Kvikmyndir
Jóna Gréta
Hilmarsdóttir
Allra augu á mér er ný íslensk kvikmynd sem fjallar um Gunnar (Guðmundur Ingi Þorvaldsson) sem nákvæmlega ári áður en myndin hefst missti konu sína og son. Til að heiðra minningu þeirra ákveður hann að ganga að staðnum þar sem þau létu lífið og á leiðinni hittir hann pólska konu, Ewu (Oliwia Drozdzyk), sem er komin til Íslands til að fara í fóstureyðingu. Af hverju hún er fótgangandi úti í sveitinni þegar það er markmið hennar er óútskýrt eins og svo margt annað í myndinni. Ewa fær að fylgja honum, enda ekki í stakk búin til að ferðast í íslenskri náttúru þó að veðrið sé gott. Þau virðast í fyrstu gjörólík en þau eiga það sameiginlegt að búa yfir myrkri hlið og þegar þær mætast er voðinn vís.
Myndin var tekin upp á tíu dögum í Eilífsdal í Kjós og er samstarfsverkefni Guðmundar Inga Þorvaldssonar, leikara og framleiðanda, og Pascals Payant, en hann sá um að skrifa, leikstýra, taka upp, klippa, litgreina og hljóðvinna myndina. Það má því segja að myndin sé nánast eins manns mynd en það eina sem hann þurfti í tökur var hljóðmaður og leikarar. Það sést hins vegar langar leiðir að myndin var gerð á stuttum tíma og af litlu teymi með takmarkað fjármagn.
Allra augu á mér er í raun sýnidæmi um það að til að gera góða mynd er gott að hafa pening, tíma og alvöru mannafla. Það þýðir ekki að það sé ekki hægt án þess, það eru til margar mjög góðar svokallaðar „indímyndir“ (e. independent films) þar sem verið er að vinna með takmarkað fjármagn. Þess má geta að leikstjórinn Sean Baker, sem gerði eina bestu mynd síðasta árs Anora og er tilnefndur til Óskarsins fyrir þá mynd, byrjaði að skjóta myndirnar sína á þessa vegu. Hann skaut til dæmis myndina sína Tangerine (2015) á iPhone. En til þess að mynd geti orðið góð þarf handritið að vera gott, sama hvort um er að ræða ódýra eða dýra mynd. Handritið í Allra augu á mér er einfaldlega ekki nógu vel unnið og þar sem ekki eru peningarnir til að fela það með fallegum skotum eða stílfærðri leikmynd verður það mjög áberandi.
Handritið fjallar í raun ekki um neitt, það er engin byrjun, miðja eða endir, sem er kannski hægt að komast upp með í auglýsingu eða tónlistarmyndbandi en yfirleitt ekki í kvikmynd. Á heildina litið er myndin samansett af atriðum af þeim Ewu og Gunnari þar sem þau ganga um í íslensku náttúru og eiga ónáttúruleg og þar af leiðandi ótrúverðug samtöl. Af því að ekki er skýr söguþráður lítur myndin líka oft á tíðum út fyrir að vera ilmvatns- eða túristaauglýsing, sérstaklega sá hluti myndarinnar þegar Ewa er kynnt fyrir áhorfendum. Hún talar beint í vélina og í kjölfarið fáum við falleg skot af henni í íslenskri náttúru. Maður nýtur þess að horfa á hana þar sem hún er mjög myndvæn en maður er engu nær því að skilja hana sem sögupersónu. Við komumst í raun aldrei nógu nálægt persónum til þess að skilja þær og getum þar af leiðandi ekki sett okkur í spor þeirra eða reynt að skilja þau; þannig myndast ákveðin gjá á milli áhorfenda og persóna. Það er greinilegt að leikstjórinn vill ekki mata áhorfendur á upplýsingum og vill halda ákveðinni dulúð en þegar manni er haldið í myrkrinu meira og minna allan tímann missir maður loks áhugann.
Inni á milli koma svo endurlit og ljóðræn atriði sem eiga að gefa meira upp um fortíð Gunnars og Ewu. Þar brjóta þau oft fjórða vegginn og horfa í tökuvélina, sem gerir myndina í raun enn auglýsingalegri. Það sem er hins vegar mest truflandi við þessu atriði, þegar persónur tala beint við áhorfendur, er að það er ekki ljóst hvað leikstjórinn ætlar sér, þar sem þau styrkja hvorki söguþráðinn né sögupersónuna og bæta þar af leiðandi litlu við og virka í staðinn tilgerðarleg.
Langbesta atriðið á sér stað í fortíðinni þegar Edda (Svandís Dóra Einarsdóttir) gerir tilraun til að bjarga systur sinni úr því ofbeldissambandi sem Gunnar og Heiðrún (Þóra Karítas Árnadóttir) áttu í. Ástæðan fyrir því er að í atriðinu er langmest að gerast og langmest sagt en hvergi í myndinni koma til dæmis fram fleiri persónur. Leikur leikaranna er hins vegar því miður heldur ekki nógu sterkur til að bera alla myndina uppi en það er líka vegna þess að þau hafa lítið í höndunum til að vinna með og erfitt er að ímynda sér að Payant hafi haft mikil tök á því að fara ýtarlega í leikstjórnarpælingar á tökustaðnum.
Payant tekur sjálfur upp myndina og það er svolítið eins og hann hafi bara sett tökuvélina á gimbil, sem er tæki sem heldur tökuvélinni stöðugri, og beðið leikarana að flytja texta sinn síðan á meðan hann reynir að fanga það sem hann sér. Það er erfitt að ímynda sér að það hafi verið gerður skotlisti áður en haldið var í tökur, þar sem oft er erfitt að skilja af hverju hann ákveður að taka upp ákveðin atriði á þennan máta og lítið samræmi er í kvikmyndatökunni heilt yfir.
Hins vegar býður þetta frelsi, þ.e.a.s. að reiða sig ekki á ljósamenn eða aðra utanaðkomandi þætti, upp á það að ná þessum töfraaugnablikum sem er erfitt að skipuleggja. Eitt skot í myndinni fangar þetta fullkomlega, en það er þegar lítil birta smeygir sér inn í helli og lýsir svo fallega upp Ewu og hellinn sem glitrar í kringum hana. Lýsingin virkar sem eins konar náttúrulegt kastljós, sem varpar mjóum, sterkum ljósgeisla beint á stað eða manneskju, sem oft er gert á sviði. Maður veltir því fyrir sér hvort Payant hafi skipulagt að skjóta senuna þegar sólin myndi smeygja sér í gegnum þetta gat í hellinum eða hvort það hafi einfaldlega verið heppni að þeim tókst að fanga þetta undurfallega augnablik. En miðað við skipulagsleysið myndi rýnir giska á hið seinna.
Payant ákvað að gera tíu myndir með þessum hætti og er búinn að gefa út þrjár, Allra augu á mér er fjórða myndin, og er rýnir ekki mjög spenntur að sjá hinar myndirnar hans. Allra augu á mér er heiðarleg tilraun til að gera mynd án fjármagns, tíma og alvöru mannafla sem misheppnast en það þýðir ekki að allar slíkar myndir séu slæmar, enda er grunnvandamál myndarinnar ekki það heldur handritið, þar sem söguþráður og sögupersónur eru óskýrar og ná ekki að halda athygli áhorfenda.