Þórður Ársælsson fæddist á Önundarstöðum í A- Landeyjum 22. febrúar 1905. Hann lést á Borgarspítalanum í Reykjavík 29. mars 1975.
Foreldrar Þórðar voru Ársæll Ísleifsson, f. 1.1. 1865, d. 12.4. 1938, og Anna Þórðardóttir, f. 13.(6).8. 1870, d. 13.3 1958.
Systkini Þórðar voru: Ísleifur, f. 22.7. 1901, d. 17.3. 1902, Ísleifur Hreinn, f. 24.6. 1903, d. 4.3. 1918, stúlka, f. 23.1. 1913, d. 3.2. 1913.
Árið 1936 kvæntist Þórður Helgu Káradóttur, f. 30. maí 1904, d. 13. júní 1999. Þau eignuðust þrjú börn: 1. Karl, f. 25.2. 1937, d. 22.1. 2005. Ársæll, f. 29.1. 1943. Maki, Eygló Karlsdóttir, f. 17.8. 1961. 2. Anna Matthildur, f. 19.12. 1946. Maki Ágúst Stefánsson, f. 22.5. 1937, d. 24.2. 2020. Börn þeirra: 1) Þórður Ágústsson, f. 15.12. 1967, maki Friðný Heimisdóttir, f. 4.4. 1975. Börn þeirra: Heimir Snær, f. 5.9. 2002. Olga María, f. 6.8. 2006. Emil Þór, f. 19.4. 2012. 2) Helga Ágústsdóttir, f. 25.1. 1971. Maki Birgir Loftsson, f. 13.5. 1967. Börn Þeirra: Anna Ágústa, f.12.4. 1994. Kári Þór, f. 22.8. 1998. Ágúst Jens, f. 15.11. 2003. Jón Gunnar, f. 24.3. 2011. 3) Ívar Þór Ágústsson, f. 15.3. 1973. Maki Bylgja Hrönn Björnsdóttir, f. 17.2. 1975. Börn þeirra: Hrannar Þór, f. 3.8. 2011. Dagur Már, f. 28.12. 2014. Samfeðra Andrea Ósk Ívarsdóttir, f. 24.12. 1996, sonur hennar Leónard Antonsson, f. 14.5. 2019, móðir Andreu Elín Gyða Hjörvarsdóttir, f. 23.8. 1977.
Þórður var bóndi alla sína starfsævi. Hann ólst upp við sveitastörf og skólaganga hans var sveitaskóli þeirra tíma. Móðir hans kenndi honum bænir og las húslestra í anda náðarboðskaps kristinnar trúar. Hann hóf búskap á Önundarstöðum í A- Landeyjum en flutti þaðan að Borg á Eyrarbakka árið 1946 og bjó þar til æviloka.
Þórður var jarðsettur í Eyrarbakkakirkjugarði 5. apríl 1975.
Faðir minn ólst upp á Önundarstöðum hjá foreldrum sínum. Systkini hans dóu í bernsku en uppeldisbræður pabba voru Karl Jónasson sem kom aðeins nokkurra vikna gamall í fóstrið og svo mörgum árum seinna Ágúst Guðjónsson sem líka kom á heimilið mjög ungur. Þeir reyndust pabba sem bestu bræður en eru látnir. Kaupafólk og fleira fólk var heimilisfast á Önundarstöðum um lengri eða skemmri tíma. Faðir minn ólst upp við að sjá móður sína hjúkra gömlu karlægu fólki í einu eða fleiri rúmum baðstofunnar allan sinn uppvöxt. Velferðarmálum þjóðarinnar var svo háttað í byrja 20. aldar.
Á Bakka í Landeyjum bjó Loftur bróðir ömmu ásamt Kristínu konu sinni og börnum. Þetta var umhverfi mannlífsins sem tengdist föður mínum hvað mest á yngri árum.
Sem ungur maður tók pabbi virkan þátt í starfi ungmennafélagsins í sveitinni og Þórður Loftsson frændi hans og góðvinur sagði mér að pabbi hafi þótt góður glímumaður og ég veit að hann var liðtækur í fleiri íþróttum. Hann ólst samt ekki upp við það að lífið fælist í því að leika sér heldur væri það vinnan sem göfgar manninn. Fyrir utan nokkrar vetrarvertíðir í Vestmannaeyjum vann pabbi að mestu við bústörf. Hann mun verið hafa með þeim síðustu sem reri til fiskjar á árabát frá Landeyjarsandi.
Móðir mín fæddist í Vesturholtum, V- Eyjafjallasveit, en kenndi sig jafnan við Prestshús í Vestmannaeyjum þar sem hún ólst upp. Mamma, eins og pabbi, átti mikinn frændgarð í Landeyjum, þau voru þremenningar og þurftu leyfi Danakonungs til að giftast.
Pabbi og mamma tóku við búi á Önundarstöðum í Austurlandeyjum af afa og ömmu og voru þá um þrítugt. Á Önundarstöðum var blandaður búskapur, kýr, sauðfé og hross, og tamdi pabbi hesta og seldi. Föður mínum fannst að Önundarstaðir hefðu verið gerðir afskiptir við lagningu akvegakerfis innansveitar og var erfitt að koma frá sér mjólk og öðrum afurðum. Var það ein af ástæðum þess að foreldrar mínir fluttu frá Önundarstöðum á býlið Borg á Eyrarbakka árið 1946. Borg var erfðafestujörð í ríkiseign sem faðir minn keypti á síðari búskaparárum sínum af ríkinu.
Borg var vel í sveit sett hvað samgöngur varðaði og lengst af var blandaður búskapur þar sem kýr voru uppistaðan í búskapnum. Pabbi vann í mörg ár með búinu þegar það hentaði og lengst af við beinamjölsverksmiðju sem var í nágrenninu. Mamma vann aldrei utan heimilis eftir að hún giftist pabba.
Lengri grein er að finna á https://www.mbl.is/andlat/minningar/
Ársæll Þórðarson.