Ingólfur Ómar Ármannsson sendir þættinum góða kveðju, en í fyrradag gekk hann upp með Elliðaánum og flaug í hug þessi oddhenda: Ofan gjáar kraumar kná klappir lágar stikar. Straumabláum elfum iðan gráa kvikar

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Ingólfur Ómar Ármannsson sendir þættinum góða kveðju, en í fyrradag gekk hann upp með Elliðaánum og flaug í hug þessi oddhenda:

Ofan gjáar kraumar kná

klappir lágar stikar.

Straumabláum elfum

iðan gráa kvikar.

Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:

Í vörubílum ennþá er,

uppi timburhúsið ber,

Færeyingum finnst hún góð,

fest við staur og lokar slóð.

Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu gátunnar. Harpa á Hjarðarfelli ratar á lausnina:

Í gömlum bílum grind er enn.

Grindin húsið uppi ber.

Grind svo fagna Færeyjamenn

Fest í hliðið grindin er.

Lausnarorðið er grind og ólík merking þess orðs í hverri línu. Úlfar Guðmundsson teflir fram sléttuböndum:

Sterk er grind bílsins ber.

Burðargrind húsið reisti.

Merk grindarhefð eyja er.

Engin grind för leysti.

Og aftur á bak:

Leysti för, grind engin er.

Eyja grindarhefð merk.

Reisti húsið burðargrind ber.

Bílsins grind er sterk.

Helgi Einarsson er kominn frá Tenerife og lausnin orðin til:

Hliðargrindin hagkvæm er.

Hús úr timbri grindin ber.

Frændum þykir grindin góð.

Grindin lokar margri slóð.

Magnús Halldórsson er með lausnina:

Grindin uppi bíla ber

burðargrind í húsum er

Grindhval Jógvan glaður sker

grind í hliði túnið ver.

Sjálfur leysir Páll þannig:

Í vörubílum grind nú ennþá er,

uppi timburhúsið grindin ber.

Færeyingum finnst víst grindin góð,

grind er fest við staur og lokar slóð.

Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:

Hann í brjósti okkar er,

annatími í sveitum hér,

háttum klukkum heyrist sá,

helst er drukknum manni á.