Rússar hófu sóknaraðgerðir í Donetsk-héraði um miðjan júlí á síðasta ári með það markmið að hertaka borgina Pokrovsk. Borgin þykir skipta miklu máli fyrir varnir Úkraínuhers í Donetsk-héraði, þar sem mikilvægar birgðalínur liggja um borgina, auk…

Rússar hófu sóknaraðgerðir í Donetsk-héraði um miðjan júlí á síðasta ári með það markmið að hertaka borgina Pokrovsk. Borgin þykir skipta miklu máli fyrir varnir Úkraínuhers í Donetsk-héraði, þar sem mikilvægar birgðalínur liggja um borgina, auk þess sem hún gerir hernum auðveldara fyrir að færa hersveitir sínar til og frá víglínunni.

Fall borgarinnar gæti því þýtt að Rússar ættu mun auðveldara um vik með að leggja Donetsk-hérað undir sig að fullu, þar sem yfirráð yfir Pokrovsk myndu skera á helstu birgðaleið varnarliðsins í Tsjasív Jar og tryggja að sú borg myndi falla Rússum í skaut. Það myndi aftur leiða til þess að aðrar borgir Donetsk-héraðs, svo sem Kramatorsk og Kostíantínívka, væru komnar í þrönga stöðu.

Í fyrstu var óttast að Pokrovsk gæti fallið á skömmum tíma, þar sem Úkraínuher hafði einkum óreynda hermenn til þess að gæta víglínunnar þar sem sókn Rússa hófst. Þá var einnig horft til þess að Rússar höfðu í febrúar hertekið borgina Avdívka og beitt þar loftárásum í miklum mæli til þess að gera fótgönguliði léttara fyrir að sækja að varnarliði Úkraínumanna.

Sókn Rússa að Pokrovsk hefur hins vegar ekki gengið snurðulaust fyrir sig, og hafa þeir kostað miklu til þess að ná borginni á sitt vald. Sókn Rússa hófst 17. júlí og gekk vel í fyrstu, þar sem hvert þorpið á fætur öðru féll þeim í skaut. Var óttast að nokkur hundruð úkraínskra hermanna gætu jafnvel orðið innlyksa, en 24. júlí var greint frá því að þeir hefðu náð að forða sér undan Rússum.

Ástandið var engu að síður erfitt fyrir Úkraínuher, og hófu Rússar aðra sóknarlotu 1. ágúst, og sóttu að bæjunum Hródívka og Novohródívka. Voru Rússar þá komnir um 19 kílómetrum frá Pokrovsk-borg, eða nógu nálægt til þess að beita stórskotaliði sínu gegn varnarliði borgarinnar.

Hinn 6. ágúst hófu Úkraínumenn gagnsókn inn í Kúrsk-hérað Rússlands, en sókninni var meðal annars ætlað að draga liðsauka Rússa frá vígstöðvunum í Donetsk-héraði og að Kúrsk. Virtist þó sem Kúrsk-sókn Úkraínumanna hafi haft lítið að segja um sóknarþunga Rússa í nágrenni Pokrovsk. Voru Rússar einungis um tíu kílómetrum frá Pokrovsk um miðjan mánuðinn, og fengu þá allir óbreyttir borgarar sem enn voru í borginni hvatningu um að flýja. Var talið að Rússar myndu þá líklega ná að hertaka Pokrovsk innan tveggja vikna.

Novohródívka féll 28. ágúst, og var þá talið að Rússar hefðu greiða leið til að sækja inn í Pokrovsk. Rússar sögðust þá einnig hafa náð miklu af bænum Hródívka á sitt vald auk þess sem hersveitir þeirra voru komnar að bænum Selídóve, en báðir bæir féllu þó ekki fyrr en í lok október.

Frá þeim tíma hafa Rússar hins vegar ekki náð að sækja að borginni sjálfri heldur hafa þeir sótt frekar sunnan við Pokrovsk, meðal annars til þess að reyna að koma í veg fyrir að Úkraínuher geti sent liðsauka til borgarinnar.

Ljóst er að Rússar hafa beðið þó nokkuð mannfall á þeim sjö mánuðum sem liðnir eru frá því að þeir hófu fyrst sókn sína að Pokrovsk, en talið er að þeir hafi misst á bilinu 15.000-21.000 manns þegar horft er til bæði fallinna og særðra. Er tala fallinna áætluð í kringum 7.000 manns, en það er meira en Rússar töpuðu í seinna Téténíustríðinu, sem stóð frá 1999 til 2009.

Þegar horft er til allrar víglínunnar hefur verið áætlað að Rússar hafi misst um hundrað manns fyrir hvern ferkílómetra Úkraínu sem þeir lögðu undir sig á árinu 2024. Spurningin er hvort sú mannfórn muni þykja þess virði þegar og ef Pokrovsk loks fellur?