Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Undanfarna daga hefur Garðar Örn Hinriksson, tónlistarmaður með meiru frá Stokkseyri, dreift bók sinni Spurningahandbókinni til kaupenda í forsölu. Hann sendi frá sér plötu í lok janúar, hefur haldið úti vefsíðunni grafarholtid.is undanfarin misseri og verið eftirlitsdómari hjá Knattspyrnusambandi Íslands síðan 2023 auk þess að vera heimavinnandi húsfaðir undanfarin átta ár. „Ég hef nóg að gera, þökk sé parkinsonsjúkdómnum sem ég hef lifað með í um átta ár,“ segir hann. Garðar Örn, landsþekktur knattspyrnudómari, starfaði áður sem einkaferðaleiðsögumaður en varð að hætta að vinna 2020 vegna veikindanna.
Grafarholtið er tiltölulega nýtt hverfi og Garðar Örn segir erfitt að halda úti vefsíðu um fámennið. „Ég gríp í þetta af og til, tek viðtöl við fólk og segi frá sögu hverfisins.“ Hann á líka slóðina breidholtid.is og segir að sennilega hefði hann frekar átt að eiga heima í Breiðholtinu með útgáfuna í huga. „Eða í Bronx í New York. Þá hefði ég mikið að gera. Meira að skrifa um. En ég hef nóg annað fyrir stafni og því truflar þetta mig ekki.“
Frekari útgáfa í bígerð
Um 1.200 spurningar í sex flokkum eru í Spurningahandbókinni. Garðar Örn fékk styrk til útgáfunnar frá Karolina Fund og byrjar að dreifa bókinni í verslanir í næstu viku. „Þetta er kjörin handbók fyrir þá sem vilja vera í spurningaleikjum,“ segir hann. Garðar hefur áður hannað borðspil og bætir við að hann sé tilbúinn með annan og þriðja hluta bókarinnar, en útgáfa á þeim fari eftir viðtökum við fyrsta hlutanum.
Félagarnir Garðar Örn og Daníel Hjaltason sendu nýverið frá sér plötuna It All Comes Alive með 12 lögum undir höfundarnafninu HinnRYK. „Nafnið er bara bull, stendur ekki fyrir neitt,“ upplýsir Garðar Örn, en bendir á að knattspyrnudómarinn fyrrverandi og knattspyrnumaðurinn fyrrverandi, Íslandsmeistarinn með Val 2007, hafi þarna leitt saman hesta sína. „Ég sem söngvari og hann sem rappari en svo sömdum við tónlistina saman.“ Lögin séu blanda af poppi, pönki, „soul“-tónlist og rappi. „Ég byrjaði að syngja áður en ég lærði að tala, þökk sé langömmu, sem var mjög trúuð og kenndi mér mörg lög um Jesú. Ég hóf snemma að semja tónlist og hef haldið kunnáttunni við,“ segir hann en Garðar Örn gaf út sólóplötuna It’s Just Me 2021 undir höfundarnafninu Son of Henry. „Mér finnst gaman að vera í kringum tónlist og skapa hana, gaman að syngja og skrifa texta. Tónlistin hefur gefið mér svakalega mikið og svo bættust skrifin við á síðari árum. Ég hef skrifað margar sögur sem hafa ekki enn komið út.“
Eftir að Garðar Örn lagði dómaraflautuna á hilluna 2016 byrjaði hann að skrifa bók og Rauði baróninn: Saga umdeildasta knattspyrnudómara Íslandssögunnar kom út 2021. Hann lét ýmislegt flakka á árum áður um dómara, leikmenn og knattspyrnuforystuna og fékk bágt fyrir en er nú sáttur við Guð menn og dýr.
„Parkinsonsjúkdómurinn er viðbjóðslegur en það er erfitt fyrir mig að hata hann því hann hefur gefið mér svo margt. Ég hef til dæmis miklu meiri tíma með börnunum mínum en ef ég væri í fastri vinnu. Ég hefði sjálfsagt ekki sent frá mér þessar bækur og plötur að óbreyttu.“ Hann hafi einnig tekið upp þráðinn á ný hjá KSÍ og unnið við eftirlit með dómurum frá 2023, en nú í neðri deildunum. „Ég vil aðstoða ungu dómarana og hjálpa þeim til þess að verða betri. Ég vona að mér sé að takast það.“
Garðar Örn lét nýverið undan þrýstingi konu og barna og samþykkt að fá tveggja mánaða kettling inn á heimilið, en áður þoldi hann ekki ketti. „Ég sagði lengi nei en ákvað að gefa þessu tækifæri og kötturinn náði mér nánast strax enda stekkur hann á allt sem hristist og skelfur. Mér þykir afar vænt um þennan kött, Snúllu litlu, og því átti ég ekki von á, en það er hægt að kenna gömlum hundum að sitja.“