HK er í góðri stöðu í baráttunni um áttunda sætið, síðasta sætið í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í handbolta, eftir heimasigur á KA, 33:29, í gærkvöldi.
Kópavogsliðið er nú með 16 stig, fjórum stigum meira en KA sem er í níunda sæti. Stjarnan er í sjöunda sæti með 18 stig.
HK komst í 4:1 í upphafi leiks og var staðan í hálfleik 19:15. Munurinn varð minnstur tvö mörk í seinni hálfleik en HK var alltaf með undirtökin og náði mest sjö marka forystu í 27:20.
KA-menn löguðu aðeins stöðuna í blálokin en forskoti HK-inga var ekki ógnað. Hefur HK nú unnið fjóra leiki af síðustu fimm. KA er með fjögur töp í síðustu fimm leikjum og aðeins einn sigur í síðustu sjö leikjum.
Leó Snær Pétursson skoraði sjö mörk fyrir HK og Hjörtur Ingi Halldórsson sex. Dagur Árni Heimisson hjá KA var markahæstur á vellinum með tíu mörk.