Úr ólíkum áttum
Úr ólíkum áttum
Þórdís Kolbrún R.
Gylfadóttir
thordiskolbrun@althingi.is
Hin árlega öryggisráðstefna í München þetta árið var söguleg og viðburðarík. Ég hef sótt ráðstefnuna frá árinu 2022, sem átti sér þá stað örfáum dögum fyrir allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu. Ég hef sótt aðra viðburði á vegum ráðstefnunnar og byggt upp tengsl við þau sem að henni standa og mörg þeirra sem sækja hana árlega. Aldrei er hægt að komast yfir allt sem þarna fer fram enda eru viðburðirnir mörg hundruð og samtölin á göngum ráðstefnunnar ekki síður gagnleg en formlega dagskráin. Það er margt sem fer um hugann eftir þessa daga og bíður betri tíma að kryfja nánar en í samhengi við atburði vikunnar er tilefni til að nefna nokkur atriði á þessum vettvangi hér í hinu borgaralega Morgunblaði.
Ég sagði í samtali við blaðið á mánudaginn að við myndum horfa upp á mjög afdrifaríkar vikur fram undan og að ég gæti ekki fullyrt nákvæmlega hvernig þær yrðu en þær yllu mér miklum áhyggjum. Dagarnir sem á eftir komu voru mun tíðindameiri en ég hafði gert mér í hugarlund. Raunar er það orðið þannig að þegar skila þarf grein í helgarútgáfu blaðsins á föstudegi er erfitt að gera ráð fyrir að skrifin úreldist ekki áður en blaðið skilar sér til lesenda.
Þungur skuggi yfir Evrópu
Allt frá árinu 2008 þegar Rússar réðust inn í Georgíu hefur skort skilning og viðbrögð frá lýðræðisöflum. Sama var uppi á teningnum árið 2014 þegar Rússar tóku Krímskaga. Á þeim tíma voru viðbrögð Vesturlanda mjög veik. Þá var umræðan á Íslandi meira að segja sú að það litla sem við gátum lagt af mörkum, með stuðningi við sameiginlegar aðgerðir bandalagsríkja okkar, væri eitthvað sem við hefðum ekki átt að taka þátt í. Þá stóð fyrrverandi utanríkisráðherra í lappirnar og er sú afstaða honum til sóma. Eftir allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu breyttist margt hjá bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins og samstarfsþjóðum sömuleiðis. Enn skortir þó skilning á alvarleika stöðunnar. Þetta á líka við um Ísland en ég vona að það sé að breytast hratt. Við þurfum að taka það sem er að gerast alvarlega. Ef við berum virðingu fyrir okkur sjálfum og því sem við höfum að verja sem samfélag gerum við það.
Þessi þróun, sem er mjög hröð þessa dagana, kallar á djúpan skilning á stöðunni. Það skiptir raunverulegu máli að við vöndum okkur og séum yfirveguð, staðföst og ábyrg. Að við tökum ákvörðun um að vera verðugur bandamaður, í orði og verki. Það eru blákaldir hagsmunir Íslands að gera það.
„Friðarviðræður“
Það er tilefni til að vekja athygli á orðanotkuninni um hinar svokölluðu friðarviðræður sem nú eiga sér stað á milli árásaraðilans og leiðtoga hins frjálsa heims, enda er engar vísbendingar að sjá um að markmiðið sé raunverulega að stuðla að friði í Úkraínu, eða Evrópu ef út í það er farið. Óumdeilt er að ríkið sem nú þykist vilja frið hefur ráðist á fullvalda og sjálfstætt ríki, framið þar stríðsglæpi, myrt almenna borgara, stútað innviðum í landinu, stolið tugum þúsunda úkraínskra barna og flutt þau nauðug til Rússlands og látið sprengjum rigna yfir borgir og landbúnaðarsvæði svo að þau geti ekki framleitt matvæli fyrir heimsbyggðina, svo dæmi séu tekin. Rússar geta sýnt friðarvilja með einföldum hætti; með því að fara af landsvæði sem er ekki þeirra.
Þau samtöl sem hafa átt sér stað á milli Rússlands og Bandaríkjanna minnar fremur á fríverslunarviðræður en friðarviðræður. Og þjóðin sem fórnar lífi sínu fyrir frelsið og friðinn er ekki hluti af þessum viðræðum.
Það er nýr veruleiki fyrir okkur að horfa upp á stjórnvöld í Bandaríkjunum, leiðandi ríkis í hinum frjálsa heimi, beygja sig og bugta fyrir kúgunartilburðum Rússlands, ríkisins sem er helsta ógn við allt það sem Bandaríkin standa fyrir. Þessi tónn frá Trump-stjórninni er alvarlegur. Það að Bandaríkin virðast ætla að velja sér nýtt hlutverk til að gegna í heiminum er ekki gamanmál, ekki breytt vindátt og alls ekki eitthvað sem hægrimenn eiga að klappa upp.
Ég sagði í grein minni hér síðast að menn hefðu verið sammála um eitt þegar sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var skrifuð fyrir 250 árum og það hefði verið að þeir vildu ekki kóng. Um miðja síðustu viku kallaði Bandaríkjaforseti sig það sjálfur, kóng.
Ég hef frá árinu 2021 haldið því til haga að við byggjum tilveru okkar, lífskjör og lífsgæði á að alþjóðakerfið haldi. Að friðurinn sem við búum við sé ekki okkar eigin heldur hvíli hann á þessu kerfi og samstarfi við bandamenn. Það eru blákaldir hagsmunir Íslands. Þetta hefur ekki verið eins augljóst og nú. Sú mynd sem teiknast hefur upp er alvarleg og nú þurfa lýðræðisöfl að skipta um gír. Ég treysti utanríkisráðherra Íslands og öflugri utanríkisþjónustu til að takast á við vandasömustu tíma lýðveldistímans og mun ekki liggja á liði mínu sé þess þörf.