Keith Kellogg, sérstakur erindreki Trumps Bandaríkjaforseta í Úkraínu, sagði í gær að hann hefði átt „umfangsmiklar og jákvæðar viðræður“ við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í fyrradag. Kallaði Kellogg Selenskí „hugrakkan leiðtoga“, en Trump kallaði Selenskí fyrr í vikunni „einræðisherra“.
Ýmsir af helstu ráðgjöfum Trumps tóku undir gagnrýni hans á Selenskí, sem byggir á því að forsetakosningum í Úkraínu var frestað í samræmi við stjórnarskrá landsins, þar sem landið á í stríði.
Embættismenn í Kænugarði greindu frá því í gær að þrátt fyrir skeytasendingar forsetanna tveggja væru viðræður nú í gangi á milli Úkraínumanna og Bandaríkjamanna um mögulegt samkomulag um nýtingu á auðlindum Úkraínu.
Selenskí hafnaði fyrsta uppkasti þess, þar sem það kvað á um að Bandaríkin fengju 50% af öllum ágóða sem fengist af auðlindunum, án þess að þau þyrftu að láta nokkuð af hendi í staðinn. Sagði úkraínskur embættismaður við AFP-fréttastofuna í gær að Úkraína hefði sent annað uppkast til Bandaríkjanna og biði nú svara frá þeim.
Bandarískir embættismenn hafa sagt að Selenskí hefði átt að undirrita samkomulagið sem fyrst var boðið og ræða svo um öryggistryggingar og annað sem Úkraínumenn vilja fá frá Bandaríkjunum. Sagði Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, að Trump væri „mjög svekktur“ á Selenskí fyrir að hafa hafnað þessu „tækifæri sem við buðum“.
Selenskí hefur hins vegar sagt að hann hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum getað samþykkt samkomulagið, sem hefði meðal annars byggt á bjagaðri mynd á hvað Bandaríkin hefðu sent mikinn herstuðning til Úkraínu.