Texti Á sýningunni má sjá forvitnileg textaverk þar sem finna má ljóð eða smásögur um m.a. kynlíf og kvíða.
Texti Á sýningunni má sjá forvitnileg textaverk þar sem finna má ljóð eða smásögur um m.a. kynlíf og kvíða. — Ljósmyndir/María Margrét Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gallery Port Fortíðin sem núið ber ★★★★· Verk eftir Georg Óskar Giannakoudakis. Sýningin stendur til 1. mars 2025. Opið miðvikudaga til föstudaga kl. 13-17 og laugardaga kl. 12-16.

Myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

Ég vissi af bunka af teikningum niðrí kjallara hjá móður minni en hafði ekki haft tækifæri að fara í gegnum þær fyrr en nú. Persónulega finnst mér barnateikningar vera toppurinn á ísjakanum þegar kemur af listum, þar sem þau tákna eitthvað sem er óheflað, algjörlega hreint og laust við tilgerðarsemi. Það er líka áhugaverð pæling hvort toppinum séð náð þegar maður er barn og allt eftir það er maður að hamast við að halda í barnið í sér,“ er haft eftir Georg Óskari myndlistarmanni í sýningartexta nýrrar sýningar hans í Gallery Port við Hallgerðargötu sem ber heitið Fortíðin sem núið ber. Sýningin er sögð vera ferðalag í gegnum tímann „frá saklausum leikjum barnæskunnar á Dalvík, gegnum táningsárin á Akureyri til dagsins í dag“.

Umsvifamikill erlendis

Georg Óskar er fæddur árið 1985 og alinn upp fyrir norðan. Hann útskrifaðist frá Myndlistarskólanum á Akureyri árið 2009 og lauk mastersnámi í myndlist við Kunst- og designhøgskolen í Bergen í Noregi árið 2016. Síðustu ár hefur hann verið búsettur erlendis og haldið sýningar á Spáni, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Kína, Sviss, Noregi og á Íslandi. Þá er hann einnig hjá hinu virta galleríi JD Malat í London.

Það sem einkennir listaverk Georgs eru hversu hrá og óhefluð þau eru. Verkin eru yfirleitt mjög stór, gróf og kraftmikil og minna um margt á verk alþjóðlegra listamanna á borð við Basquiat. Þá er mikið leikið með samspil myndar og texta, oft á gáskafullan hátt. Georg Óskar er persónulegur í verkum sínum og sækir innblástur í hið stóra jafnt sem smáa, hið mannlega og hið hversdagslega. Í verkum hans má einnig finna ýmis konar tilvistarlegar hugleiðingar um lífið og tilveruna en nýafstaðin sýning hans í Listasafni Akureyrar, Það er ekkert grín að vera ég, tók meðal annars á því hversu stutt getur verið á milli hláturs og gráturs, hvað það er að vera maður sjálfur og hversu erfitt það getur reynst manni.

Æskan er meginviðfangsefni sýningarinnar en þarna má finna barnateikningar frá æskuárum listamannsins í bland við textaverk og mun stærri málverk sem eru allt að 200x190 cm að stærð. Þarna eru málverk sem minna á stílabækur sem börn á grunnskólaaldri nota til þess að æfa sig að draga til stafs og reyna að láta stafina snerta bæði efri og neðri línur. Auðvitað slæðast stafsetningavillur með og hverja síðu þarf svo að myndskreyta.

Viðfangsefni sýningarinnar vekur hjá manni hugleiðingar um hversu eðlislæg þörfin er hverjum manni til þess að tjá sig með máli og myndum. Eftir því sem árin líða glata margir þessum hæfileika og má þessi sýning vera áminning til okkar um hversu mikilvægt það er að viðhalda og hlúa að þessum þætti. Þá má einnig líta á þessa sýningu sem glugga inn í þróun og sköpunarferli listamannsins sjálfs og hvernig listamaður verður til.

Forvitnileg textaverk

Sýningin er hefðbundin í framsetningu. Fremst er búið að hengja upp með litlum klemmum gamlar barnateikningar Georgs Óskars og í kringum þær er búið að skrifa texta beint á vegginn, með vaxlitum og barnslegri skrift, lýsingu á myndunum sem minna á dagbókarskrif barns. Því næst taka hin eiginlegu listaverk við, hvert öðru forvitnilegra en óhjákvæmilegt er að staldra lengi við textaverkin sem eru af ýmsum toga. Þar má lesa sögur og ljóð sem hafa verið vélritaðar á krumpaðar síður sem myndskreyttar eru á mjög grófan og tjáningaríkan hátt, með alls kyns slettum, kroti og krassi.

Á einu verkanna er búið að handskrifa viðvörunina: „Varúð! Dónasaga! sem þarf samt að vera sögð.“ Umrædd saga er í heild sinni of gróf og klámfengin fyrir lesendur Morgunblaðsins en til glöggvunar má grípa niður í niðurlag hennar: „...þvílík nautn sem ein manneskja getur gert fyrir aðra. Eitt af því sem drepur mann ekki en sumir segja að fari með mann beint til helvítis.“ Fleiri orð eru óþörf.

Það sem stendur upp úr er góður samhljómur hugmyndar og inntaks sýningarinnar við sjálf verkin og framsetningu þeirra. Verkin eru framsækin og hrá en vekja um leið hjá áhorfandanum draumkennda fortíðarþrá þar sem tíðarandi æskunnar brýst fram á kraftmikinn en ekki síður einlægan hátt.