Guðrún Hafsteinsdóttir segir mikilvægt að breyta ásýnd Sjálfstæðisflokksins og ná til stórra hópa fólks sem snúið hafi baki við flokknum á síðustu árum. Hún sé rétta manneskjan til þess. Hún telur að flokkurinn hafi í of miklum mæli talað máli öflugra aðila sem geti sjálfir haft orð fyrir sér. Leiða þurfi saman ólíkar stéttir og að reynsla hennar og bakgrunnur muni nýtast til þess.
Þetta kemur fram í hispurslausu og ítarlegu viðtali við Guðrúnu á vettvangi Spursmála sem aðgengilegt er á mbl.is. Þar segist hún ekki tilheyra neinni fylkingu innan flokksins. Það sjáist best á því að hún hafi ekki gefið sig að formlegu stjórnmálastarfi fyrr en árið 2021. Hins vegar þurfi að skoða breytingar á innra skipulagi Sjálfstæðisflokksins sem ýti undir erjur og geri fólki, sem um langan aldur hafi haft metnað til frama innan flokksins, kleift að hafa áhrif á flokks- og hverfafélög innan hans.
178 milljónir króna
Í viðtalinu segist Guðrún vilja endurgreiða ríkisstyrki sem flokkurinn hlaut vegna starfsemi sinnar árið 2022 þegar enn vantaði nokkuð upp á það að hann fullnægði nýjum skilyrðum um skráningu stjórnmálaflokka hjá Ríkisskattstjóra. „Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að hafa forgöngu um að endurgreiða þessa styrki.“ Hún segir þó að ábyrgð fjármálaráðuneytisins sé einhver en Bjarni Benediktsson, fráfarandi formaður flokksins, var fjármála- og efnahagsráðherra á þeim tíma þegar greiðslan fór fram.
Verði Guðrún kjörin formaður má þá gera ráð fyrir að ríkissjóði verði endurgreiddar þær 178 milljónir sem flokkurinn fékk í sinn hlut samkvæmt skiptingu ríkisstyrks til stjórnmálaflokka árið 2022.
Hörð á móti ESB
Guðrún var formaður Samtaka iðnaðarins á árunum 2014 til 2020. Þegar hún tók við tók hún slaginn við þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ákvað að afturkalla formlega aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hún krafðist þess að viðræðum yrði haldið áfram og þeim lokið. Í viðtalinu nú ítrekar Guðrún hins vegar að hún hafi þá, rétt eins og nú, verið mótfallin inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
„Ég held að það yrði feigðarflan ef við ætluðum núna að rjúka inn í Evrópusambandið þar sem hagvöxtur hefur nánast verið enginn. Það er helmingi meiri hagvöxtur í Bandaríkjunum og enn meiri hér á Íslandi. Við eigum ekki að hlaupa inn í efnahagsumhverfi sem er lakara en okkar,“ segir Guðrún.
Ef það er eitthvað sem er eitur í mínum beinum þá er það miðstýring og forsjárhyggja og mér þykir miðstýring Brussel vera orðin allt of mikil í Evrópu og hún er íþyngjandi,“ útskýrir Guðrún nánar og bendir á að álfan sé að missa samkeppnishæfni sína hratt.
Í viðtalinu er orðum meðal annars vikið að íslenskri matvælaframleiðslu og tollum sem girða fyrir innflutning á erlendum matvælum. Guðrún segir það kerfi við lýði um heim allan og mikilvægt sé að standa vörð um matvælaöryggi landsins og að bændur séu í færum til að framleiða afurðir í heimi þar sem við erum í samkeppni við stærstu þjóðir heims.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir telur mikilvægt að ná sátt milli ólíkra hópa innan Sjálfstæðisflokksins. Hún telur til að mynda að ganga eigi til leiðtogaprófkjörs í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Í kjölfarið muni kjörinn leiðtogi hafa mikið um það að segja hverjir veljist á lista með honum. Hún telur einnig að formaður flokksins muni skipta máli við að lægja öldurnar í höfuðborginni, en eins og flestir vita hefur hver höndin verið upp á móti annarri í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins um langt árabil.
„Ég tel að það geti skipt máli að formaðurinn komi sjálfur úr Reykjavík og beri þar með mikla ábyrgð á eigin kjördæmi, að við náum meiri árangri á sveitarstjórnarstiginu. Ég hef verið vonsvikin með hvernig starfið hefur verið upp byggt um langa hríð og sumir segja að það séu praktísk úrlausnarefni þegar maður ræðir um Valhöll eða skipulagsreglur flokksins eða uppbyggingu innra starfsins. Ég hef alla tíð haft gríðarlegan áhuga á þessu af því að mér finnst þetta vera rætur flokksins, þ.e. stoðirnar gagnvart því hvernig við ætlum að stækka og ná meiri árangri.“ Bendir hún á að skipulag flokksins í borginni taki enn mið af gamalli sóknarskipan. Það þurfi að hugsa upp á nýtt og á grunni þarfa samtímans.
„Við þurfum að vera algjör kamelljón í að koma stefnunni á framfæri, hvort sem það er með öflugum fundahöldum, fjölmiðlun og skrifum í blöðin en það verður líka að gerast á miðlunum sem unga fólkið er á og við verðum að þora að fara í ræturnar á skipulagi flokksins,“ útskýrir hún. Vill hún kanna möguleika á því að formaður verði kjörinn í almennri kosningu allra flokksfélaga.
Í viðtalinu svarar Áslaug Arna fyrir þá ákvörðun sína að fá einkarekna háskóla á Íslandi til þess að fella niður skólagjöld, gegn því að ríkið bætti þeim upp tekjutapið sem af því hlaust. Vill hún meina að þetta hafi verið agnarsmá ákvörðun í stærri breytingu á kerfi þar sem auka þurfi aðsókn að arðbæru námi og draga úr sóun innan kerfisins.
Því hefur verið beint að Áslaugu í aðdraganda landsfundar að hún sé málsvari einhvers konar elítu. Nefnir þáttarstjórnandi í því sambandi útgerðarfélög landsins, en faðir Áslaugar er Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Er hún spurð hvort þetta geti orðið henni að fótakefli við að ná til fólksins í landinu.
„Ég hef engin fjárhagsleg tengsl við útgerðina í landinu og ég hef alltaf talað skýrt fyrir litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Og ég held að það sé lykilatriði að forystumaður í flokknum geti nýtt sér reynsluna og þekkinguna sem býr í breiddinni í Sjálfstæðisflokknum sjálfum. Formaður einn og sér mun aldrei einn og sér hafa þá breidd og þekkingu sem þarf til að takast á við það verkefni sem fram undan er hjá Sjálfstæðisflokknum, enda er það ekki verkefni formannsins eins [...] í flokknum býr gríðarleg viska og reynsla á mörgum sviðum. Þar er fjöldi fólks sem hefur rekið sitt eigið fyrirtæki, þar eru kennarar og heilbrigðisstarfsfólk. Þar er fólk í íþróttahreyfingunni og bændur.“