aðra. Mér finnst þær báðar hafa verið mér mikil fyrirmynd þegar kemur að góðvild, náungakærleik og skilningi varðandi annað fólk og mismunandi aðstæður þess. Þær áttu eldri systur, hana Nínu, en þær systurnar, amma Lóló, Ásta og Nína, voru og eru mér allar einstakar og hafa hver á sinn hátt átt þátt í minni persónu og sýn á lífið. Ég hef margt að þakka og þá ekki síst að hafa alist upp við alla þessa elsku, hlýju og góðvild.

Ásta hafði marga góða kosti. Hún var einstök handavinnukona og eftir hana liggja ófá listaverkin, meðal annars eldhúsgardínurnar mínar og dásamlegt heklað teppi sem var síðasta gjöfin hennar til mín. Hún gaf mér margt í gegnum árin. Ég á áritaða hvíta Biblíu frá Ástu, peysu, mokkajakka og skart. Ástu tókst að láta mér líða eins og ég væri sérstök, það er ekki lítill eiginleiki. Ásta var líka vel gerð og dugleg eins og systkinin öll, hún var vel lesin og fylgdist vel með, hún var næm á fólk og tilfinningar og tók þeim verkefnum sem lífið færði henni af stóískri ró.

Ég votta Ástu Hönnu, Trausta, Steinunni og fjölskyldunni samúð, hugur minn er hjá ykkur í Vopnafirði í dag.

Ólöf Ása Benediktsdóttir.