Helgi Björn Einarsson fæddist 22. júlí 1937. Helgi lést 5. febrúar 2025.
Útför hans fór fram 19. febrúar 2025.
Elsku besti afi, það er erfitt að lýsa því í fáum orðum hversu heppin og þakklát við erum fyrir að hafa átt þig sem afa.
Þú varst einstakur á svo margan hátt en sérstaklega hvað þú varst alltaf góður og blíður við alla í kringum þig.
Þú hugsaðir alltaf svo vel um okkur barnabörnin, varst alltaf með okkur í huga og reyndir að passa upp á okkur. Hvort sem það var að athuga hvort nagladekkin væru komin á fyrir veturinn, heyra í okkur ef við höfðum ekki heyrst í nokkra daga eða passa að við hefðum allt klárt fyrir jólin. Jólamat, jólaskrauti og macintosh urðu allir að eiga nóg af. Þú varst alltaf til staðar og alltaf jafn stoltur af okkur, sama hvort afrekin voru stór eða smá. Umhyggja þín fyrir okkur skein svo skært.
Fjölskyldan var þér það allra mikilvægasta og leið þér best þegar allir voru hjá þér eða þú vissir hvar allir voru og hvað við vorum að gera. Þú passaðir vel upp á okkur hópinn þinn og hélst öllum þétt saman.
Það var alltaf jafn gott að koma til ykkar ömmu, þar sem alltaf var tekið á móti okkur með brosi og faðmlagi sama hvenær það var.
Þú varst stór partur af okkar æsku og eigum við svo ótal margar dýrmætar minningar með þér. Öll jólin og áramótin í Fagrahvammi þar sem fjölskyldan kom saman og ekki sást í jólatréð fyrir pökkum, páskarnir, sumrin, verslunarmannahelgarnar og allar stundirnar sem við eyddum saman í sveitinni. Þetta eru bestu minningarnar sem við munum alltaf hugsa til með mikilli ást og hlýju.
Okkur fannst þú geta allt, stór og sterkur með stóru mjúku hendurnar og hlýjasta faðminn. Það virtist ekkert vera of stórt eða þungt og ekkert verkefni sem þú gast ekki leyst.
Þú varst góð fyrirmynd fyrir alla, sagðir aldrei slæmt orð um annað fólk og passaðir alltaf upp á þá sem erfitt áttu. Þú kenndir okkur líka mikilvægi þess að vera góð hvert við annað og passa upp á fólkið í kringum okkur.
Samband ykkar ömmu var einstakt, svo falleg og góð saman. Þótt þið væruð komin á níræðisaldur var augljóst hversu mikil væntumþykja og ást var ykkar á milli. Þú passaðir alltaf svo vel upp á ömmu og var einungis það besta í boði fyrir hana. Enda sagði amma alltaf að hennar mesta lukka í lífinu væri að kynnast þér, Helga sínum.
Það voru algjör forréttindi að alast upp með þér og ömmu okkur þétt við hlið, þið gerðuð allt svo miklu betra með ást ykkar og umhyggju.
Elsku afi, takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið og allt sem þú hefur gert fyrir okkur, elskum þig alltaf.
Þín
Helgi og Margrét.
Elsku frændi, kærar þakkir fyrir allt.
Helgi Björn, eins og ég kallaði þig oft, þú varst höfðingi og verður það í mínum huga um ókomna tíð.
Þú varst ráðagóður fram í fingurgóma. Ráðin stóðust og standa enn. Ég minnist margs frá blautu barnsbeini, kaffiboðanna í Bjarnabæ, æskuheimili þínu, og að koma á Hólabrautina sem var mitt annað heimili. Það var alltaf gaman að koma til ykkar Sollu og stelpnanna ykkar á Kelduhvamminn og síðar á hin glæsilegu heimilin ykkar. Ófáar voru bústaðaferðirnar að Þingvallavatni, berjamór víða, veiða með þér silung og síðar fara með þér í bústað. Hjálpa í áraraðir, ganga frá handriðinu sem þú smíðaðir og smíða með þér palla og verandir víða. Við áttum alltaf gott spjall og þú kunnir svo vel að segja til. Þú kenndir mér margt og að gera hlutina vel og strax, hafa þetta almennilegt eins og þú sagðir svo oft, takk. Fyrst maður var að þessu á annað borð, láta það þá duga vel. Öll ráðin um smíðar mínar í bústað og viðgerðir, ófá símtölin um heima og geima.
Ég vona innilega að logn sé á djúpinu þínu, því rokið var sannarlega hér er þú kvaddir, meira að segja laust niður eldingu í Hallgrímskirkju. Þetta var þó minna rok en rokið sem við upplifðum úti á sjónum er þú stappaði í mig stálinu. Það var sjaldgæf vestanátt sem þú sagðir mér sögur af þegar skipin slitnuðu frá legufærum. Þú kenndir mér að binda traust á ból, takk. Ég heyrði oft í þér í síma en mér er sérstaklega minnisstætt eitt skiptið, en þá hvein svo í ægi að þú heyrðir varla í brotinni rödd minni. Ég var þá að taka þátt í keppni á skútu þar sem blés upp í 55+ hnúta á móti, sjórinn fauk í andlitið eins og frosið hagl. Við vorum á leið yfir hafið og byrinn hafði verið á móti í nokkrar vikur. Ég reyndi að bera mig vel en þú fannst að þetta voru erfiðar aðstæður og sagðir sallarólegur: hann lægir. Það lægði hugann og við kláruðum keppnina með sigri.
Þú varst afreksmaður út í gegn og alltaf stoltur af afrekum mínum, fyrstur á bryggjuna og stoltur af sundinu. Þú áttir sannarlega stóran þátt í að efla mig til þátttöku á Ólympíuleikum, í siglingunum og mörgum Íslandsmeistaratitlum. Þú hafðir alltaf mikla trú á mér og hvattir mig í mínum verkefnum. Það sem ber þó hæst var áhugi þinn og væntumþykja til gullanna minna þriggja, drengjanna. Þú áttir yndislegar stundir með okkur og fjölskyldunni. Þú varst gjafmildur og hjálpaðir þeim sem minna máttu sín, ófáar skreytingar og berin sem fóru á góða staði.
Þú varst hörkuduglegur og allt í öllu í fiskverkun þinni, yndislega Alla bróður þíns og Munda okkar. Passaðir vel upp á að við færum okkur ekki að voða. Þar var sko unnið og tekið á og hlaupið í bankann og aðra skrifstofuvinnu þess á milli. Vinnan var sönn líkamsrækt.
Þú varst dásamlegur og ótal minningar um þig lifa með okkur alla tíð. Ráðagóður og næmur á aðstæður. Ég ætla að hafa léttleikann, atorkuna og kraftinn sem þú kenndir okkur að leiðarljósi. Hjartans þakkir fyrir ómetanlega samfylgd, þú ert svo sannlega fyrirmynd til að líta upp til, elsku Helgi Björn, hvíldu í friði.
Þinn
Arnþór.