Jón Sigurður Snæbjörnsson fæddist 6. október 1939. Hann lést 10. febrúar 2025.

Útför hans fór fram 19. febrúar 2025.

Elsku afi, nú er ferðin þín í sumarlandið hafin. Þú situr líklega galvaskur á bak við stýrið á L300 með pípuna í hendinni og bros á vör á hraðferð á sveitaveginum í átt að sumarlandinu.

Það sem klikkaði aldrei hjá þér í Fjóluhvammi var hrært skyr með rjóma og rúgbrauð með kæfu í hádeginu, þetta borðuðum við bara hjá þér með bestu lyst og drukkin kókómjólk með. Þú varst alltaf tilbúinn að gera eitthvað með okkur, keyra í Geitdal, fara í sund og fleira. Það var alltaf mikið fjör þegar okkur var öllum smalað í eitt stykki L300 því þá vissi maður aldrei hvaða ævintýri tæki við.

Það kom alltaf mikil ró yfir mann þegar maður kom til þín í Fjóluhvamminn og leysti gestaþrautir með Rás 1 í bakgrunni og á spjalli um allt og ekki neitt. Nærvera þín var svo góð og gátum við alveg setið í þögninni að hlusta á Rás 1; það þurfti ekki alltaf að halda uppi samræðum. Samveran var alltaf svo dýrmæt.

Góða ferð elsku afi.

Sveinn Pálmar, Jón Kristinn og Margrét Ósk.

Vinur minn og lengi starfsfélagi, Jón S. Snæbjörnsson, er allur. Ég sá hann fyrst haustið 1961. Akandi kom hann að Hvanneyri á sínum fjögurra dyra Rússajeppa ofan frá Hesti í Borgarfirði. Hafði þegar stofnað fjölskyldu. Nam nú í Framhaldsdeild Hvanneyrarskóla. Sakir námsanna hans og búsetu höfðum við nemendur lægri bekkja skólans þá fremur lítil kynni af Jóni. Heyrðum hins vegar af námshæfileikum hans í námshópi Framhaldsdeildarinnar sem þekktur varð fyrir óvenjusterka námsmenn.

Síðar lágu leiðir okkar Jóns saman, m.a. við framhaldsnám í Noregi en lengur þó við kennslu og rannsóknastörf á Hvanneyri. Jón var góður og traustur félagi, hafði sinn einkennandi stíl og hugsaði sjálfur. Sá því gjarnan fleiri lausnir en við hinir. Hefði orðið lausnamiðun verið til á þeim árum hefði það átt við Jón. Bilaðar vélar og tæki voru honum sérstök ögrun. Því flóknari þeim mun betra. Engum var betra að lána grip sem áfátt var í einhverju – honum var jafnan skilað viðgerðum í fullkomnu lagi.

Tæknikunnátta Jóns kom sér einkar vel þegar hann veitti efnarannsóknastofu Hvanneyrarskóla forstöðu. Áhöld öll í standi og það mixað sem þurfti. Mér er það t.d. í minni er hann setti upp fyrir okkur greiningu á lífrænum sýrum í votheyi (kromatografíu) með glerstömpum, klemmum, viðeigandi pappír svo og efnalausnum, sem hann af kunnáttu sinni í kemíu hafði bruggað.

Frá kennslu á Hvanneyri hvarf Jón með fjölskyldu sinni til bústjórnar Fjárræktarbúsins á Hesti. Þar megnaði hann að færa flest búverk til nútímalegra horfs en tíðkast hafði, við hóflegan skilning þeirra sem þar höfðu þá yfirráð.

Undir lok áttunda áratugarins flutti Jón með fjölskyldu sinni til Egilsstaða en þar eystra voru æskustöðvar þeirra hjóna. Þar átti Jón afar farsælan feril, ekki síst sem ráðgjafi og hollvinur austfirskra bænda um langt árabil, já raunar allt til síðustu daga.

Við hjónin þökkum Jóni fyrir áratuga samfylgd og vináttu, sem og marga liðveislu hans veitta af örlæti, raungæsku og heilum hug. Við sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Jóns S. Snæbjörnssonar.

Bjarni Guðmundsson.

Andlát Jóns skólabróður okkar undirritaðra minnir okkur enn einu sinni á hverfulleika lífsins þar sem við stöndum einir eftir af átta útskriftarsystkinum úr Framhaldsdeildinni á Hvanneyri vorið 1963. Þrátt fyrir lífslokin óhjákvæmilegu koma þau ætíð á óvart. Andlát Jóns var þar engin undantekning, þótt hann hefði ekki gengið heill til skógar um hríð.

Af kynnum okkar við Jón vakna sannarlega margar og ljúfar minningar frá því að við kynntumst honum, hvort sem var í búfræðináminu forðum eða síðar í viðburðaríku samstarfi og á gleðistundum, sem við áttum margar saman með skólasystkinum okkar í gegnum árin. Á vordögum 2023, þá fjögur eftirlifandi, áttum við síðast eftirminnilega stund saman með nokkrum af okkar nánustu á Hofi í Vatnsdal

Þegar skólagöngunni lauk dreifðumst við vítt um til nýrra verkefna.

Magnús: Jón gerðist starfsmaður við Bændaskólann á Hvanneyri næstu árin, en fór um skamma hríð til framhaldsnáms í Noregi og eftir heimkomuna var hann kennari á Hvanneyri og svo bústjóri tilraunabúsins á Hesti. Á þessum árum voru samskipti okkar margvísleg og sérstaklega eftir að við gerðumst samherjar meðan Jón starfaði á Hvanneyri og á Hesti. Á þessa samveru okkar bar aldrei skugga og var hún afar ánægjuleg.

Jón var hógvær í framgöngu, hafði sig lítt í frammi, en var þó einarður í skoðunum og lét þær hispurslaust í ljós. Hann flíkaði ekki getu sinni og hæfileikum og gerði lítið úr þótt allt léki í höndum hans og oft á tíðum ótrúlegt hvað honum tókst að gera við og koma í gangfært stand. Öflugur og farsæll í öllum störfum sínum, hugvitssamur og verkviljugur. Góður liðsmaður í hvívetna sem minnst er með söknuði.

Þórarinn: Á upphafsárum mínum sem tilraunastjóra á Skriðuklaustri um 1985 hófust kynni okkar Jóns á starfsvettvangi, en þá hafði Jón hafið störf sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Austurlands (BsA). Þau kynni jukust þegar ég gerðist einnig ráðunautur hjá BsA upp úr 1990 með Jón sem framkvæmdastjóra. Jón var ákaflega farsæll í þessu starfi. Hann bar ætíð hag BsA fyrir brjósti og gætti þess að ekki væri eytt um efni fram, jafnvel þótt um ýmis kostnaðarsöm verkefni væri að ræða.

Í þessu sambandi kom eitt sinn athugasemd við endurskoðun ársreikninga BsA um ótrúlega lítinn viðhaldskostnað bifreiðaflota sambandsins, einkum vegna þess hve hann var orðinn gamall. Orsök þessa var auðrakin til glöggskyggni Jóns á ástand bílanna sem hann fylgdist vel með og gerði við strax heima hjá sér eftir vinnudag og forðaði þeim þannig frá dýrum viðgerðum. Þessu líkur eiginleiki hans kom oft glöggt fram í greiðasemi og ótal viðvikum hans fyrir vini og vandamenn, enda bóngóður, laghentur og útsjónarsamur.

Við félagarnir, ásamt eftirlifandi mökum í útskriftarhópi okkar framhaldsdeildunga vorið 1963, vottum fjölskyldu Jóns og öðrum syrgjendum innilega samúð og þökkum honum dýrmæta samfylgd og vináttu í gegnum árin.

Magnús B. Jónsson og Þórarinn Lárusson.