Baksvið
Karl Blöndal
kbl@mbl.is
Danir tilkynntu í vikunni að framlög til varnarmála yrðu stóraukin. Um leið var greint frá því að þeir hygðust láta Úkraínumenn fá helming þungavopna danska hersins. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir að vanræktar landvarnir verði byggðar upp á leifturhraða: „Það eru aðeins ein skilaboð til yfirmanns varnarmála: Kaupa, kaupa, kaupa.“
Framlög Evrópuríkja til varnarmála hafa verið til umræðu lengi, en málið varð brýnna eftir að Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta og þetta útspil Dana er ekki síst til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn dragi úr skuldbindingu sinni við varnir Evrópu.
Danir hyggjast á næstum tveimur árum bæta 50 milljörðum króna (um 980 milljörðum íslenskra króna) við framlagið sem ætlað er til varnarmála á fjárlögum til að fjárfesta í nauðsynlegum hergögnum.
Danir verja nú um 60 milljörðum danskra króna á ári til varnarmála. Það eru um 2,4% af landsframleiðslu. Hlutfallið var 1,4% þegar Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir þremur árum, í febrúar 2022. Með hinum nýja sjóði fer hlutfallið yfir þrjú prósentin.
Á óskalista danskra stjórnvalda eru loftvarnarkerfi. Til að flýta fyrir verður ekki leitað tilboða. „Nú gildir aðeins eitt, hraðinn,“ sagði Frederiksen og bætti við að væru þau hergögn, sem menn vildu helst ekki til, yrði næstbesti kosturinn valinn.
Óttast að Rússar eflist hratt
Frederiksen hefur ítrekað talað um hættuna af Rússum og sagt að staða öryggismála í Evrópu sé nú alvarlegri en á dögum kalda stríðsins.
„Við verðum að vígbúast af krafti til að vernda Danmörku,“ sagði hún. „Og við verðum að vígbúast af krafti til að komast hjá stríði.“
Í nýju mati dönsku leyniþjónustunnar er dregin upp dökk mynd af stöðunni. Í matinu, sem var birt í liðinni viku, segir að það geti verið hættulegt að hrapa að friðarsamkomulagi milli Úkraínu og Rússlands.
Það gæti gert forystu rússneska hersins kleift að búa sig undir nýjar aðgerðir og árásir og löngun Rússa til landvinninga væri síður en svo horfin.
Fari svo megi búast við að Rússar verði innan fimm ára reiðubúnir til að hefja „stórfellt stríð“ í Evrópu. Þeir gætu innan tveggja ára vera búnir að ráðast á eitt eða fleiri ríki við Eystrasaltið. „Ég held ekki að Rússar muni láta staðar numið í Úkraínu,“ sagði Frederiksen.
Lars Lökke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í viðtali við AFP að Evrópa yrði að endurvígbúast svo um munaði vegna „misvísandi skilaboða“ frá Trump.
Danir horfa ekki aðeins til hergagna þegar þeir tala um að efla herinn. Í fyrra var ákveðið að herskylda skyldi einnig taka til kvenna. Frá og með næsta ári munu konur gegna herþjónustu á sama grundvelli og karlar. Þá verður tími herskyldu lengdur úr fjórum mánuðum í 11 mánuði.
Herinn vanræktur
Ákvörðunin um að efla danska herinn kemur ekki bara til af góðu. Um árabil hafa Danir dregið úr framlögum. Innviðir hersins eru orðnir úreltir og búnaður óáreiðanlegur. Herinn hefur meira að segja lent í þeirri stöðu að skorta fjármagn til daglegs rekstrar.
Í upphafi árs í fyrra var danski sjóherinn í aðgerð gegn uppreisnarmönnum jemenskra Húta í Rauðahafinu. Eldflauga- og ratsjárkerfi í herskipi Dana biluðu í hálftíma þegar drónaárás var gerð á skipið og lífi 175 manns var teflt í hættu. Háttsettum yfirmanni í danska hernum var vikið úr starfi fyrir að hafa ekki gert dönskum stjórnvöldum nægilega grein fyrir atvikinu.
Í apríl í fyrra þurfti svo að loka skipaumferð um Stórabelti milli Kattegat og Eystrasalts í sex klukkustundir þegar skotbúnaður fyrir sprengiflaugar í dönsku herskipi bilaði á heræfingu.
Danir lýstu yfir því að varnir Grænlands yrðu snarefldar skömmu fyrir jól og héldu fram að það væri hrein tilviljun að það hefði verið tilkynnt rétt eftir að Trump sagðist ásælast Grænland. Viðurkenndu Danir að varnir Grænlands hefðu verið látnar sitja á hakanum.
Rússar reyna nú að þrýsta á um breytt fyrirkomulag varnarmála í Evrópu. Friðarsamkomulag í Úkraínu þurfi einnig að fela í sér að herir Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins dragi sig frá fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna og löndum austurblokkarinnar. Þá krefjast þeir að NATO bjóði engum fyrrverandi löndum Sovétríkjanna aðild, þar á meðal Úkraínu.
Rasmussen sagði að menn yrðu að horfast í augu við að þetta væri hin nýja staða og eina svarið væri „að hinn vestræni heimur standi saman, að við styrkjum … samband okkar yfir Atlantshafið“.