Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Menningar- og listaveislan í Hörpu annað kvöld er einn af stóru viðburðum hátíðarinnar, þetta verður mikil upplifunarveisla,“ segir Margrét M. Norðdahl, listrænn stjórnandi menningarhátíðarinnar Uppskeru, sem fór af stað 8. febrúar og stendur til 8. mars í Reykjavík. Hátíðin er haldin í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða við Háskóla Íslands og er henni ætlað að vekja athygli á framlagi fræðafólks, samtaka fatlaðs fólks og fatlaðs listafólks til íslenskrar menningar.
„Listheimurinn rétt eins og samfélagið allt, er því miður ennþá svolítið aðgreint, þar sem ákveðnir hópar hafa verið útilokaðir frá þátttöku, en það eru sem betur fer mörg að vinna markvisst að inngildingu. Þegar við erum öll þátttakendur þá gerir það bæði samfélagið okkar betra og listirnar betri. Við þurfum að huga að ólíkum þörfum fólks þegar kemur að aðgengi að listviðburðum, en við þurfum líka að hugsa fyrir því hvaða fólk hefur dagskrárvaldið, hver skrifa handritin, stíga á sviðin og sýna verk sín í sölum safna. Þau íslensku verk sem sýnd verða brot úr í sviðslistaveislunni í Hörpu á morgun, þar sem fatlað listafólk leikur aðalhlutverk, hafa tekið sér pláss inni í meginstraumi listanna, inni á sviði í Þjóðleikhúsinu, í Borgarleikhúsinu og þau eru hluti af stóru hátíðunum eins og Listahátíð í Reykjavík og List án landamæra. Þetta eru allt gæðaverk sem hafa slegið í gegn og við þurfum sannarlega að sjá í auknum mæli slíka inngildingu á öllum sviðum lista. Það eykur gæði í menningar- og listalífi þjóðarinnar,“ segir Margrét og bætir við að áhugavert sé að spegla aðgengi og inngildingu í baráttu annarra hópa sem hafa í gegnum tíðina þurft að taka slaginn til að komast að í listasenunni.
„Til dæmis þurftu konur hér áður að berjast fyrir því að fá að mennta sig í listum, þær þóttu ekki eiga erindi upp á dekk. Okkur finnst alveg sjálfsagt í dag að konur séu með í listasenunni og við munum einn daginn horfa til baka og hugsa: „Mikið var skrýtið þegar listalífið var aðgreint og við vorum útilokandi fyrir einhverja hópa, hvort sem það var fólk af erlendum uppruna eða fatlað fólk.“ Sem betur fer er ótrúleg hreyfing í jákvæðar áttir og mikil dínamík í gangi í lista- og menningarlífinu, og við þurfum öll að axla okkar ábyrgð þar.“
Gjörningar í almannarými
Margrét segir mikið verða um dýrðir í Hörpu í kvöld þegar upplifunarveislan fer af stað.
„Við byrjum á því að vera með gjörninga þegar gestir fara að tínast inn í hús um hálf sjö. Annars vegar verður götuleikhúsverk eftir Fjölleikhúsið, sem verður flutt í almannarými Hörpu, og þau ætla að sýna hluti úr verki sem heitir „Ferðalag“ og byrjar í bílakjallaranum en færist upp í gegnum Hörpu, alla leið upp í Eyri, svæði á annarri hæð þar sem myndlistasýning verður opnuð. Annar hópur, Gjörningasveit Hlutverkaseturs, verður líka með gjörning í almannarýminu. Hjá þeim verður tónlist og flæðisgjörningur, en þau segja um inntak verksins: „Þegar horfst er í augu hverfur blindan, höldumst í hendur og byrðarnar verða léttari, litir og list, hreyfingar og kvikt líf eru bestu þerapistarnir.“ Þessir tveir hópar leiða gesti inn í Eyri, þar sem opnuð verður myndlistarsýningin Bjartast á annesjum. Þar verða meðal annars verk eftir listafólk sem vann að þeim í Listvinnzlunni. Þau hafa unnið skúlptúra frá því í haust, en mörg þeirra eru vön að vinna í tvívídd og færa sig i þessum verkum yfir í þrívídd. Þau hafa notið þess að takast á við að vinna stór verk, þau hafa verið að steypa og gifsa,“ segir Margrét og bætir við að Listhópur Hlutverkaseturs hafi líka unnið tvö mjög stór verk fyrir sýninguna sem heita „Tilfinningavitar“.
Madam Tourette gestgjafi
„Þegar Logi Einarsson hefur flutt opnunarávarp og Rannveig Traustadóttir prófessor í fötlunarfræði haldið stutta tölu, þá ætla ég að kynna sýninguna og fagna sýnendunum. Síðan verður boðið upp á léttar veitingar og að því loknu fer sviðslistahátíðin af stað. Svo ótrúlega margt hefur verið að gerast í listheiminum, alls konar listafólk hefur verið að taka sér pláss og við erum að færast í áttina að inngildingu þar sem er rými fyrir allt fólk innan listanna. Á sviðslistahátíðinni verða sýnd brot úr fyrrnefndum margverðlaunuðum verkum þar sem fatlað listafólk leikur aðalhlutverk. Þar á meðal úr dansverkunum Svörtum fuglum og Dúettum og leikverkunum Fúsi, aldur og fyrri störf, Taktu flugið beibí! og Eden. Tvö atriði verða frumflutt, annars vegar gjörningurinn „Er bara svona“, eftir Hjördísi og Nóel, en þar fjalla þau um hvernig við eigum samskipti og hvernig við skiljum hvert annað. Þau segja um gjörninginn: „Flæði sem fer fram í samskiptum er margbreytilegt, bæði yrtum og óyrtum samskiptum, augu upplifa eðli samskipta með öðrum hætti en þeim ríkjandi samskiptamáta sem er raddmálið.“ Annað verk sem verður frumsýnt er tónlistarmyndband sem heitir „Hjálpum þeim“, en fólk í Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, gerði þetta myndband, sem unnið er með stuðningi frá stórum hópi fólks, vinum og samstarfsfólki. Í myndbandinu syngur fólk í Átaki um hvernig fatlað fólk hjálpar samfélaginu að verða betra. Gestgjafinn sem ætlar að leiða gesti í gegnum þetta ferðalag sem sviðslistaveislan er, hann er enginn annar en sviðslistakonan Elva Dögg Gunnarsdóttir, einnig þekkt sem Madam Tourette.“
Sjónlýsing og ritmálstúlkun
Margrét tekur fram að ókeypis sé inn á hátíðina og að öll séu velkomin.
„Við leggjum áherslu á aðgengi og gerum því listviðburðina alla mjög aðgengilega. Mjög fjölbreyttur hópur þáttakenda, listafólks, kemur fram og sýnir og allir viðburðir eru táknmálstúlkaðir og sviðslistaviðburðurinn annað kvöld í Hörpu verður auk þess sjónlýstur bæði á íslensku og ensku. Þegar fólk nær sér í ókeypis miða á tix.is þá getur það merkt við þar hvort það þurfi stæði fyrir hjólastól og hvort það vilji fá sjónlýsingu. Fólk getur þá valið að fá tæki í eyrað og hlustað þar á sjónlýsingu af öllum sviðsverkunum. Einnig verður ritmálstúlkun á sviðsverkunum. Við bjóðum líka á sviðslistahátíðinni upp á skynvætt rými í Eyri, þannig að gestir geti tekið sér pásu ef þeir þurfa.“
Nánar á síðu hátíðarinnar: hi.is/uppskera