Halla Gunnarsdóttir
Halla Gunnarsdóttir
Fólk sem býr við bág kjör og lélegt starfsumhverfi tapar trúnni á lýðræðinu. Öflug verkalýðshreyfing er aftur á móti forsenda raunverulegs lýðræðis.

Halla Gunnarsdóttir

Hin árlega öryggisráðstefna í München tók vægast sagt óvænta stefnu um miðjan þennan mánuð þegar forseti Bandaríkjanna tilkynnti að hann hygðist ganga til viðræðna við Rússlandsforseta um endalok stríðsins í Úkraínu. Helstu leiðtogar Evrópuríkja hafa komið saman til neyðarfundar, enda er nú verið að ræða um breytt landamæri innan Evrópu án aðkomu Úkraínu eða annarra Evrópuríkja. Vestræn samvinna síðustu áratuga er að liðast í sundur í beinni útsendingu.

Við slík stórtíðindi spyrja margir hverju sæti og mun fræða- og stjórnmálafólk fást við þá spurningu næstu árin, enda eru svörin margþætt og skýringarnar ekki einhlítar. Hér verður þó tæpt á einni þeirra, sem lýtur að réttindum og kjörum launafólks og þeirri staðreynd að fólk sem býr við bág kjör og lélegt starfsumhverfi tapar trúnni á lýðræðið. Öflug verkalýðshreyfing er aftur á móti forsenda raunverulegs lýðræðis.

Aftur á bryggjuna?

Á síðustu árum og áratugum hefur víða í hinum vestræna heimi staðið yfir skipulögð aðför að stéttarfélögum. Í Bandaríkjunum hefur stéttarfélaganiðurbrot allt frá tíma Ronalds Reagan á 9. áratug 20. aldar leitt til hruns í félagsaðild og í Bretlandi hefur hlutfallið farið frá um helmingi af öllu launafólki í rúman fimmtung. Þróunin hefur verið á svipaða leið í helstu aðildarríkjum Evrópusambandsins, en í Þýskalandi eru nú aðeins um 17% launafólks í stéttarfélagi. Allt hefur þetta verið gert í nafni frelsis, hagkvæmni og sveigjanleika – svo mjög að fólki hefur verið talin trú um að störf í harkhagkerfinu (e. gig economy) séu því sjálfu í raun fyrir bestu, því að þar sé frelsið mikið. Með sama hætti mætti segja að vænlegast væri fyrir sjávarþorp Íslands að hverfa aftur til þess tíma þegar menn fóru niður að bryggju að morgni í von um vinnu og þar með eitthvað að bíta og brenna fyrir fjölskylduna.

Leggið frá ykkur snitturnar

Þar sem stéttarfélög hafa verið brotin niður hafa kaup og vinnuaðstæður versnað. Launafólk fær minna í sinn hlut og megnið af nýjum auði fer til ríkasta eina prósentsins. Niðurbrot verkalýðsbaráttu hefur því haldist í hendur við stóraukinn ójöfnuð. Í Evrópu eiga ríkustu 10% einstaklinga meiri auð en hin 90% samanlagt. Árið 1975 átti ríkasta eina prósentið í Bandaríkjunum um 5% alls auðs, en árið 2023 var hlutdeildin komin yfir 30%. Samkvæmt nýlegri greiningu ETUC, Evrópusambands verkalýðsfélaga, skammta forstjórar í Evrópu sér nú 110 sinnum hærri laun en meðallaun launafólks í álfunni. Niðurstöður úttektarinnar voru birtar í aðdraganda Heimsráðstefnunnar í Davos og Ester Lynch, aðalritari ETUC, hvatti fyrirtækjaforstjórana sem héldu til fundarins til að leggja frá sér snitturnar og ganga heldur til samninga við samtök launafólks í Evrópu. Raunar er ójöfnuður orðinn svo mikill að meira að segja erindrekunum í Davos blöskrar hann og ítrekað hefur heimsráðstefnan kallað eftir aðgerðum gegn þessari óheillavænlegu þróun.

Hvergi hefur þróunin verið harkalegri en í Bandaríkjunum, þar sem frelsi hinna ríku undan skattheimtu hefur gengið framar öllu öðru. Jafnvel milljarðamæringum þykir nóg um og hefur hópur þeirra stofnað með sér samtök sem vinna sérstaklega í því að auka skattheimtu á hin ríkustu svo að endurbyggja megi innviði í landinu. Í Bretlandi, þar sem niðurbroti verkalýðshreyfingarinnar var fylgt eftir með harkalegri niðurskurðarstefnu (e. austerity) eftir efnahagshrunið árið 2008, er svo komið að sífellt fleiri fullvinnandi einstaklingar búa við fátækt. Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna gegn sárafátækt, sem venjulega einbeitir sér að þróunarlöndum, þurfti að benda á að um 17 milljónir einstaklinga, eða fimmtungur heimila, byggju við fátækt og liðu skort á degi hverjum.

Fólk sem fer svangt að sofa í ríkum löndum tapar trúnni á samfélagið og trúnni á lýðræðið. Í flestum ríkjum Evrópu er nóg til og algjörlega óþarft að ástunda jafn misjafna skiptingu og raun ber vitni. Rannsóknir sýna að í löndum þar sem stéttarfélagsaðild eru hærri eru kjör og vinnuaðstæður launafólks betri og ójöfnuður minni. Það hangir jafnframt saman við meiri kosningaþátttöku og minni stuðning við pólitísk öfgaöfl.

Mikilvægi sterkra stéttarfélaga

Hér á landi er verkalýðshreyfingin sterk og þótt ójöfnuður sé mikill hefur þróunin ekki orðið jafnslæm og víða annars staðar. Kjarasamningar eiga stóran þátt í þeim lífskjörum sem eru á Íslandi – og það er full ástæða til að vara við því að hér sé fetað í fótspor þeirra ríkja sem hafa brotið verkalýðshreyfinguna á bak aftur. Því ber að sporna gegn öllum tilraunum til að veikja stéttarfélög, hvort sem það er með stofnun gervistéttarfélaga eða vanhugsuðum breytingum á vinnumarkaðslöggjöfinni.

Nú þegar svara þarf grundvallarspurningum um stoðir evrópskra ríkja og samstarf þeirra í milli er mikilvægt að draga fram þá þætti sem áður áttu þátt í að byggja upp velsæld í mörgum Evrópuríkjum. Sterk verkalýðshreyfing er eitt besta tækið til að ná fram bættum lífskjörum og betri störfum og þar með að byggja von fyrir lýðræðið í Evrópu.

Höfndur er formaður VR og í framboði í kosningum í félaginu sem fram fara 6. til 13. mars nk.

Höf.: Halla Gunnarsdóttir