Sviðsljós
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Sænsk stjórnvöld tilkynntu á föstudaginn að þau væru að rannsaka meint skemmdarverk á einum neðansjávarkapli í Eystrasalti, en það er að minnsta kosti tíunda atvikið á síðustu þremur árum, þar sem grunur leikur á um skemmdarverk eða fjölþátta aðgerðir af hálfu Rússa. Þá hefur fjöldi annarra atvika orðið á hafsvæðinu frá því að Rússar hófu innrás sína í Úkraínu.
Varnarmálaráðherra Þýskalands, Boris Pistorius, lét hafa eftir sér í umræðu í þýska þinginu í desember síðastliðnum að hegðun Rússa á Eystrasalti minnti nú einna helst á tíma kalda stríðsins, þar sem mun meira yrði vart við ferðir bæði rússneskra herskipa og kaupskipa, og að framferði þeirra yrði sífellt ágengara.
Þá yrði einnig meira vart við ferðir kínverskra herskipa, sem sýndi mikilvægi hafsvæðisins, en Pistorius sagði að Rússar og Kínverjar væru þar að reyna að koma sér framhjá þeim refsiaðgerðum sem settar hafa verið á Rússland.
„Við höfum lent ítrekað í atvikum á Eystrasalti, þar sem hleypt hefur verið af viðvörunarskotum í lofti og viðvörunarskotum á hafi,“ sagði Pistorius. Þá hefði komið fyrir að rússneskar herflugvélar hefðu tekið á loft án þess að vera merktar til þess að prófa viðbragð Atlantshafsbandalagsins. Tók hann fram að þýski sjóherinn hefði til þessa leitast við að koma í veg fyrir að hinar ögrandi aðgerðir Rússa leiddu af sér frekari árekstra.
Eins og að keyra ljóslaus
Á kortinu hér til hliðar má sjá bæði legu helstu sæstrengja og lagna á Eystrasalti, ásamt lista yfir níu grunuð skemmdarverk á þeim, en þar er ekki að finna atvikið sem greint var frá á föstudaginn. Var þá tilkynnt um skemmdir á gagnakaplinum C-Lion1, og er það í þriðja sinn á síðustu fjórum mánuðum sem sá kapall verður fyrir skemmdum.
Atlantshafsbandalagið brást við hinum grunsamlega fjölda skemmda á sæstrengjunum og lögnunum með því að auka eftirlit á Eystrasalti í janúar síðastliðnum, og eru nú herskip frá hinum ýmsu bandalagsríkjum, þar á meðal Hollandi og Bretlandi, sem sinna því.
Hollenski skipherrann Erik Kockx sagði í samtali við AFP-fréttastofuna í síðustu viku að meðal annars væri skip sent á vettvang ef eitthvert skip ákvæði að stöðva för sína um lengri tíma, en slíkt væri ekki eðlileg hegðun. „Það er eins og að keyra um án þess að vera með framljósin á.“ Þá er einnig sérstaklega fylgst með því hvort skip séu að draga akkeri sín eftir hafsbotninum.
Það er þó ekki leikur einn að sinna eftirliti á Eystrasalti, en áætlað er að rúmlega 2.000 skip fari um það á hverjum einasta degi. Þá þykir líklegt að fjöldi grunsamlegra atvika muni einungis aukast, eftir því sem spennan á milli Rússlands og ríkja Evrópu eykst, þar sem ýmis teikn eru á lofti um að Rússar hafi hug á því að láta reyna enn frekar á samstöðu og varnarmátt Atlantshafsbandalagsins á næstu árum. Spurningin verður þá hvernig og hvenær bandalagið muni bregðast við.