Tólf útgerðir í Grímsey skipta með sér 300 þorskígildistonnum af aflamarki Byggðastofnunar í eynni. Ná aflaheimildirnar til þessa og næstu tveggja fiskveiðiára. Stærsta einstaka úthlutunin er til AGS ehf. eða tæp 73 þorskígildistonn.
Stjórn Byggðastofnunar fór yfir úthlutunina á fundi sínum í síðustu viku. Auglýst var eftir umsóknum í nóvember sl. og bárust alls 14 umsóknir. Tveimur umsóknum var hafnað þar sem þær uppfylltu ekki formskilyrði reglugerðar. Úthlutunin var framkvæmd með eftirfarandi hætti:
„Með því að úthluta ákveðnu magni í jöfnum skiptum á alla umsækjendur er komið til móts við minni útgerðir og þar með talið útgerðir sem ekki hafa áður fengið úthlutað aflamarki stofnunarinnar. Þannig er horft til þess að styðja við nýliðun ásamt því að úthlutun til fleiri smábátaútgerða í eynni er til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag,“ segir m.a. á vef Byggðastofnunar um þessa úthlutun.
Til að fá úthlutun þurfti hver umsókn að uppfylla eina sex matsþætti. Þættirnir eru: 1) Trúverðug áform um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi. 2) Fjöldi heilsársstarfa sem skapast eða verður viðhaldið. 3) Sem best nýting þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu. 4) Öflug starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina. 5) Jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélag. 6) Traust rekstrarsaga forsvarsmanna umsækjenda.
Allt að 90 þorskígildistonnum var úthlutað í hlutfalli við löndun viðkomandi fyrirtækis í Grímsey á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2024. Enginn umsækjenda fær þó úthlutað meiru af aflamarkinu árlega en hann sótti um né heldur meiru en því sem nemur heildarlöndun hans í Grímsey á tímabilinu.