Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á morgun. Boðað var til kosninganna í „skyndingu“ í byrjun nóvember í fyrra eftir að Olaf Scholz kanslari rak Christian Lindner, leiðtoga Frjálsra demókrata, úr stöðu fjármálaráðherra.
Á ýmsu hefur gengið í kosningabaráttunni. Þjóðverjar hafa í nokkur misseri glímt við þráláta lægð í efnahagsmálum, en útlendingamál hafa hins vegar verið plássfrek vegna nokkurra hrottalegra árása á undanförnum vikum og mánuðum. Þar hafa verið á ferð menn sem hafa fengið hæli, sótt um hæli og jafnvel verið neitað um hæli og átt að vera farnir af landi brott. Þá eru ónefnd Úkraínumál og óvissan um hvernig eigi að eiga við hinn óútreiknanlega Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Litlar sveiflur hafa hins vegar verið á fylgi flokkanna ef marka má skoðanakannanir. Tímaritið Der Spiegel tekur saman skoðanakannanir og vegur þær og metur. Samkvæmt því hefur nálin á mælinum vart hreyfst síðasta kastið. Kristilegir demókratar, CDU, og systurflokkur þeirra í Bæjaralandi, CSU, hafa verið í kringum 30% fylgi. Gangi það eftir bæta flokkarnir við sig sex prósentustigum frá síðustu kosningum. Bendir því allt til þess að leiðtogi CDU, Friedrich Merz, verði næsti kanslari Þýskalands.
Næstur kemur flokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland, AfD, með í kringum 20%, sem er tvöfalt meira en í kosningunum 2021.
Sósíaldemókratar, SPD, eru með 15% fylgi. Mun flokkur Olafs Scholz kanslara tapa 10 prósentustigum gangi það eftir.
Græningjar mælast með í kringum 13%. Robert Habeck er kanslaraefni flokksins og gerði sér miklar vonir um að ná út fyrir kjarnafylgi flokksins. Nú stefnir í að Græningjar verði með jafnvel minna fylgi en í síðustu kosningum, þegar Annalena Baerbock utanríkisráðherra leiddi flokkinn, og það yrði áfall fyrir hann.
Frjálsir demókratar virðast ekki ætla að ná inn á þing og sömu sögu er að segja af nýstofnuðum vinstriflokki Söhru Wagenknecht, sem um tíma flaug hátt í könnunum. Vinstriflokkurinn Die Linke hefur hins vegar sótt í sig veðrið og virðist ætla að ná máli. Fimm prósenta fylgi þarf til að fá sæti á þingi.
Fari kosningarnar á þennan veg koma ekki margir kostir til greina í stjórnarmyndun. Allir flokkar hafa lýst yfir því að ekki komi til greina að mynda stjórn með AfD.
Í samþykktum kristilegra demókrata segir meira að segja að ekki megi reiða sig á atbeina AfD á þingi til að tryggja að mál nái fram að ganga.
Reyndar kom brestur í þá afstöðu þegar Merz reiddi sig á atkvæði AfD í ályktunum um útlendingamál á Sambandsþinginu í Berlín. Hann sagði að málið hefði verið það mikilvægt að einu gilti með hvaða hætti það yrði samþykkt.
Þessi ákvörðun Merz olli harkalegum deilum í þingsal og var haft á orði að þingmenn AfD hefðu hallað sér aftur í sætum sínum og notið þess að horfa á fulltrúa lýðræðisflokkana hjóla hver í annan.
Það er hins vegar langur vegur frá þessari ákvörðun Merz til þess að ganga til stjórnarmyndunarviðræðna við AfD.
Því virðist einsýnt að kristilegir demókratar muni reyna að mynda stjórn með sósíaldemókrötum – samsteypustjórn stóru flokkanna. Það er hins vegar alls ekki víst að það dugi til og þá yrðu Græningjar kallaðir til.
Tvær afdrifaríkar ákvarðanir setja mark sitt á kosningarnar. Annars vegar er ákvörðun Angelu Merkel um að opna landamærin vegna neyðarástands í flóttamannamálum árið 2015. Þau vandamál sem sú ákvörðun hafði í för með sér eru lykillinn að uppgangi AfD.
Hins vegar er stefnan gagnvart Rússlandi, sem byggðist á því að því meiri sem viðskiptin væru við Rússa, þeim mun viðmótsþýðari yrðu þeir í samskiptum. En það voru Þjóðverjar sem urðu háðir Rússum, eða öllu heldur hinni ódýru orku frá Rússlandi. Samkeppnisforskot útflutningslandsins Þýskalands byggðist meðal annars á þeirri ódýru orku. Forsendur þýska efnahagsmódelsins eru brostnar og spurt er hvað eigi að koma í staðinn.
Evrópa geldur fyrir það hvað þýskur efnahagur er veikburða um þessar mundir og ekki bætir úr skák að Frakkland á einnig í stökustu vandræðum. Emmanuel Macron er veikur fyrir og til marks um það er að í desember skipaði hann sinn fjórða forsætisráðherra á einu ári. Þýskaland og Frakkland eiga að vera gangverkið í Evrópusambandinu.
Kosningabaráttan í Þýskalandi hefur verið hvöss upp að ákveðnu marki, en um leið markast af því að þar takast meðal annars á flokkar sem sjá fram á nánast óhjákvæmilegt samstarf að kosningunum afstöðnum. Forystumenn þeirra mega því ekki ganga svo hart hver að öðrum að þeir geti ekki stjórnað í sátt og samlyndi þegar atkvæðin hafa verið talin.
En þótt kosið verði á morgun gæti liðið nokkur tími áður en ný stjórn tekur við. Merz hefur talað um að hann miði við að ljúka stjórnarmyndun um páskana. Scholz var tíu vikur að mynda stjórn 2021 og árið 2017 tók það Merkel heila sex mánuði að mynda stjórn. Það má því búast við að Þýskaland verði í pólitískum lamasessi einhverjar vikur enn, ef ekki mánuði.
Og hvað tekur þá við? Búast má við að tekið verði á útlendingamálunum, þótt oft skili breyttar reglur sér seint í raun. Menn hafa þegar áhyggjur af því að hugmyndir í efnahagsmálum séu ekki nógu djarfar til að keyra þýskt efnahagslíf í gang að nýju á breyttum forsendum.