Nicholas Hoult er ógleymanlegur sem hinn sérlundaði og félagslega einangraði skólapiltur Marcus í kvikmyndinni About a Boy frá árinu 2002, en hún byggðist á samnefndri skáldsögu eftir Nick Hornby. Fullorðinn maður, Will, sem Hugh Grant leikur, tekur Marcus fyrir hreina tilviljun upp á sína arma, en sá býr að nægum frítíma enda þarf hann ekki að vinna, þar sem hann lifir kóngalífi af stefgjöldunum af jólalagi sem faðir hans sálugi hafði samið löngu áður. Þið munið þetta.
Marcus er ekki síst eftirminnilegur vegna hárgreiðslunnar, sem var svona dæmigerð „mamma mín, sem er gamall hippi og þjáist af þunglyndi, klippti mig sjálf“-klipping. Þið skiljið hvað ég er að fara. Fyrir vikið rak ég upp stór augu þegar ég kveikti á nýrri kvikmynd, The Order, í sjónvarpinu á dögunum. Birtist þar ekki Nicholas Hoult, meira en 20 árum eldri, en ennþá með þessa sömu klippingu. Ég er að segja ykkur það. Hefði maður ekki verið fljótur að losa sig við hana eftir About a Boy og aldrei vitjað hennar aftur?
Hárgreiðslur eru alltaf viðkvæmt og persónulegt mál og ekki margir sem hefðu þorað að bera þetta undir Hoult sjálfan. Vinur hans og kollegi, James McAvoy, tók hins vegar af okkur ómakið í samtali milli þeirra tveggja í tímaritinu Rolling Stone. „Hérna, horfði leikstjórinn á About a Boy á bíókvöldi og hugsaði með sér: Þetta er gaurinn!”
Ég veit ekki með ykkur en sjálfur heyri ég ískra í McAvoy þegar hann ber spurninguna upp.
„Nei,“ svarar Hoult. Blákalt. „Bob Mathews var bara með svona greiðslu.“
Hver er þessi Bob Mathews? spyrjið þið núna, og því er til að svara að það er persónan sem Hoult leikur í The Order. Myndin byggist sumsé á sönnum atburðum. Mathews og Marcus litli eiga að vísu fátt annað sameiginlegt en greiðsluna, en sá fyrrnefndi var herskár nýnasisti sem hugði á hryðjuverk í Bandaríkjunum fyrir um fjórum áratugum til að refsa löndunum sínum fyrir að vera á rangri leið þegar kom að kynþáttalegu umburðarlyndi. Mathews og nótum hans þótti fásinna að leggja hvíta kynstofninn að jöfnu við aðra og ómerkilegri kynstofna. Hann var á endanum eltur uppi og umkringdur af lögreglu og brann inni meðan á umsátrinu stóð.
Hoult gróf upp gamla ljósmynd af Mathews og kveðst í samtalinu hafa þróað greiðsluna sjálfur; gekk raunar það langt að leikstjóranum, Justin Kurzel, stóð ekki á sama. „En þetta er bara hár og bartar Bobs.“
Til þess að gera einfalt mál. Flóknara var að setja sig inn í hugarheim Mathews. „Til að skilja Bob og reyna að draga upp af honum mynd þarf að hafa margt í huga,“ segir Hoult. „Lesa þarf alls konar hrylling og reyna að skilja hugmyndafræði sem er gjörsamlega á öndverðum meiði við það sem ég trúi á sjálfur. En það er einmitt þetta sem er svo áhugavert við að kafa í karaktera … við erum stöðugt að snúa upp á hugann og endurtengja hann til að skapa ólíka heima sem við lifum og hrærumst í, hugsanamynstrið og allt þetta. Það var áhugavert að reyna að skilja hvar þessum fölsku fræjum er sáð og hvernig þau spretta svo að menn eins og Bob geti vélað með fólk og leitt það í ógöngur. Það var mjög lærdómsríkt að skoða hvernig allt þetta hatur vex og breiðir úr sér.“
Hoult segir áskorunina ekki síst hafa verið í því fólgna að láta ekki stóru línurnar trufla sig, heldur reyna að skilja sjónarhorn Mathews og hvers vegna hann var sannfærður um að hans málstaður væri réttur. „Þegar maður horfir á það að utan sér maður greinilega að svo er ekki en verður samt að reyna að skilja málið frá öðru sjónarhorni.“
Lafhræddur við mottuna
Annar Breti, Jude Law, fer með hitt aðalhlutverkið í The Order, leikur alríkislögreglumanninn sem eltir Mathews uppi. Hann tók hlutverkið líka mjög alvarlega útlitslega og henti í þessa líka fínu mottu, eins og þær urðu bestar í áttunni. Það fór ekki framhjá McAvoy, sem spyr Hoult í Rolling Stone hvort hann hafi orðið smeykur þegar fundum þeirra bar saman.
„Já, ég varð lafhræddur og hugsaði um hallærislegu bartana mína. Þeir eru glataðir.“
McAvoy grípur orðið: „Guði sé lof fyrir klippinguna þína. Þegar maður hittir fyrir svona leikaramottu verður maður nefnilega bara lítill í sér og hugsar með sér: Hvað get ég gert? Þetta er hans mynd.“
Spjall þeirra félaga fer um víðan völl og McAvoy vekur athygli á því að síðasta ár hafi verið afbragðsgott fyrir Hoult; þrjár gjörólíkar myndir, Nosferatu og Juror #2, auk The Order. „Enginn getur velkst í vafa um fjölhæfni þína!“
Hoult grípur það á lofti. „Þetta hljómar vel sem grafskrift: „Fjölhæfni hans var aldrei dregin í efa!“ Ég fór úr Nosferatu beint yfir í The Order og þaðan beint í Juror #2. Bara ein helgi á milli. Og stíllinn og nálgunin geta ekki verið ólíkari en hjá þessum þremur leikstjórum, Robert Eggers, Justin Kurzel og Clint Eastwood. Enda var það algjör veisla að upplifa þetta þrennt í beit.“
Hoult segir mikil forréttindi að ferðast stöðugt milli staða og í tíma í starfi sínu, að ekki sé talað um að setja sig í spor annarra. Það geti vissulega tekið á, ekki síst ef sterkar tilfinningar eru í spilinu. Mikilvægt sé samt, jafnvel þó að leikarar séu eins og undin tuska eftir daginn, að taka hlutverkið ekki heim með sér á kvöldin. „Best er að sofa vel, vegna þess að ég þarf að henda mér aftur þarna inn á morgun.“
Hóf ferilinn sex ára
Nicholas Caradoc Hoult fæddist í Wokingham á Englandi 1989. Hann gaf sig ungur að leiklist og þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu og í sjónvarpi aðeins sex ára. Hann hafði leikið í mörgum sjónvarpsþáttum áður en stóra tækifærið kom, í About a Boy, 2002. Hann lék hóflega mikið næstu árin en færði sig yfir í fullorðinshlutverk um tvítugt í Clash of the Titans. Meðal annarra mynda má nefna einar þrjár úr X-Men-röðinni vinsælu, The Current War, þar sem hann lék uppfinningamanninn Nikola Tesla, og Renfield. Í sjónvarpi í seinni tíð er Hoult þekktastur fyrir Crossing Swords og The Great, þar sem hann lék Jemeljan Pugatsjev, sem var einmitt að vinna með svipaða greiðslu og Marcus og Bob.