Baksvið
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV hefur gert sig mjög gildandi þegar kemur að því að upplýsa um hneykslismál af ýmsum toga. Eru málin úr ýmsum áttum en ríkismiðillinn hefur hvatt fólk til þess að senda ábendingar. Þannig var því háttað á síðu Kveiks á ruv.is á sínum tíma þótt sú síða hafi nú verið fjarlægð.
Þar sagði beinlínis: „Við þurfum á ábendingum frá fólki eins og þér að halda.“ – Sumsé öllu því fólki sem álpaðist inn á síðuna og las hvatningarorðin.
En þar komu einnig fram leiðbeiningar um það með hvaða hætti væri best að nálgast fréttamenn með sem öruggustum hætti. Er þar vísað í forritið Signal sem, eins og RÚV kemst sjálft að orði, er þeim eiginleika gætt að „einu upplýsingarnar sem Signal geymir um notendur eru símanúmer notandans, hvenær númerið var fyrst skráð hjá Signal og hvenær notandinn var síðast virkur“. Hins vegar er þess gætt að vara fólk við: „Hafðu í huga að engin samskiptaleið er 100% örugg.“
Ekkert 100% öruggt
Það hefðu starfsmenn Samherja mátt hafa í huga þegar þeir áttu í höggi við stóran hóp blaðamanna sem réði lögum og lofum á RÚV, Stundinni og Kjarnanum árið 2021. Áttu þær stimpingar upphaf sitt í hinu svokallaða Samherjamáli sem hafði varað frá árinu 2012, allt frá því að Seðlabanki Íslands réðist í húsleit hjá útgerðarfélaginu eftir ábendingu frá blaðamanninum Helga Seljan.
Og rétt er að halda því til haga að samkvæmt orðum sem báðar fylkingar hafa látið falla, önnur reyndar í einkaskilaboðum en hin í fréttaskrifum, þá litu þær báðar svo á að um átök væri að ræða sín á milli. Það sést best á einni einfaldri setningu í skrifum Aðalsteins Kjartanssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar frá 21. maí 2021 þegar þeir „afhjúpuðu“ hina svokölluðu skæruliðadeild Samherja, sem ekki var annað en hópur samstarfsmanna sem talaði saman með galgopalegum hætti í einkaskilaboðum. Þar sögðu rannsóknarblaðamennirnir: „Stríðið var hafið“ og vísuðu til þess þegar Páll Steingrímsson skipstjóri tók fyrst að svara þeim fullum hálsi í greinaskrifum á opinberum vettvangi.
En af hverju eru Signal-leiðbeiningar RÚV-starfsmannanna rifjaðar upp hér á þessum vettvangi? Það er gert í tengslum við byrlunarmálið svokallaða sem rakið hefur verið með ítarlegum hætti á síðum Morgunblaðsins að undanförnu. Þar veittu starfsmenn RÚV viðtöku símtæki sem þau máttu vita að var ekki komið í þeirra hendur með vitund og vilja eiganda þess.
Gríðarlegt gagnamagn
Í kjölfarið var símtækið afritað og tilteknum, en afmörkuðum, gögnum úr því komið á framfæri við almenning. Til þess að það hafi mátt vera mögulegt hafa blaðamenn, eða eftir atvikum aðrir sem að því verki komu, þurft að plægja sig í gegnum ótölulegt magn einkagagna Páls. Skilaboð, myndir, myndbönd, skrár sem hlaðið hafði verið niður á símann og annað í þeim dúr.
Allir þeir sem hafa átt snjallsíma um eitthvert skeið vita að í honum býr smættuð veröld eigandans og að þar er margt að finna sem ekki á erindi við almenning. Þau gögn eru vitaskuld varin ákvæðum í lögum og raunar stjórnarskrá um friðhelgi einkalífsins.
Byrlunarmálið er athyglivert í ljósi þess að eiginkona Páls, sem kom símanum á RÚV, afhenti opinberu starfsmönnunum ekki þau gögn sem hún taldi að ættu erindi við almenning, að minnsta kosti ekki einvörðungu. Hún afhenti hina smættuðu veröld Páls.
Hvað ef hún hefði einfaldlega rétt Kveiks-fólkinu lykil að húsi hans og sagt: þar inni er að finna gögn sem eiga erindi við almenning? Eða bíllykla og sagt hið sama um gögn sem þar lægju?
Hefðu starfsmenn RÚV haft heimild til þess að taka við lyklinum og valsa inn, eða eftir atvikum að fela það öðrum?
Algjör nauðsyn brýtur lög
Í algjörum undantekningartilvikum má raunar halda því fram. Ef slík rannsókn hefði upplýst um alvarleg afbrot, sem ekki hefði verið hægt að upplýsa um með öðrum hætti, eða til þess að stöðva yfirstandandi brot eða koma í veg fyrir yfirvofandi hættu.
En átti það við í tilviki skipstjórasímans sem rataði í Efstaleiti? Allir þeir sem lesa fréttaskrif Kjarnans og Stundarinnar um skæruliðadeildina sjá að það stenst enga skoðun. Mögulega var rétt að skyggnast yfir gögnin fyrst ávirðingar eiginkonunnar voru alvarlegar.
En þegar í ljós kom að ekkert stóð eftir, annað en rant um fólk sem starfsfólki Samherja var í nöp við, eða samtöl um það hvernig Páll ætti að orða blaðagreinar sínar, hefðu blaðamenn með fulla dómgreind áttað sig á að árásin á friðhelgi einkalífs eiganda símans var úr öllu samhengi við þann ránsfeng sem mögulegt var að moða fréttir úr.
Stærsta álitamálið fyrir RÚV er þó án vafa það af hverju starfsmenn stofnunarinnar stóðu í þessum skollaleik, að veita símanum viðtöku, en láta öðrum fjölmiðlamönnum, á allt öðrum fjölmiðlum, það eftir að vinna fréttir upp úr símtækinu. Voru það þá eftir allt saman blaða- eða fréttamenn sem gripu símtækið í Efstaleiti? Eða einfaldlega ótíndir milligöngumenn um afhendingu þýfis?
Náin tengsl og margháttuð
Og af hverju þessir blaðamenn? Þeir höfðu sannarlega náin tengsl við marga starfsmenn RÚV og stofnunin sú og starfsmenn hennar áttu óhægt um vik að koma höggi á Samherja þar sem stærstu stimpingar fyrirtækisins höfðu átt sér stað milli þess og helstu vonarstjörnu RÚV, Helga Seljan.
Og fyrst starfsmenn RÚV tóku þá ákvörðun að selja símann í hendur blaðamanna „úti í bæ“, af hverju héldu þá samskipti Þóru Arnórsdóttur, og eftir atvikum annarra starfsmanna stofnunarinnar, áfram við eiginkonu Páls mánuðum eftir að síminn var afhentur? Af hverju voru þau samskipti meðal annars í því formi að láta síma eiginkonunnar í hendur ónefnds tæknimanns sem fara átti yfir tæki hennar? Af hverju fékk eiginkonan lánaðan hvítan Nokia-síma frá stofnuninni og af hverju gaf hún Þóru Arnórsdóttur fullt og óskorað umboð til þess að fá í hendur símkort hennar og öll önnur gögn sem lögmaður hennar, Lára V. Júlíusdóttir, hafði yfir að búa varðandi mál hennar?
Samskiptin héldu lengi áfram
Hvers vegna þurfti eiginkona Páls að eiga tæplega sjö mínútna samtal við Þóru Arnórsdóttur, daginn áður en hún mætti til yfirheyrslu hjá lögreglu þar sem hún fékk stöðu sakbornings – í sama máli og Þóra átti einnig eftir að gera nokkru síðar?
Öllu þessu er ósvarað og hefur ekkert með vernd heimildarmanna að gera. Lögin þar um ná aðeins yfir heimildarmenn sem óska nafnleyndar. Í yfirheyrslu lögreglu árið 2024 aflétti eiginkona Páls þeim trúnaði eins og hún hafði heimild til – og varnarlína fjölmiðlunganna brást.
Og enn standa allir þeir sem kynnt hafa sér byrlunarmálið opinmynntir eftir svari við því hvernig á því stóð að Þóra Arnórsdóttir og hennar fólk nældi sér í símanúmerið 680-2140, nokkrum dögum áður en Páli Steingrímssyni var byrluð ólyfjan af eiginkonu hans. Símanúmer Páls er 680-2141 og til dagsins í dag er ekkert sem bendir til annars en að fyrrnefnda númerið, 680-2140 hafi aldrei verið notað af Þóru Arnórsdóttur til neins annars en þess en setja sig í samband og ræða við eiginkonu Páls.
Þar liggur fiskur undir steini. Nú er þar hins vegar tekið að glitta í bæði hausinn og sporðinn.
‚Ég skil ekki fréttaflutning Moggans lengur, eins og þetta í kvöld, þarf að lesa langt ilt að sjá að þetta er fullyrðing Páls þessa en ekki blaðsins sjálfs. Eða hvað? Maður er ekki viss.
‚Meiri Spuninn.
‚Búið að vísa þessu frá í dómskerfinu og á enga leið þangað aftur. Stóð þó „rannsókn“ yfir lengi lengi. En reynt að hita þetta upp aftur í áróðursskyni í Mogganum.
Egill Helgason,
dagskrárgerðarmaður
‚Þetta er aumkunnarverð blaðamennska hjá Mogganum, ef blaðamennsku skyldi kalla.
Brynjólfur Þór Guðmundsson, fréttamaður
‚Ekki eins og það sé ekki heilt samfélag af furðufuglum hérna á þessu forriti sem grípi hvert tækifæri til að tyggja upp þvættinginn um þetta hver eftir öðrum. Það var þá þöggunin.
Stígur Helgason, fréttamaður
Nánar verður fjallað um byrlunarmálið í Morgunblaðinu næstkomandi þriðjudag. Áður hafa ítarlegar fréttaskýringar birst í blaðinu 13., 15., 18. og 20. febrúar.