Nýsveinahátíð 2025 Auður Lóa er önnur til vinstri í fremstu röð og Össur fjórði frá hægri í öftustu röð.
Nýsveinahátíð 2025 Auður Lóa er önnur til vinstri í fremstu röð og Össur fjórði frá hægri í öftustu röð. — Ljósmynd/Motiv-Jón Svavarsson
Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík veitti 28 nýsveinum viðurkenningu, silfur- eða bronspening, fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi á liðnu ári á 17. Nýsveinahátíð IMFR fyrir skömmu. Meistarafélög viðkomandi iðngreina tilnefna einstaklingana, en…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík veitti 28 nýsveinum viðurkenningu, silfur- eða bronspening, fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi á liðnu ári á 17. Nýsveinahátíð IMFR fyrir skömmu. Meistarafélög viðkomandi iðngreina tilnefna einstaklingana, en helsti tilgangur IMFR er „að efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir, sem starfa í þeirra þágu“.

Í hópnum sem fékk silfurpening voru Auður Lóa Árnadóttir, sem tók sveinspróf í hársnyrtiiðn frá Tækniskólanum í Reykjavík, en meistari hennar var Olga Björg Másdóttir, og Össur Hafþórsson, sem tók sveinspróf í málaraiðn frá Tækniskólanum, en meistari hans var Sverrir Pétur Pétursson.

Auður Lóa er ekki aðeins hársnyrtisveinn heldur einnig eigandi hársnyrtistofunnar Wave Hair Salon í húsnæði hótelsins Reykjavík Marina – Berjaya Iceland Hotels á Mýrargötu 2-8 í Reykjavík. „Ég tók við stofunni þegar ég var á síðustu önninni í skólanum,“ útskýrir hún. „Það var erfitt en allt gekk upp.“

Listin heillar

Kórónuveirufaraldurinn varð til þess að Auður Lóa byrjaði í náminu í skólanum og sem lærlingur á hársnyrtistofunni 2021. „Ég fann ekki réttu leiðina til að klára stúdentinn fyrr en ég fór í Iðnskólann,“ segir hún. „Ég ætla svo í meistarann, vonandi á næsta ári.“

Handverkið heillar Auði Lóu. „Listræn hlið starfsins er svo skemmtileg og mér finnst sérstaklega gaman að vinna við einhverja sköpun.“

Það getur verið erfitt að standa allan daginn og Auður Lóa segist oft vera alveg búin í dagslok, en neistinn sé samt alltaf til staðar. „Hárgreiðsla er helsta áhugamálið og vinir mínir koma stundum á stofuna í spjall og litun á kvöldin.“

Össur hefur starfað hjá Sverri Pétri, eiganda málningarþjónustufyrirtækisins Þekjanda, undanfarin tæplega fimm ár. Hann segist hafa reynt ýmislegt áður en aldrei fundið sig almennilega í því sem hann hafi tekið sér fyrir hendur. „Ég flakkaði því á milli starfa, var atvinnulaus fyrstu fjóra mánuðina í covid enda ekkert að gerast. Sverrir Pétur og foreldrar mínir eru vinafólk, ég hef þekkt hann frá því ég man eftir mér og mamma stakk upp á að ég heyrði í honum. Ég gerði það og fékk vinnu hjá honum fljótlega. Ég fann mig algerlega í þessu starfi, fannst skemmtilegt að mæta í vinnuna og eftir að hafa unnið í um eitt ár ákvað ég að taka skólann með vinnunni.“

Verðlaunin komu Össuri á óvart. „Það er skemmtilegt að fá svona viðurkenningu,“ segir hann. Eftir stúdentsprófið hafi hann heitið sjálfum sér því að fara aldrei aftur í skóla en hann sér ekki eftir að hafa tekið slaginn á ný. „Þetta er risaáfangi og ég ætla að fara áfram í meistaranámið.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson