Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Sýn birti ársreikning sinn fyrir árið 2024 síðastiðið fimmtudagskvöld. Ársreikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir árið 2024 var samþykktur á stjórnarfundi þann 20. febrúar 2025.
Rekstrartekjur samstæðunnar árið 2024 námu 21.647 milljónum króna samanborið við 21.746 milljónir króna af áframhaldandi starfsemi á árinu 2023. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 4,4%. Auglýsingasala jókst um tæplega 10% á árinu og skýrist einkum af hækkun í auglýsingatekjum sjónvarps sem hækkuðu um 40,8%. Tekjur í auglýsingasölu Vísis og í útvarpi jukust um 3,4%. Heilt yfir voru auglýsingatekjur á öllum miðlum þó undir væntingum á fjórða ársfjórðungi.
Rekstrarkostnaður nam 6.780 milljónum króna á árinu og eykst um 3,6% milli ára. Helsta skýringin eru almennar kjarasamningsbundnar hækkanir 3,25% og eignfærður launakostnaður lækkaði jafnframt um 131 milljón króna milli ára, vegna minni fjárfestinga og breytinga á eignafærslustefnu félagsins.
Rekstrarhagnaður (EBIT) samstæðunnar nam 739 m.kr. fyrir virðisrýrnun árið 2024 samanborið við 3.544 milljónir króna í fyrra. Leiðrétt fyrir hagnaði af stofnnetssölu á 4F 2023 var EBIT 2023 1.108 milljónir króna.
Tap eftir skatta fyrir virðisrýrnun nam 357 milljónum króna samanborið við 2.109 milljóna króna hagnað í fyrra. Leiðrétt fyrir hagnaði af stofnnetssölu var tap samstæðunnar á árinu 2023 327 milljónir króna.
Mikilvægar breytingar hafi verið gerðar
Haft er eftir Herdísi Dröfn Fjeldsted forstjóra Sýnar í tilkynningu að afkoma síðasta árs hafi verið undir væntingum en mikilvægar og nauðsynlegar breytingar hafi verið gerðar á rekstri samstæðunnar.
„Afkoma ársins 2024 var undir okkar væntingum en mikilvægar og nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á rekstri samstæðunnar. Við settum okkur metnaðarfull markmið að lækka rekstrarkostnað á ársgrundvelli og náðum við góðum árangri á því sviði. Kjarasamningsbundnar hækkanir og hækkanir birgja höfðu þó á móti neikvæð rekstrarleg áhrif. Áhrif verðbólgu munu hafa áhrif á rekstrarkostnað á þessu ári en við munum áfram leita allra leiða til að lágmarka yfirbyggingu og lækka rekstrarkostnað, m.a. með samstarfi við aðra aðila á markaði í rekstri fjarskiptainnviða. Skilvirkni og samvinna hefur verið aukin meðal allra rekstrareininga sem gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini enn betur og auka arðsemina á komandi ári,“ er haft eftir Herdísi.
„Ég hef fulla trú á að við náum að auka rekstrarhagnað af kjarnastarfsemi undanfarinna ára verulega. Við verðum þung í fjárfestingum á árinu vegna einskiptis kostnaðar við innleiðingu á nýrri stefnu, breyttri ásýnd félagsins og Enski boltinn er að koma heim. Stígandi verður í tekjum og arðsemi eftir því sem líður á árið og gert er ráð fyrir að síðari hluti ársins verði umtalsvert betri en sá fyrri. Enski boltinn, vinsælasta sjónvarpsefni landsins, er á leið aftur til okkar og leiknir verða 380 leikir á komandi leiktíð. Við skynjum mikla eftirvæntingu á meðal okkar viðskiptavina og starfsfólks fyrir komandi tímabili sem hefst þann 16. ágúst næstkomandi. Sögulega hefur afþreyingarefni í sjónvarpi, og þá sérstaklega Enski boltinn, haft mikil áhrif á hvar viðskiptavinir kjósa að kaupa farsímaþjónustu og gagnaflutninga. Við munum bjóða þá velkomna aftur sem og aðra viðskiptavini sem vilja sitja í besta sætinu með okkur og njóta þess að sjá allt vinsælasta íþróttaefnið sem í boði er á einum stað,“ er enn fremur haft eftir Herdísi.