Ein af myndum Joakim Eskildsen á sýningunni. Myndaröðin mun á næstu árum koma út í bók.
Ein af myndum Joakim Eskildsen á sýningunni. Myndaröðin mun á næstu árum koma út í bók.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta verkefni er dálítið eins og mínímalísk tónlist. Þar vinn ég með fá viðfangsefni og endurtek þau.

Á samsýningunni Nánd hversdagsins eru sýndar rúmlega 60 ljósmyndir eftir þekkta alþjóðlega listamenn. Einn þeirra er danski ljósmyndarinn Joakim Eskildsen, en verk hans hafa verið sýnd víða um heim.

Eskildsen býr í Berlín ásamt fjölskyldu sinni og er þekktur fyrir ljósmyndir sínar um samfélög á jaðrinum, þar á meðal um Rómafólk. Á sýningunni í Listasafni Íslands sýnir hann myndaröðina Home Works, þar sem hann dregur upp mynd af heimilislífi fjölskyldunnar yfir langt tímabil.

Samfélag á jaðrinum

Hann segir ljósmyndaröð sína um líf Rómafólks hafa breytt lífi sínu, en hann vann að henni í sjö ár. „Forsaga þess verkefnis er sú að mér var boðið að kenna í Soweto í Afríku. Við konan mín, Cia, gerðum saman myndabók um nokkur þorp í Afríku, ég tók myndirnar og hún samdi textann. Þetta var fyrsta ljósmyndabók mín þar sem ég beindi sjónum að samfélagi á jaðrinum. Þegar við snerum aftur heim áttaði ég mig á því að Rómafólkið er yfirleitt flokkað sem annars flokks borgarar. Ég ákvað að kynnast lífi og kjörum þessa fólks og dvaldi hjá því.

Þarna lifði fólk sínu eigin lífi og er áberandi úrræðagott, ég dáðist að lausnum þess, eins og því hvernig það hitaði hús sín. Ég áttaði mig á því hversu við, sem höfum það gott, erum takmörkuð að mörgu leyti. Ég lærði af Rómafólkinu hvað við erum upptekin af einni aðferð við að hugsa og það gerði að verkum að ég hef reynt að verða frjálsari í hugsun. Þetta varð nokkuð pólitískt verkefni.

Rómaverkefnið vakti verulegan áhuga á mér sem ljósmyndara og gekk einnig vel fjárhagslega. Við hjónin áttum enga peninga en fjárhagurinn batnaði verulega og við gátum keypt íbúð. Rómaverkefninu lauk þegar við hjónin áttum von á barni. Ég einbeitti mér að því að vera faðir, var heima og tók myndir. Það var ekki fyrr en ég var búinn að mynda í tæp tvö ár sem ég áttaði mig á því að ég væri að skapa nýtt verk. Verk sem væri gjörólíkt Rómaverkefninu, sem ég vildi alls ekki endurtaka.“

Ljósmyndaverkefni Eskildsen Home Works er engan veginn lokið. Hann hefur þegar tekið 400-500 myndir en einungis nokkrar þeirra eru á sýningunni í Listasafni Íslands. Hann hyggst ljúka verkefninu á næstu þremur til fjórum árum og þá mun ljósmyndaröðin birtist á bók.

Hreyfing tímans

Ljósmyndaröðin samanstendur af myndum af fjölskyldunni þar sem sonur hans og dóttir eru áberandi. Þar eru einnig landslagsmyndir. „Við fjölskyldan vorum í miklum flutningum og fluttum sjö sinnum áður en við keyptum okkur hús, sem er eiginlega bóndabær 40 kílómetra frá Berlín. Myndaröðin lýsir þessum tíma og ólíkum híbýlum okkar og aðstæðum. Landslagsmyndir eru áberandi í byrjun en síðan fara manneskjur að sjást, börn sem stækka og eru undir lokin orðin fullorðnar manneskjur. Þetta verkefni er dálítið eins og mínímalísk tónlist. Þar vinn ég með fá viðfangsefni og endurtek þau. Þarna er himinn, land, heimili og manneskjur.“

Eskildsen segir þessa myndaröð og myndaröðina um Rómafólkið vera gjörólík verkefni. „Þetta er önnur tegund af ljósmyndun. Þegar ég vann að Rómaverkefninu var ég eins og veiðimaður og fór út til að veiða. Í þessu verkefni er ég eins og munkur og myndefnið kemur til mín. Þetta er hægara verkefni, en meira krefjandi og myndirnar bera það með sér.

Myndirnar minna mig á æskudrauma mína um hvað ég vildi verða. Þær vekja einnig upp hugleiðingar um árstíðir og dauða. Þegar maður sér myndirnar á sýningu, og seinna í bók, finnur maður fyrir árstíðunum og hversu hratt þær líða. Það eru líka nokkrar sjálfsmyndir af mér í bókinni frá ólíkum tímum. Það má segja að myndaröðin fjalli um hreyfingu tímans. Hún er mjög persónulegt verk. Þar vel ég myndefni, lýsingu og stemningu þannig að ég er á vissan hátt að skapa heim.“

Samsýningin Nánd hversdagsins stendur til 5. maí.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir