Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Nú búa rúmlega 29 þúsund erlendir ríkisborgarar í Reykjavík, sem samsvarar um 68% af heildarfjölda erlendra ríkisborgara á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall þeirra er líka hæst í Reykjavík eða tæplega 21%. Þar fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 380 frá 2014 til 2024 en erlendum ríkisborgurum um 19.540, sem var 98% íbúafjölgunar í borginni á tímabilinu (sjá graf).
Um þrefalt fleiri en 2014
Tæplega þrefalt fleiri erlendir ríkisborgarar bjuggu á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót en bjuggu þar í árslok 2014. Fjölgaði erlendum ríkisborgurum þannig úr 14.460 í 42.620, eða um 28.160.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands en helstu niðurstöður eru hér endurbirtar á grafi.
Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum úr 192.310 í 206.430 eða um rúmlega 14 þúsund.
Tveir af hverjum þremur
Samtals fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins úr 206.770 í 249.050 eða um rúmlega 42 þúsund. Þýðir það að tveir af hverjum þremur nýjum íbúum á svæðinu á þessu tímabili eru erlendir ríkisborgarar.
Af öðrum niðurstöðum má nefna að hlutfall erlendra ríkisborgara hefur náð tveggja stafa tölu í fjórum af sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þá er það komið í 9,6% á Seltjarnarnesi en er lægst í Garðabæ eða 7,4%. Þá má nefna að nú búa tæplega 5.000 erlendir ríkisborgarar í Hafnarfirði en um 5.300 í Kópavogi. Þeir eru eðlilega fæstir á Seltjarnarnesi eða 440.
Misræmi í íbúatölum
Hér er stuðst við tölur Hagstofunnar en eins og Morgunblaðið hefur fjallað um eru þær talsvert lægri en íbúatölur Þjóðskrár Íslands. Annars vegar áætlar Hagstofan að 389.450 einstaklingar hafi búið á Íslandi um síðustu áramót. Hins vegar er áætlað á vef Þjóðskrár Íslands að nú séu 406.594 íbúar skráðir á landinu, eða um 17 þúsund fleiri en Hagstofan áætlaði um áramótin.