Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Ég kann engar skýringar á þessu. Þetta eru nákvæmlega sömu kort. Það þarf ekki að segja mér annað en að þetta kosti milljónir króna af almannafé. Sem er alger óþarfi,“ segir Ernst Backman hönnuður með meiru.
Ernst furðar sig á því að Strætó hafi fengið auglýsingastofur til að teikna leiðakort en útkoman sé sú sama og kort sem hann hafi áður teiknað og notast hafi verið við um langt árabil. Ernst rak auglýsingastofu í 45 ár og gerði fyrsta leiðakort Strætó í lok áttunda áratugarins. Síðan uppfærði hann og þróaði kortið reglulega fyrir Strætó eftir því hvernig leiðirnar breyttust.
Hefur hvorki tíma né peninga til að fara í mál
Ernst er nú að eigin sögn hættur að vinna og sé því ekki að leita sér að verkefnum. Hann segir farir sínar hins vegar ekki sléttar í samskiptum við Strætó. „Það er galið að eyða peningum í að gera kort sem var til. Öll hugsun í kortinu er fengin að láni frá mér. Það er einhver maðkur í mysunni.“
Hann kveðst hafa sett sig í samband við framkvæmdastjóra Strætó, Jóhannes Rúnarsson, vegna málsins en svörin hafi ekki verið merkileg. „Hann gat eiginlega ekkert sagt, neitaði því að einhver líkindi væru þarna og sagði mér að ef ég teldi á mér brotið gæti ég bara sótt það mál. Ég er ekkert að fara í mál, ég hef hvorki tíma né peninga í það. En mér er annt um verkefnin mín. Menn eiga ekkert að láta eins og fífl.“
Á ekki einkarétt á beinlínukortum
Jóhannes Rúnarsson segir í samtali við Morgunblaðið að Ernst hafi vakið máls á þessu reglulega síðustu 10-12 árin. „Hann teiknaði kort fyrir Strætó í eldgamla daga og taldi sig eiga rétt á einhverjum beinlínukortum sem eru notuð úti um allan heim. Ef svo væri þá væri hann sjálfsagt margmilljarðamæringur. En það var náttúrulega aldrei þannig,“ segir hann.
Forsvarsmenn Strætó hafi að hans sögn á sínum tíma ákveðið að skipta yfir í öðruvísi útgáfu af beinlínukortum og við það tækifæri hafi fyrirtækið látið teikna þau upp á nýtt. „Það er að okkar mati alveg eðlilegt og enginn á einkarétt á þessu. Og það er enginn aukakostnaður, hvort sem ég borga auglýsingastofu eða honum fyrir að gera kort.“