EM 2025
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Ísland er sem fyrr fámennasta þjóðin sem hefur komist í lokakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik en eftir sigurinn glæsilega á Tyrkjum í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld er íslenska liðið á leið þangað í þriðja skipti.
Ísland lék á EM árin 2015 og 2017 og mátti sætta sig við fimm ósigra í jafnmörgum leikjum á báðum mótunum. Það er því ljóst að fyrsta markmið íslenska liðsins á EM 2025 verður að brjóta þann múr og innbyrða fyrsta sigurinn á stóra sviðinu.
Árið 2015, þegar leikið var í Berlín í Þýskalandi, komst íslenska liðið nálægt því að sigra Tyrki en tapaði í framlengdum leik, 111:102, eftir að Logi Gunnarsson jafnaði á ævintýralegan hátt með þriggja stiga körfu á lokasekúndu venjulegs leiktíma.
Tveir aðrir hörkuleikir
Ísland veitti Þýskalandi og Ítalíu harða keppni, tapaði 71:65 fyrir Þjóðverjum og 71:64 fyrir Ítölum. Liðið átti minni möguleika í hinum tveimur leikjunum og tapaði 93:64 fyrir Serbíu og 99:73 fyrir Spáni. Serbar urðu fjórðu á mótinu og Spánverjar Evrópumeistarar. Ítalir enduðu í sjötta sæti, Tyrkir í fjórtánda og Þjóðverjar í átjánda sæti af 24 liðum.
Þrír núverandi landsliðsmenn, Martin Hermannsson, Haukur Helgi Pálsson og Ægir Þór Steinarsson, voru í liði Íslands í Berlín.
Árið 2017 var riðill Íslands leikinn í Helsinki í Finnlandi og þar urðu fimm töp líka niðurstaðan.
Besta frammistaðan var gegn Finnum í lokaleiknum en finnska liðið, með Lauri Markanen, núverandi leikmann Utah Jazz, í aðalhlutverki, knúði fram nauman sigur á heimavelli, 83:79.
Ísland hafði áður tapað 90:61 fyrir Grikklandi, 91:61 fyrir Póllandi, 115:79 fyrir Frakklandi og 102:75 fyrir Slóveníu. Slóvenar, með kornungan Luka Doncic í lykilhlutverki, urðu Evrópumeistarar, Grikkir áttundu, Finnar elleftu, Frakkar tólftu og Pólverjar átjándu.
Martin, Haukur og Ægir léku allir í annað sinn á EM í Finnlandi og þá höfðu ungu mennirnir Tryggvi Snær Hlinason og Elvar Már Friðriksson bæst í hópinn.
Velja Finnar Íslendinga?
Lokakeppnin í ár fer fram í Tampere í Finnlandi, Riga í Lettlandi, Katowice í Póllandi og Limassol á Kýpur. Dregið verður 27. mars og þá kemur í ljós hvert íslenska liðið fer.
Þó gæti það skýrst fyrr því gestgjafaþjóðirnar fá að velja eina þjóð með sér í riðil. Árið 2017 völdu Finnar einmitt Íslendinga í sinn riðil og gætu gert það aftur. Kannski er þó líklegra að þeir velji Svíana í þetta skipti en íslenskt körfuboltaáhugafólk fjölmennti til Helsinki árið 2017 og var áberandi á leikjum liðsins. Má vera að Finnar séu ekki búnir að gleyma því.
„Finnar og Pólverjar hafa sýnt okkur mestan áhuga og Lettar hafa lítillega heyrt í okkur,“ sagði Hannes S. Jónsson framkvæmdastjóri KKÍ við Morgunblaðið í gær.
Ísland var í 51. sæti heimslistans fyrir lokaumferðir undankeppninnar en liðunum verður raðað í sex styrkleikaflokka fyrir dráttinn 27. mars. Þar verður þeim stillt upp út frá nýjum heimslista, og þar gæti Ísland hækkað eitthvað eftir sigurinn á Tyrkjum. Það má þó fastlega gera ráð fyrir að íslenska liðið verði í sjötta og neðsta flokknum, enda er það núna í 22. sæti af þeim 24 þjóðum sem munu leika í lokakeppninni.
Þegar dregið var í riðlana fyrir undankeppnina var Ísland hins vegar í 26. sæti af 32 þjóðum sem komust á þetta lokastig hennar.
Eins og staðan var fyrir þessar tvær síðustu umferðir myndu liðin 24 raðast í styrkleikaflokkana sem hér segir, sæti á heimslistanum innan sviga:
1: Serbía (2), Þýskaland (3), Frakkland (4), Spánn (6).
2: Lettland (9), Litáen (10), Slóvenía (12), Grikkland (13).
3: Ítalía (14), Svartfjallaland (16), Pólland (17), Tékkland (19).
4: Finnland (20), Georgía (24), Tyrkland (27), Ísrael (39).
5: Belgía (40), Bosnía (41), Eistland (43), Svíþjóð (48).
6: Bretland (49), Ísland (51), Portúgal (55), Kýpur (84).
Kýpur er eina þjóðin sem leikur á EM í fyrsta skipti en liðið fékk sætið sem gestgjafaþjóð og hefur því aldrei unnið sér inn keppnisrétt á mótinu.
Fjórar sem sitja heima
Fjórar þjóðir sem eru fyrir ofan Ísland á núverandi heimslista, Króatía (32), Úkraína (37), Ungverjaland (44) og Búlgaría (46), komust ekki í lokakeppnina. Króatar lutu í lægra haldi fyrir nágrönnum sínum frá Bosníu, Úkraínumenn voru felldir af Portúgölum, Íslendingar sáu til þess að Ungverjar myndu sitja heima og Svíar höfðu betur gegn Búlgörum.