Ríkarður Jóhannsson, Rikki, fæddist á Akranesi 14. september 1926. Hann lést í Búðardal 9. febrúar 2025.

Ríkarður var sonur hjónanna Sigríðar Kristínar Sigurðardóttur húsmóður, f. 8. ágúst 1903, d. 27. desember 1974, og Jóhanns Bergs Guðnasonar byggingafulltrúa og slökkviliðsstjóra, f. 12. maí 1894, d. 29. ágúst 1964. Bróðir Rikka var Sveinn, f. 13. febrúar 1929, d. 22. nóvember 2013.

Þann 11. júní 1962 kvæntist Ríkarður Guðbjörgu Sigurðardóttur, f. 22. ágúst 1925, d. 25. janúar 2011. Guðbjörg var dóttir hjónanna Kristínar Margrétar Ólafsdóttur, f. 15. desember 1887, d. 13. október 1961, og Sigurðar Hólm Sæmundssonar, f. 15. desember 1886, d. 28. desember 1971. Börn þeirra:

1) Margrét, f. 20. febrúar 1962. Eiginmaður hennar er Jón Bjarni Guðlaugsson, f. 5. júní 1959. Börn þeirra eru a) Ívar Hólm, f. 18. maí 1982, b) Anna Guðbjörg Hólm, f. 8. mars 1989, maki Allan Sigurðsson. Synir þeirra eru Samúel Bjarni og Sigurður, c) Ríkarður Hólm, f. 9. október 1993, d) Dögg Hólm Bjarnadóttir, f. 15. ágúst 1997, maki Róbert Steinar Aðalsteinsson.

2) Jóhann Hólm, f. 8. ágúst 1964, d. 12. júní 2020. Hann var kvæntur Jónínu Kristínu Magnúsdóttur, f. 24. október 1968. Börn þeirra eru: a) Bergþóra Hólm, f. 23. maí 1988, maki Katarínus Jón Jónsson. Börn þeirra eru Jóhann Elís og Dagbjört Jóna, b) Sigurður Loftur, f. 26. desember 1992, maki Helga Ingibjörg Þorvaldsdóttir. Þeirra börn eru Þorvaldur Ingi og Alexía Rós, c) Helga Dóra Hólm, f. 17. júlí 2000, maki Ísak Sigfússon. Þau eiga nýfæddan son.

Rikki ólst upp á Akranesi og nam húsgagnasmíði hjá Axel Eyjólfssyni. Hann sótti sér síðan frekara nám í húsgagnasmíði í Kaupmannahöfn. Hann vann við smíðar þar til hann kynntist Guðbjörgu og þau tóku við búi foreldra hennar að Gröf í Laxárdal en Jóhann sonur þeirra tók síðar við búinu. Þau fluttu að lokum að dvalarheimilinu Silfurtúni í Búðardal. Þau byggðu upp húsakost og ræktun í Gröf og Rikki starfaði við smíðar meðfram bústörfum.

Tónlistin skipaði stóran sess í lífi Rikka. Hann hóf snemma að spila í hljómsveitum á Akranesi og má þar sem dæmi nefna E.F. kvintett, hljómsveit Ole Östergaard og Fjarkann. Hann lék listavel á saxófón og klarinett og spilaði einnig á trommur og harmonikku. Síðar kom hann fram við ýmis tækifæri í Dölunum og víðar og starfaði meðal annars með harmonikkufélaginu Nikkólínu og var um tíma formaður þess.

Rikki gekk ungur til liðs við skátahreyfinguna á Akranesi og átti slagorðið „eitt sinn skáti, ávallt skáti“ alla tíð vel við hann. Rikki var fordómalaus og framsýnn, hafði sterka réttlætiskennd og lét sig varða mannréttindi og alþjóðamál og var virkur í að styðja við góð málefni. Hann hafði mikinn áhuga á ferðalögum og fór m.a. til Mexíkó og Kúbu.

Útför Ríkharðs fer fram frá Hjarðarholtskirkju í dag, 22. febrúar 2025, og hefst athöfnin kl. 14.

Afi minn. Fallegi, brosmildi og góði afi minn. Nú er hann kominn til ömmu Guðbjargar og Jóa frænda.

Afi var einstakur maður. Hann fylgdist vel með heimsmálunum og hafði ríka réttlætiskennd. Hjartahlýr, með smitandi hlátur og alltaf svo gaman að vera í kringum hann. Samverustundir með honum bæði nærðu og kættu. Ég á ótal góðar minningar um hann bæði frá því að ég var ung í sveitinni en ekki síður eftir að ég varð fullorðin sem munu ylja mér um hjartarætur um ókomin ár.

Afi var mikill smekkmaður og hann var alltaf fínn í tauinu. Það var gaman að sýna honum þegar ég hafði keypt eitthvað nýtt á heimilið því hann kunni að meta fallega hluti, sérstaklega húsgögn enda var hann menntaður húsgagnasmiður.

Afi var með eindæmum listrænn og það var mikil tónlist í honum. Hann lék á hljóðfæri af mikilli innlifun og spilamennska hans hreif fólk með sér. Það var svo fallegt hvað afi og Allan, unnusti minn, náðu strax vel saman. Ég hafði unun af því að sjá þá syngja og spila saman. Báðir með svo mikla ástríðu fyrir tónlist.Mikið er ég þakklát fyrir að afi hafi hitt strákana mína tvo, Samma og Sigga. Þeir munu fá að heyra sögur um langafa Rikka um ókomna tíð og það verður dýrmætt að geta sýnt þeim myndir af þeim saman.

Takk fyrir að vera svona frábær afi og takk fyrir allar góðu stundirnar.

Ég elska þig og við sjáumst síðar afi minn, ég á eftir að sakna þín alla ævi.

Anna Guðbjörg Hólm Bjarnadóttir.

Þú hefur kennt mér svo margt elsku afi minn. Þú tókst öllum eins og þeir eru og mun ég ávallt dást að því. Þú hefur kennt mér að sýna samúð og skilning og eins mikilvægi þess að vera til staðar fyrir þá sem maður elskar. Þú varst hreinskilinn og hjartahlýr. Þú hefur alla tíð stutt við ákvarðanir mínar og veitt mér skilning og hlustun. Nú heldur þú ferðalaginu áfram í leit að draumalandinu og við getum haldið samræðum okkar um sálina og alheimsmálin áfram þegar við hittumst aftur þar því þá munum við vita svörin. Við getum rætt fallegar og skemmtilegar sögur af heiminum og ferðalögum sem ég get ekki lengur sagt þér yfir kaffibolla eða sýnt þér myndir frá. Ég sakna þess að heyra hláturinn þinn, sjá brosið þitt og heyra þá ljómandi frasa sem þú átt og enginn getur sagt eins skemmtilega. Ég vil að þú vitir að þegar ég hugsa til þín veitir það mér huggun og ró og fær mig enn fremur til þess að huga að því hvað skipti raunverulegu máli í þessu skrautlega lífi. Ég vil enda á orðum sem faðir minn mælti þegar við vorum að kveðja þig, að í þér finni líklega allir sinn besta vin.

Með von um að draumalandið sé allt sem þú átt skilið.

Réttlætiskennd hans er rík,

kímnigáfa hans er engu lík.

Við hlið hans ert þú aldrei einn á báti,

hann er líka ágætis skáti.

Smiður visku og gæfu henti sér á hjól,

mannblendinn maður í leit að morgunsól.

Fór ef til vill í vinnuskó,

skaust hann aftur til Mexíkó?

Dögg Hólm Bjarnadóttir.

hinsta kveðja

Elsku langafi minn.

Það var gaman að eiga þig sem afa. Þú varst alltaf skemmtilegur, fyndinn og hress. Það var gaman að fara í bílferðir með þér, Möggu og Bjarna og stundum fengum við okkur ís en þér fannst hann mjög góður eins og mér. Þú varst líka mjög góður á hljóðfæri eins og saxófón. Takk fyrir að leika við mig þegar ég var lítill, ég á eftir að sakna þín.

Þinn

Jóhann Elís.