Knattspyrnudómarinn Marco Ortíz á yfir höfði sér allt að sex mánaða bann fyrir samskipti sín við Lionel Messi eftir leik Inter Miami og Kansas City í Meistarabikar Norður- og Mið-Ameríku síðastliðið fimmtudagskvöld. Messi skoraði sigurmark Inter Miami í 1:0-sigri í 17 gráðu frosti. Eftir leik bað Ortíz argentínska snillinginn um eiginhandaráritun. Knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku tók illa í athæfi dómarans. Við rannsókn málsins sagði Ortíz að hann vildi gefa fötluðum frænda sínum áritunina. ESPN segir að forráðamenn knattspyrnusambandsins hafi gefið lítið fyrir útskýringuna og telji samskiptin á milli dómarans og leikmannsins óeðlileg.
Þjóðverjinn Thomas Tuchel vill fá varnarmanninn Ben White aftur í enska landsliðið í knattspyrnu. Tuchel tók við liðinu 1. janúar og hefur síðan haft samband við þó nokkra leikmenn sem hann telur að muni vera landsliðinu mikilvægir. Meðal þeirra er Ben White leikmaður Arsenal sem hefur ekki verið í enska hópnum síðan á HM í Katar veturinn 2022. Hann lenti upp á kant við aðstoðarþjálfarann Steve Holland á þeim tíma og hefur síðan neitað að spila fyrir landsliðið. White er nýfarinn að spila aftur eftir meiðsli.