Júlíus S. Fjeldsted fæddist í Reykjavík 9. janúar 1978. Hann lést 30. janúar 2025.
Foreldrar hans eru Lilja Hrönn Júlíusdóttir, f. 31. janúar 1960, og Sverrir Kristjánsson, f. 10. ágúst 1959.
Júlíus var elstur þriggja systkina en systur hans eru Erla Kristín, maki Vilhjálmur Warén, synir þeirra eru Benedikt, Gabriel og Marius, og Bergdís Brá, sonur hennar er Henry Kristall.
Börn Júlíusar eru 1) Hekla Líf, maki Heiðar Már, synir þeirra eru Emil Tryggvi og Garðar Gabríel, 2) Sigríður Máney, 3) Kristján Mikael, 4) Viktoría Rós, 5) Esekíel Elí, 6) Þorgeir Kristinn og 7) Katla María.
Útför hefur farið fram.
Elsku sonur.
Það er mikill tregi og sársauki sem fylgir því að missa barnið sitt. Nú ert þú kominn í draumalandið þar sem amma og afi munu taka á móti þér og umvefja þig af ást. Við munum varðveita og halda í minningarnar okkar sem við áttum saman hér á jörðu. Þangað til næst, elsku sonur.
Sonur minn, sofðu í ró!
Söngfuglar blunda í mó.
Vorkvöldið hreimþýðum hljóm
hjalar við dreymandi blóm.
Kvöldbjarmans himneska hönd
heillar í draumfögur lönd.
Svefninn þér sígur á brá,
sofðu, ég vaki þér hjá.
Ég vaki þér hjá.
(Guðmundur E. Geirdal)
Mamma og pabbi.
Elsku Júlli minn. Tæpu ári eftir að þú fæddist kom ég í heiminn þann 5. janúar og þú varst orðinn stóri bróðir. En þrátt fyrir það vorum við jafn gömul í „heila“ fjóra daga á ári og alla þessa fjóra daga minnti ég þig á það – þvílíkt montin sem ég var! En ég get ekki sagt að þú hafir verið jafn spenntur og ég, því þú varst stoltur stóri bróðir og vildir ekki taka þátt í þessari gleði með mér og beiðst óþolinmóður eftir því að þessir fjórir dagar liðu svo lífið yrði „eðlilegt“ á ný.
Við ólumst næstum upp sem tvíburar. Afmælin héldum við saman, deildum herbergi og sváfum fyrstu árin í kojum og spjölluðum á kvöldin þegar við áttum að vera sofnuð. Við fengum gott uppeldi, jafnvel meira en það, því foreldrar okkar gáfu okkur ást og umhyggju.
Við fluttum oft á milli hverfa hér í Reykjavík og jafnvel milli landa og því fylgdu ný ævintýri og nýir vinir reglulega. Þó reyndi það oft á okkur og þá sérstaklega á þig elsku bróðir. Á unglingsárunum bjuggum við í Grafarvoginum og þar kynntumst við okkar æskuvinum. Þú fórst í sveit á sumrin, lærðir sveitamennskuna og komst svo heim á haustin reynslunni ríkari.
Þú varst ævintýragjarn, uppátækjasamur og heillandi krakki. Þú varst alltaf brosandi og gafst mikið af þér og máttir aldrei neitt aumt sjá. Þegar þú varst unglingur kom snemma í ljós hversu mikillar kvenhylli þú naust – stelpurnar voru svooo skotnar í þér. Ég man að stundum varaði ég vinkonur mínar við, að þær mættu alls ekki verða skotnar í þér, en það tókst nú ekki alltaf og margar féllu kylliflatar. Þegar þú varst 12 ára fæddist litla systir okkar Bergdís og við vorum svo stolt. Nú vorum við orðin þrjú og mikið vorum við montin með að eiga litla systur.
Þegar Júlli var um tvítugt ákvað hann að starfa sjálfstætt og var mjög stoltur af því. Hann vann við hellulagnir, flísalagnir, múrun, jarðvegsvinnu og fleira.
Júlli bróðir var sjarmerandi, skemmtilegur og einstaklega fallegur maður. Hann var mikill fjölskyldumaður og vildi alltaf að við hittumst og borðuðum saman. Hann elskaði sitt fólk og þau elskuðu hann. Hann var skemmtilegi frændinn sem kom alltaf í heimsókn með bros á vör, knúsaði alla og laumaði oft seðlum eða nammi að litlu frændum sínum. Hann hló oft að vitleysunni í sjálfum sér og fékk aðra til að hlæja með sér.
Elsku bróðir, þú lifðir hratt (og keyrðir hratt) og við höfðum varla undan að fylgjast með þér og fylgja þér eftir. Það væri sannarlega hægt að gera stórmynd um líf þitt, en þá þyrftum við góðan leikstjóra með góðan húmor.
En því miður er lífið ekki alltaf dans á rósum og oft sóttu að þér púkar sem þú reyndir að slá frá þér eftir bestu getu – allt frá unga aldri. Þú varst „Kóngur einn dag, þann næsta í bólakafi“ og tómleikinn tók oft yfir. En þeir sem þekktu þig elsku bróðir minn vissu að þú vildir öllum vel.
Við fjölskyldan þín munum minnast þín að eilífu og erum þakklát fyrir að hafa fengið að vera þér samferða í lífinu.
Með þessum orðum kveð ég þig, elsku bróðir minn. Ég mun ávallt elska þig og ylja mér við minningarnar okkar.
Erla systir.
Elsku bróðir minn Ljónshjarta.
Í mörg ár hef ég kallað þig þessu, bróðir minn Ljónshjarta. Ég segi það við þig í orðum, skilaboðum eða set það í kveðjur til þín. Þegar ég var yngri þá las ég bók sem heitir „Bróðir minn Ljónshjarta“ og hún sat lengi vel í mér. Bæði er hún með fallegan boðskap, einlæg og svo er þetta bara svo falleg setning, fallegt orðaval. Þess vegna kallaði ég Júlla þetta.
Fyrir ekki svo löngu hringdir þú í mig, sérstaklega til að segja mér að þú hefðir hlustað á bókina. Þú sagðir: Hæ elskan mín, ég var að byrja að hlusta á bókina „Bróðir minn Ljónshjarta“, og Bergdís, hann er dáinn! Hann er dáinn í sögunni. Þetta stakk mig og fannst þetta mjög leiðinlegt, þetta var ekki ætlunin. Ég útskýrði fyrir þér að ég hefði ekki munað þetta þannig heldur sem fallega minningu með fallegum orðum sem mér fannst eiga við þig. Núna er svo súrrealískt að hugsa til þessara minninga. Nú er fallegi, góði, blíði og besti bróðir í heimi, bróðir minn Ljónshjarta, Júlli bróðir minn, dáinn. Ég trúi þessu ennþá ekki.
Elsku Júlli, þú kannt að elska, þú kannt að sýna ást þína í orði og verki. Þú ert elskaður.
Þú ert hugrakkur og vilt öllum vel. Þú hefur alltaf viljað gera hundraðfalt meira en þarf. Þú ert mikill fjölskyldurmaður og gamaldags. Grunnhefðirnar skiptu þig máli, sumar sneiðst þú algjörlega að þér. Þú ert mikill hefðakarl.
Þú elskar hefðir, þú elskar mat. Maður fór aldrei frá þér án þess að hafa með sér „nesti“, drykk eða mat, nammi eða bara það sem þér datt í hug að geta gefið manni.
Þú ert mikill karakter og því margt sem einkennir þig. Þú ert snyrtipinni, alltaf vel tilhafður, góð lykt af þér og vel klipptur í fínum fötum. Júlli klippti sig alltaf sjálfur, sama klippingin og alltaf jafn vel gert. Þú varst alltaf með fallegt og hreint heimili.
Þú ert einstaklega vel gefinn, skemmtilegur og með smitandi hlátur. Mikill húmoristi og hefur húmor fyrir sjálfum þér. Þú lifðir lífinu svo sannarlega lifandi.
Sambandið okkar er einstakt. Við eigum margt sameiginlegt eins og dökka hárið okkar og tónlistarsmekkinn. Ég vildi óska að Henry Kristall fengi að þekkja þig lengur. Ég veit að þið hefðuð orðið bestu vinir. Ég sakna þín alveg gríðarlega mikið, mér finnst þetta svo óskiljanlegt. Ég er hrædd. Ég þekki ekki lífið án þín. Sorgin mín er óviðráðanleg en ég lofa þér elsku bróðir minn að ég mun gera mitt besta að vinna mig úr henni. Ég veit að þú hefðir viljað það, því þú vildir bara það besta fyrir mig.
Þegar ég var fimm ára gafstu mér fyrsta seðilinn minn, fimmhundruðkall. Ég gaf þér þinn síðasta seðil, ásamt bréfi og myndum, kyssti þig og strauk þér um vanga.
Ég elska þig. Ég sakna þín. Ég lofa að halda utan um börnin þín, börnin þín eru börnin mín.
Bróðir minn Ljónshjarta,
fallegastur allra, það er hann,
með hjartað sitt stóra.
Rigning, haglél, slydda og snjór,
við bættust þrumur og eldingar.
Heimurinn syrgir, heimurinn grætur
því Júlli minn er farinn ferðar sinnar.
Hinum megin sólarnætur,
faðir sjö fagurra barna,
bróðir minn Ljónshjarta.
Þín litla systir,
Bergdís Brá.
Elsku Júlli okkar!
Hér sitjum við mæðgin og minnumst þín, þú varst svo myndarlegur, söngelskur, barngóður og fallega brosið þitt er ógleymanlegt. Þú lifðir hratt elsku vinur og frændi, gerðir margt í lífsins ólgusjó.
Dýrmætar eru minningarnar frá Noregi þar sem þú Ottó og Erla fóruð í sturtu og mikið var gaman þá ef sturtuvatnið hefði ekki verið olía úr tunnu sem notuð var til að hita húsið.
Þú og Ottó voruð sannkallaðir sveitamenn, fóruð í sveit hvert sumar og einu sinni í sömu sveit. Þú vildir alltaf allt fyrir frænda þinn gera alla tíð, og matmenn voruð þið miklir og hélduð ófá þorrablót og skötuveislur saman.
Júlli minn, við vorum ekki bara frændur, við vorum æskuvinir, pabbar okkar voru frændur og æskuvinir, og mömmur okkar æskuvinkonur. En nú sitjum við mamma og skrifum hinstu kveðju til þín, ég lít upp og sé þig fljúga hátt, sjáumst síðar.
Elsku Lilja, Sverrir, Erla, Bergdís börn og barnabörn Júlla og aðrir ástvinir, öll okkar samúð er hjá ykkur.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Ottó Örn Þórðarson og Eva Ottósdóttir.