Eystrasalt Sænskur sjóliði fylgist hér með flutningaskipi á Eystrasalti.
Eystrasalt Sænskur sjóliði fylgist hér með flutningaskipi á Eystrasalti. — AFP/Johan Nilsson
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hét því í gær að sambandið myndi auka eftirlit með sæstrengjum á Eystrasalti eftir að sænsk stjórnvöld greindu frá því að þau væru að rannsaka grunuð skemmdarverk á sæstreng í nágrenni Gotlands

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hét því í gær að sambandið myndi auka eftirlit með sæstrengjum á Eystrasalti eftir að sænsk stjórnvöld greindu frá því að þau væru að rannsaka grunuð skemmdarverk á sæstreng í nágrenni Gotlands.

Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að ESB ætlaði sér að verja sæstrengina, finna og sjá fyrir ógnir gegn þeim á skjótari hátt og finna leiðir til þess að gera við þann skaða sem hlýst af slíkum skemmdarverkum sem fyrst. Sagði Kallas að refsa ætti öllum sem yrðu vísir að skemmdarverkum, og þar á meðal ættu refsiaðgerðir gegn viðkomandi ríkjum að vera á borðinu.

Finnska fyrirtækið Cinia greindi í gær frá truflunum á samskiptakapli sínum í Eystrasalti, C-Lion 1, en hann tengir saman Finnland og Þýskaland. Truflanirnar hefðu þó ekki náð að hindra fjarskipti á milli ríkjanna. Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði að allar tilkynningar um skemmdir væru teknar mjög alvarlega.