Guðrún Hafsteinsdóttir
Við sjálfstæðismenn göngum til landsfundar eftir viku til að skerpa á málefnaáherslum okkar og velja okkur nýja forystu. Ég býð mig fram til formanns því ég tel mig vera sameinandi afl fyrir alla sjálfstæðismenn og trúi því einnig að flokkurinn þurfi forystu með mikla reynslu úr atvinnulífinu – því blómlegt atvinnulíf er forsenda velferðar og sterks samfélags.
Við sjálfstæðismenn höfum lengi talað fyrir sterku atvinnulífi og skilvirku rekstrarumhverfi, sem kjarnast í einkunnarorðum okkar, „báknið burt“. Því miður hefur báknið hins vegar vaxið á undanförnum árum. Það er óásættanlegt. Við vitum að þunglamalegt kerfi bitnar verst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum – á smiðum, pípurum, hársnyrtum og öllum þeim sem standa í eigin rekstri. Við verðum að standa vörð um þessi fyrirtæki sem glíma á hverjum degi við ofurefli báknsins. Áratugalöng reynsla mín úr atvinnulífinu nýtist vel í þeirri baráttu.
Það er reynsla fyrirtækja í rekstri að þær kröfur sem stjórnsýslan setur á herðar þeirra séu þungbærar. Jafnlaunavottun, jafnréttisáætlun og brunavarnaáætlanir – sem enginn les – og annað skrifræði tekur gríðarlegan tíma frá því sem skiptir máli – að skapa verðmæti, þjónusta viðskiptavini og þróa nýjar vörur. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitið láta sitt heldur ekki eftir liggja.
Fjölskylda mín rekur lítið fyrirtæki í Hveragerði og ég þekki því af eigin raun hversu mikil vinna fer í að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja. Við fjölskyldan höfum þurft að verja tíma okkar um kvöld og helgar í að fylla út skjöl fyrir embættismannakerfið í stað þess að sinna því sem raunverulegu máli skiptir. Fyrir smærri rekstraraðila getur þetta reynst þungbært og hreinlega valdið því að fólk veigrar sér við því að fara út í sjálfstæðan rekstur.
Þetta þunglamalega bákn kostar atvinnulífið milljarða og dregur úr samkeppnishæfni þjóðarinnar. Á sama tíma hefur störfum hjá hinu opinbera fjölgað langt umfram störf á almennum vinnumarkaði. Þetta er hættuleg þróun. Við verðum að muna að það er hinn almenni markaður sem heldur uppi opinbera kerfinu, ekki öfugt. Ef við leyfum þessari þróun að halda áfram mun hún grafa undan lífskjörum Íslendinga og samkeppnishæfni landsins, og ekki síst því öfluga velferðarkerfi sem við njótum góðs af í dag. Sterkt atvinnulíf er undirstaða velferðar þjóðarinnar og það er nauðsynlegt að fækka reglugerðum, lækka skatta og einfalda rekstrarumhverfið.
Ég hef gegnt veigamiklum hlutverkum í forystu íslensks atvinnulífs, meðal annars sem formaður Samtaka iðnaðarins, varaformaður Samtaka atvinnulífsins og formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða. Ég þekki því þær áskoranir sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir og tel mig vita hvað þarf til að styrkja fyrirtækin í landinu. Verði ég formaður Sjálfstæðisflokksins munum við blása til sóknar – við munum draga úr skrifræði, styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki og tryggja að Ísland verði land tækifæra – ekki hindrana – og land framtíðarinnar fyrir alla þá sem vilja skapa, byggja upp og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Það verðum við að gera – og það verðum við gera sameinuð.
Höfundur er alþingismaður og frambjóðandi til formanns Sjálfstæðisflokksins.