Ritstjórar bókarinnar Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi eru staddir hver í sínu landinu. Við þurfum því að grípa til fjarfundarbúnaðar á heimili Elínborgar Kolbeinsdóttur, þannig að stöllur hennar, Chanel Björk Sturludóttir, sem býr í Englandi, og Elínóra Guðmundsdóttir, sem er í Danmörku, geti tekið þátt í umræðunum. Vel fer raunar á því enda hafa þær haldið ófáa ritstjórnarfundina með þeim hætti undanfarin misseri; fjarlægð er afstætt hugtak á tækniöld.
„Bókin inniheldur sögur 33 kvenna sem hafa auðgað íslenskt samfélag á einn eða annan hátt og endurspegla fjölbreytileika kvenna af erlendum uppruna á Íslandi,“ segir í kynningu útgefanda en Vía útgáfa, sem Elínóra rekur, gefur bókina út í samvinnu við félagasamtökin Hennar rödd, sem Chanel Björk og Elínborg starfrækja. „Sögurnar fjalla um áskoranirnar sem þær hafa mætt vegna skorts á inngildingu í íslensku samfélagi, jafnt og frásagnir um fallegar lífsreynslur við að flytja til nýs lands, læra nýtt tungumál og jafnvel ala upp fjölskyldur á Íslandi,“ segir ennfremur.
Spurðar hvernig hugmyndin hafi komið upp svarar Chanel Björk því til að bókin sé sprottin úr verkefni sem móðir hennar, Letetia Jónsson, byrjaði á fyrir um 15 árum. Letetia er frá Jamaíku en giftist íslenskum manni og bjó hér um tíma. „Eftir að við fjölskyldan fluttum til Íslands árið 2004 kynntist mamma mörgum flottum og áhugaverðum erlendum konum. Í kringum 2010 fékk hún svo þá hugmynd að fróðlegt yrði að segja sögur þeirra og taka af þeim ljósmyndir. Hún hóf verkefnið í samvinnu við Samtök kvenna af erlendum uppruna en bókin varð ekki að veruleika. Kannski var Ísland ekki tilbúið fyrir bók af þessu tagi á þeim tíma?“
Vildu auka sýnileika
Chanel Björk og Elínborg kynntust í menntaskóla og fóru síðan báðar utan til Englands í framhaldsnám. Þegar þær komu heim settu þær samtökin Hennar rödd á laggirnar árið 2018 í því augnamiði að gera konur af erlendum uppruna sýnilegri í samfélaginu. Efndu samtökin til alls kyns viðburða og stóðu fyrir pallborðsumræðum og öðru slíku. Þá ræddu Chanel Björk og Elínborg sín á milli um útgáfu bókar með sögum þessara kvenna. Hjólin fóru svo að snúast fyrir alvöru eftir að þær fengu skilaboð frá ókunnugri konu, Elínóru Guðmundsdóttur, sem bjó að sömu hugmynd.
„Vía útgáfa var stofnuð til að búa til farveg fyrir jaðarsettar raddir og ein hugmyndin var að skrifa bók með sögum kvenna af erlendum uppruna,“ segir Elínóra. „Ég vissi af Chanel og Elínborgu gegnum Hennar rödd en þekkti þær ekkert og þorði til að byrja með ekki að hafa samband við þær. En lét svo slag standa.“
Hún sér ekki eftir því. „Þær tóku mér ótrúlega vel og í ljós kom að þær voru með sömu áform. Raunar vorum við eiginlega bara sammála um allt strax á fyrsta fundinum. Sýnin var sú sama. Það blasti því við að sameina krafta okkar og gera þetta saman,“ segir Elínóra.
Fyrsta skrefið var að leita til almennings um tilnefningar á konum sem hafa auðgað samfélag okkar með einum eða öðrum hætti og fóru viðbrögðin fram úr björtustu vonum. „Við sendum út auglýsingu og fengum flóð af tilnefningum,“ rifjar Chanel Björk upp. „Það kom svo sem ekkert á óvart; konur af erlendum uppruna hafa snert líf okkar flestra.“
Tekin voru forviðtöl og flestar konurnar höfðu brennandi áhuga á að verða hluti af verkefninu. Strax var lögð áhersla á breiddina og er bókin því fjölradda frásögn. Viðmælendur eiga rætur að rekja til ótalmargra landa, þar á meðal eru Afganistan, Filippseyjar, Íran, Gana, Pólland, Bosnía, Taívan, Jamaíka, Suður-Afríka, Sýrland og Kólumbía.
Að sögn Elínborgar horfðu þær jafnframt til þess að viðmælendur væru búsettir víðsvegar um Ísland. „Upplifun aðfluttra Íslendinga litast mikið af búsetusvæðinu,“ segir hún.
Því næst lögðu þær land undir fót til að heimsækja þessar konur. Elínborg átti að vísu ekki heimangengt en Chanel Björk og Elínóra fóru ásamt Kaju Sigvalda ljósmyndara, sem á myndirnar í bókinni. „Við vorum á ferðinni í um viku. Konurnar tóku mjög vel á móti okkur og opnuðu heimili sín,“ segir Chanel Björk og Elínóra bætir við að það hafi verið mjög dýrmætt.
Tvær konur, sem upphaflega voru í hópnum, gengu úr skaftinu meðan á ferlinu stóð. Drógu sig raunar ekki í hlé fyrr en búið var að taka og skrifa viðtölin.
– Hvernig stóð á því?
„Flest höfum við þá sýn að Ísland sé jafnréttisparadís. En þegar betur er skoðað kemur í ljós að landið er ekki paradís fyrir alla. Það á til dæmis við um konurnar tvær sem drógu sig út úr verkefninu. Þær voru í samböndum sem einkenndust af átökum og ofbeldi og hættu við af ótta við afleiðingarnar eftir að bókin kæmi út,“ segir Chanel Björk.
„Sem undirstrikar hvernig þær eru jaðarsettar,“ bætir Elínóra við.
Þær eru sammála um að mikilvægt sé að horfa á það sem ekki sést og fyrir vikið sé bókin ekkert síður fyrir þessar tvær konur en hinar sem eru á síðum hennar.
– Reynduð þið eitthvað að tala þær til?
„Önnur talaði um þessar áhyggjur fyrirfram,“ segir Elínóra, „en niðurstaðan var sú að byrja samt og sjá hvert það leiddi okkur. En að sjálfsögðu kom aldrei til greina að birta neitt gegn vilja kvennanna og ógna þannig jafnvel öryggi þeirra. Við vildum styðja þær en það getur verið erfitt þegar maður býr ekki sjálfur að svona lífsreynslu.“
Chanel Björk tekur fram að allar konurnar, ekki bara þessar tvær, hafi ráðið ferðinni þegar frásögn þeirra var annars vegar.
Allt unnið í samvinnu
Ritstjórarnir segja allt varðandi bókina hafa verið unnið í náinni samvinnu, það er hugmyndavinnu, samskipti, skipulag, verkefnastjórn, markaðssetningu og fjáröflun. Elínóra er höfundur textans á íslensku en Chanel Björk og Elínborg lögðu til betrumbætur á blæ, orðavali, flæði og uppröðun. Chanel sá um markaðssetningu og Elínborg um fjármögnun og samskipti.
Elínóra tók viðtölin bæði á íslensku og ensku enda eru konurnar missleipar í íslenskunni. Hún skrifaði þau svo öll á íslensku en Ásdís Sól Ágústsdóttir þýddi textann yfir á ensku. Bókin er tvítyngt verk, bæði á íslensku og ensku, og er því aðgengileg fyrir bæði íslenskumælandi og enskumælandi lesendur. Allir viðmælendur lásu sinn hluta yfir, á því tungumáli sem hentaði betur, og lögðu blessun sína yfir verkið.
– Stóð alltaf til að hafa bókina bæði á íslensku og ensku?
„Já, sú hugmynd kom mjög fljótt fram,“ svarar Elínóra. „Það er fyrst og fremst aðgengismál; allar konurnar áttu að geta lesið sína sögu. Þetta lengdi að vísu ferlið, þar sem ekki er hægt að sækja um þýðingarstyrki vegna aðgengis, bara vegna fyrirhugaðrar útgáfu erlendis. En við klóruðum okkur gegnum það.“
Þær leituðu meðal annars á náðir Karolinafund og segjast öllum sem studdu þær á þeim vettvangi ævinlega þakklátar.
Þær lýsa mikilli ánægju með Ásdísi Sól þýðanda. „Að þýða er ekki bara að þýða og auðvelt getur verið að tapa merkingu og ýmsum menningarlegum þáttum í þýðingu,“ segir Chanel Björk og Elínóra bendir á, að vandlega hafi þurft að halda kúltúr hvers og eins viðmælanda til haga við þýðinguna. „Þetta var flókið og krafðist yfirlegu en var vel þess virði. Það kom sér líka vel að Chanel er jafntyngd á íslensku og ensku.“
Elínborg vekur athygli á því að bókin geti fyrir vikið verið tilvalin fyrir alla sem hafa gott vald á ensku og vilja bæta sig í íslensku.
Útgáfan tafðist
Vegferðin hófst árið 2020 og Elínóra segir að þær hafi gefið sér tvö til þrjú ár í upphafi. „Það var bjartsýni og við erum búnar að fresta útgáfunni nokkrum sinnum,“ segir hún brosandi og Elínborg bætir við að það hafi ekki verið vonbrigði. „Við vorum allar sammála um að bókin myndi ekki koma út fyrr en hún væri alveg tilbúin.“
Mikið var lagt í hönnunina en ábyrgir fyrir henni eru Kolbeinn Jara Hamíðsson og Þorgeir Blöndal. „Það var í sýninni frá upphafi að hafa bókina veglega. Búa til bók sem fólk vill eiga og skarta heima hjá sér,“ segir Elínóra og þær eru allar á einu máli um að ákaflega vel hafi tekist til.
Stóra markmiðið með útgáfunni er að veita innsýn í líf erlendra kvenna á Íslandi, sem er sívaxandi hópur. Elínborg bendir á, að öll höfum við eitthvað af þessum hópi að segja en í mismiklum mæli, eins og gengur. „Þess vegna er mikilvægt að vekja athygli á þessum hópi og setja hann í samhengi,“ segir hún.
Innflytjendum hefur fjölgað ört á umliðnum árum og Chanel Björk kveðst hafa hitt nokkrar áhugaverðar konur eftir að hópurinn var valinn sem gaman hefði verið að hafa með.
– Erum við þá að tala um annað bindi?
„Hver veit?“ svarar hún brosandi en viðurkennir að slíkt hafi ekki verið rætt þeirra á milli.
„Markmiðið er að brúa bilið milli samfélagshópa sem eru því miður dálítið aðskildir,“ segir Elínóra og Chanel Björk bætir við: „Okkur fannst mikilvægt að sýna mennskuna og sýna hvað við eigum öll ótrúlega margt sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan menningarbakgrunn. Allir eiga að geta tengt við þessar sögur, innfæddir og innfluttir Íslendingar.“
Eigandi erlenda móður hefur Chanel Björk reynt þetta á eigin skinni. „Frá mínum bæjardyrum séð snýst þetta meira um að hjálpa íslensku samfélagi að aðlagast innflytjendum en öfugt,“ segir hún og Elínóra bætir við að brýnt sé að auka þekkingu og umburðarlyndi.
„Við eigum konum af erlendum uppruna mikið að þakka,“ segir Chanel Björk. „Hvort sem það er konan sem hugsar um barnið þitt, lögfræðingurinn sem þú leitar til, konan sem þrífur skrifstofuna þína eða sérfræðingurinn hjá tæknifyrirtækinu. Þessar konur spanna mjög breitt svið.“
Elínborg grípur boltann á lofti og segir samtökin Hennar rödd leggja áherslu á að sýna fyrirmyndir. „Og þessi bók er full af þeim.“
– Finnst ykkur við sem þjóð taka vel á móti innflytjendum?
„Því er erfitt að svara, við erum ólík og allur gangur á því hvernig fólk upplifir þetta. Margar konur hafa dásamlega reynslu af því að flytja til Íslands en aðrar alls ekki. Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að líta á inngildingu í samfélagið,“ segir Chanel Björk.
Þær segja tómt mál um að tala að við eigum eftir að komast á þann stað að allt verði dásamlegt og fullkomið í þessum efnum og allir ferlar skotheldir. Til þess séu samfélög of miklum breytingum háð.
„Mörgu er ábótavant og mikilvægt að horfast í augu við það,“ segir Chanel Björk og Elínborg bætir við: „Það er alltaf rými til að gera betur.“
Umræðan hefur aukist
– Er orðræðan um fólk af erlendum uppruna eitthvað að breytast á Íslandi?
„Mér finnst umræðan hafa aukist frá því að við Ella stofnuðum Hennar rödd,“ segir Chanel Björk. „Það er alltaf gott að fá sem mestar upplýsingar upp á borðið, eins og þessa bók, enda held ég að fólk vilji almennt öðlast meiri skilning. Það geta skapast fordómar út af þekkingarleysi.“
Og mikilvægt er að þeirra dómi að leggja ekki árar í bát, þó umræðan kunni að villast af leið. „Við megum alls ekki hætta að tala um fjölmenningu og fjölbreytileika, sama á hverju gengur,“ segir Chanel Björk.
„Sú breyting sem orðið hefur á íslensku samfélagi á alls ekki svo löngum tíma er staðreynd,“ segir Elínóra, „og við verðum að takast á við það saman. Auðvitað eru aðstæður á Íslandi um margt sérstakar en við eigum samt að horfa til annarra landa og skoða hvað hefur verið gert vel og hvað illa.“
Hvorki Elínborg né Elínóra eru af erlendu bergi brotnar en hafa lengi haft áhuga á málefnum innflytjenda. „Ætli áhugi minn hafi ekki vaknað fyrir alvöru á menntaskólaárunum, þegar allt opnast fyrir manni,“ segir Elínborg. „Síðan fór ég að læra um mannréttindi og vinn núna hjá Reykjavíkurborg, við samræmda móttöku flóttafólks.“
Elínóra kveðst lengi hafa haft áhuga á að skoða ójafnrétti frá ólíkum sjónarhornum og kafa undir yfirborðið, dýpra og dýpra. Þessi bókarskrif séu partur af þeirri vegferð.
Í ávarpi sínu til lesenda við upphaf bókarinnar segja þær það sína lífsins lukku að hafa fundið hver aðra, nýtt styrk hverrar og einnar og enn vera vinkonur til að segja frá. „Við hefðum aldrei afrekað þetta án hverrar annarrar.“
Ritstjórarnir eru líka fullir af þakklæti í garð kvennanna 33 sem trúðu þeim og treystu fyrir sínum sögum. „Það var ómetanlegt að kynnast öllum þessum konum en sumar hverjar þekktum við fyrir,“ segir Elínborg og Elínóra bætir við: „Mesti fjársjóðurinn var að kynnast þessum konum.“
Þær settust niður og skrifuðu kveðju til hvers og eins viðmælanda og við það verk komust þær ekki hjá því að klökkna. Það var ekki síður dýrmæt stund þegar konurnar fengu sitt eintak af bókinni afhent. Þá svifu gleði og þakklæti yfir vötnum. Viðtölin voru tekin 2021 og 2022, þannig að viðmælendur voru búnir að bíða lengi, auk þess sem allar ljósmyndir voru teknar á filmu, þannig að ekki var hægt að kíkja yfir öxlina á Kaju ljósmyndara. Ritstjórarnir eru á einu máli um að biðin hafi verið þess virði og geri útgáfuna bara ennþá sætari.
Kvenleg orka í gangi
Raunar var bókin prentuð undir lok síðasta árs og einhverjir draumar stóðu til þess að ná jólabókaflóðinu. Töf varð hins vegar á afhendingu og vondar fréttir bárust þess efnis að vörubrettin í skipinu hefðu færst til á leiðinni. Upplagið skilaði sér þó í heilu lagi í land á gamlársdag. Útgáfu var því frestað til 15. febrúar.
„Útgáfan getur ekki komið á betri tíma,“ segir Elínborg og Chanel Björk er á því að mikil kvenleg orka sé oft í gangi á þessum árstíma og við hæfi að þetta viðtal birtist á sjálfan konudaginn. Þess utan er allt árið 2025 kvennaár í tilefni af því að liðin eru 50 ár frá því að konur hér á landi lögðu niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið.
Þegar upp er staðið þykir þeim febrúar markaðslega ekkert verri tími til að gefa út bók en fyrir jólin enda sé auðveldara að fanga athyglina núna. „Það gefst gott rými núna til að auglýsa bókina og ná til fólks. Kannski erum við bara að byrja nýtt trend?“ segir Elínborg og hlær.
Þær segja viðtökur úr sínu nærsamfélagi hafa verið mjög góðar og margir hafi talað um hvað bókin sé vegleg og vel hönnuð. „Nú verður spennandi að sjá hvað fólki finnst um sögurnar sjálfar,“ segir Chanel Björk.
Upplagið er takmarkað og hvetja stöllurnar alla sem vilja eignast eintak að hafa hraðar hendur.
– Þið eruð vel nestaðar til útrásar enda bókin þegar komin út á ensku. Eru áform um að koma henni á framfæri erlendis?
„Já,“ upplýsir Chanel Björk. „Við höfum augastað á Norðurlöndunum og Bretlandi og erum þegar byrjaðar að skoða þau mál. Það hafa ekki allir þá mynd af Íslandi að það sé fjölmenningarsamfélag og fyrir vikið verður fróðlegt að leita viðbragða við bókinni erlendis.“
Elínóra grípur orðið: „Það er líka á markaðsplaninu að koma bókinni á valdar bókahátíðir erlendis.“
Til að fagna útgáfu bókarinnar verður blásið til veislu þann 8. mars í Hörpu – á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Boðið verður upp á erindi um málefnið, léttar veitingar og sérstakt útgáfutilboð verður á bókinni. Stöllurnar eru að vonum mjög spenntar fyrir þeim viðburði, ekki síst þar sem konurnar sem voru svo örlátar að deila sögum sínum hafa þar tækifæri til að koma saman. Búist er við þeim flestum.
Gefum þeim öllum lokaorðin: „Engin okkar hefur áður gefið út bók og við höfum lært gríðarlega margt á þessu verkefni. Það verður ofboðslega gaman að fagna þessu saman!“