Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Þrjú ár verða liðin á mánudaginn frá því að Rússar hófu hina ólöglegu allsherjarinnrás sína í Úkraínu. Þegar innrásin hófst aðfaranótt 24. febrúar 2022 bárust fregnir um að Rússar gerðu ráð fyrir skjótum sigri í því sem þeir kölluðu hina „sérstöku hernaðaraðgerð“, og að hersveitir þeirra myndu jafnvel ná höfuðborginni Kænugarði á þremur dögum.
Hetjuleg barátta Úkraínumanna varð til þess að svo varð ekki, og var framsókn rússneska hersins að Kænugarði endanlega stöðvuð um mánuði eftir að innrásin hófst. Úkraínumenn gerðu svo gagnsókn um haustið 2022, þar sem þeir náðu að frelsa megnið af Karkív- og Kerson-héruðum Úkraínu, og voru vonir bundnar við að þeir gætu endurtekið leikinn um sumarið 2023.
Ekki varð af því af ýmsum ástæðum, heldur tók við nokkurs konar skotgrafahernaður, þar sem víglínan haggaðist lítið sem ekkert. Rússar höfðu þó frumkvæðið sín megin, þar sem þeir gátu nýtt sér yfirburði sína í mannafla til þess að hertaka bæi og þorp á borð við Bakhmút og Avdívka, en síðarnefndi bærinn féll í hendur Rússa fyrir rétt rúmu ári.
Það voru því ýmsar blikur á lofti þegar þriðja ár styrjaldarinnar hófst. Rússar héldu áfram að þrýsta á varnarstöður Úkraínumanna í Donbass-héruðunum, og hófu þeir í júlí sóknaraðgerðir til þess að hertaka hina hernaðarlegu mikilvægu borg Pokrovsk (sjá nánar hér til hliðar). Þá reyndu Rússar aftur að sækja inn í Karkív-hérað.
Úkraínumenn reyndu svo að ná frumkvæðinu aftur til sín með því að hefja óvænta innrás í Rússland hinn 6. ágúst. Sóttu þeir þá inn í Kúrsk-hérað og hertóku sem nam um 1.000 ferkílómetrum af rússnesku landsvæði.
Ráðamenn í Úkraínu voru annaðhvort þögulir um tilgang aðgerðanna eða gáfu misvísandi ástæður fyrir sókn Úkraínumanna inn í Rússland, en draga mátti þá ályktun af þeim yfirlýsingum sem þó voru gefnar að þeir vildu annars vegar draga rússneska hermenn frá austurvígstöðvunum í Donetsk-héraði og hins vegar reyna að tryggja sér „skiptimynt“ til þess að leggja á borðið þegar og ef væntanlegar friðarviðræður myndu hefjast.
Kim blandar sér í málin
Ljóst var frá upphafi að Kúrsk-sókn Úkraínumanna var sem fleinn í holdi Pútíns Rússlandsforseta og lögðu Rússar mikið í sölurnar til þess að endurheimta héraðið. Þó að þeir næðu að ýta Úkraínumönnum aðeins til baka, reyndist hægara sagt en gert að sigrast á þessari nýju „innrás“.
Í október bárust fregnir um að norðurkóreskir hermenn væru farnir í herþjálfun í Rússlandi og var talið að á bilinu 10.000-12.000 manns yrðu sendir til átakasvæðanna í Úkraínu. Þegar til kastanna kom reyndist hlutverk norðurkóresku hermannanna að taka þátt í bardögum í Kúrsk-héraði. Voru þeir þó einkum nýttir til árása sem ljóst var að hefðu litla möguleika á að ná árangri, gagngert til þess að þreyta varnir Úkraínumanna.
Þátttaka Norður-Kóreu í styrjöldinni hafði aftur þau áhrif að Bandaríkjastjórn aflétti loksins hömlum sem þeir höfðu sett á notkun langdrægra vestrænna vopna innan landamæra Rússlands. Gerðu Úkraínumenn fyrstu árásirnar með hinu svonefnda ATACMS-eldflaugakerfi í lok nóvember og hétu Rússar hörðum viðbrögðum. Svöruðu þeir svo nokkrum dögum síðar með því að skjóta ofurhljóðfrárri eldflaug á borgina Dnípró.
Breyting í Hvíta húsinu
Helsti vendipunkturinn kann þó að hafa átt sér stað í Bandaríkjunum, en þar var kosið til forseta 4. nóvember. Frambjóðandi repúblikana, Donald Trump, sem hafði ítrekað lýst yfir efasemdum sínum um þá ákvörðun að senda hergögn til Úkraínu, bar þar sigur úr býtum.
Eitt af kosningaloforðum Trumps var að hann myndi binda enda á styrjöldina á einum sólarhring, en nokkuð ljóst þótti að ekki byggi mikil alvara að baki þeim orðum. Hann taldi sig þó geta lofað því að hann myndi knýja bæði Rússa og Úkraínumenn til þess að semja um frið með því að beita þá báða ýmiss konar hótunum og fagurgala til skiptis.
Trump skipaði hershöfðingjann fyrrverandi Keith Kellogg sem ráðgjafa sinn í málefnum Úkraínu og Rússlands, og var Kellogg falið að binda endi á styrjöldina á hundrað dögum. Ekki þótti þó víst hvort að Kellogg gæti náð miklu fram, en rússnesk stjórnvöld settu sig mjög á móti þeim hugmyndum sem Kellogg hafði áður sett fram til grundvallar vopnahlés.
Að lokum dró til tíðinda í síðustu viku, en þá greindi Trump frá því að hann hefði rætt við Pútín símleiðis og að forsetarnir hefðu samþykkt að hefja friðarviðræður „þegar í stað“. Tíðindin af símtalinu vöktu þó strax upp áhyggjur í Evrópu, þar sem ekki virtist sem að Úkraínumönnum væri ætlaður neinn sess við viðræðuborðið. Þá virtist einnig sem að Kellogg hefði verið ýtt til hliðar.
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, Marco Rubio og Sergei Lavrov, funduðu svo nú á þriðjudaginn var og ræddu þar ýmsa þætti í samskiptum stórveldanna tveggja. Ákváðu þeir að ríkin myndu skipa sendinefndir til þess að ræða frið í Úkraínu. Nokkur óvissa ríkir þó nú, þegar styttist í að fjórða ár styrjaldarinnar hefjist, um það á hvaða forsendum slíkur friður eigi að byggja, en Selenskí hefur mótmælt öllum hugmyndum um að Úkraínumenn verði settir til hliðar í viðræðunum.