Hjónin Magnús Torfason og Kristín Helgadóttir.
Hjónin Magnús Torfason og Kristín Helgadóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Trausti Torfason fæddist 25. febrúar 1945. „Ég var getinn í Keflavík (Gömlu búð), fæddur á Eyrarbakka (Norðurbæ) og alinn upp í Keflavík á Hafnargötunni. Þar ólst upp kraftmikill hópur. Mikið fjör

Magnús Trausti Torfason fæddist 25. febrúar 1945. „Ég var getinn í Keflavík (Gömlu búð), fæddur á Eyrarbakka (Norðurbæ) og alinn upp í Keflavík á Hafnargötunni. Þar ólst upp kraftmikill hópur. Mikið fjör. Á stuttum kafla á Hafnargötunni, 1968-1978, voru á þessum tíma aldir upp tíu landsliðsmenn í íþróttum, þar af fjórir í knattspyrnu.

Tíu ára fór ég í sveit í Borgarfjörðinn og heillaðist. Hestar gripu hug minn. Þar var ég þrjú löng sumur. Svo tók fótboltinn við í 20 ár, ef hann hefði ekki komið til væri ég bóndi í Borgarfirðinum.“

Fjórum sinnum varð Magnús Íslandsmeistari, en hann var í gullaldarliði Keflavíkur á sjöunda áratugnum og landsliðsmaður. Hann var fyrirliði 23 ára landsliðsins. „Ég spilaði með Völsungi á Húsavík þau ár sem ég starfaði þar. Jóhannes Sigurjónsson ritstjóri, sem spilaði með liðinu, skrifaði gamansama grein um liðið. Liðsmenn ákváðu eftir miklar deilur að senda tvo leikmenn á minn fund og spyrja hvort það væri ekki betra að ég gæfi fyrir markið í stað þess að reyna alltaf að skora beint úr horni. Ég á að hafa svarað: „Hvort haldið þið að sé betra, að ég reyni að skora eða Hemmi að skalla?“ Málið útrætt. Hemmi var afburða knattspyrnumaður en skallaði ekki oft.“

Magnús varð stúdent frá Laugarvatni 1965 og útskrifaðist sem tannlæknir frá HÍ 1972. „Ég á góða vinahópa frá báðum tímabilum sem ég hef haldið vel sambandi við. Ég hitti vini mína frá Laugarvatni tvisvar í mánuði að spila. Útskriftarhópurinn úr tannlækninum hefur ferðast mikið saman, bæði innanlands og utanlands, og t.d. stefnum við á að fara saman til Madríd og Valencia í vor.“

Eftir útskrift starfaði Magnús á Húsavík í fjögur ár, svo Keflavík í önnur fjögur og loks í Reykjavík í 30 ár. „Ég hætti að vinna 72 ára eftir 50 ár í munni fólks.

Bylting varð á lífi mínu þegar ég fór á Freeport, 32 ára, í meðferð við áfengissýki. Happaferð. Hef ekki drukkið áfengan drykk síðan eða í rúm 47 ár. Hef mikið unnið að þessum málaflokki í gegnum árin.“

Helstu áhugamál Magnúsar eru knattspyrna, laxveiði, hestamennska, bridge, alkóhólismi og Íslendingasögurnar. „Ég fór á námskeið hjá Jóni Bö fertugur og ánetjaðist þessum sögum. Síðastliðin fimm ár hef ég verið með námskeið hjá (h)eldri borgurum Garðabæjar í Jónshúsi. Mín uppáhaldstónlist er gamla rokkið (Elvis og Chuck Berry), og óperur, (Pavarotti, Kristján og Elina Garancia).

Einkabróðir minn, Gísli Torfa, varð bráðkvaddur 50 ára. Það var mér mikið áfall. Betri bróður gæti ég ekki hugsað mér. Hann hélt með Liverpool.

Þegar covid-faraldurinn var leiddist mér í einangrun og ég fór að skrifa stutta pistla á Facebook á hverjum degi. Seinna boðaði Anna Lára, dóttir mín, fjölskyldufund. Ég hélt að hún væri að plana fjölskylduferð vegna afmælisins, en þá dró hún upp bók sem hún hafði látið prenta. Þessi bók er 750 síður og inniheldur fyrstu tvö árin sem ég skrifaði pistla. Á kili bókarinnar stendur 1. hefti. Hún kallar bókina „Meira á morgun“. Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri að gefa út þessa bók, en er mjög ánægður.

Ég er gallharður Manchester United-aðdáandi og horfi á alla leiki. Ég tel Pelé (sem ég hef hitt) og Christiano Ronaldo bestu knattspyrnumenn sem uppi hafa verið, og Ferguson er einstakur.“

Fjölskylda

Eiginkona Magnúsar er Kristín Helgadóttir, f. 2.5. 1962. Þau eru búsett í Urriðaholti í Garðabæ. Foreldrar Kristínar voru Helgi Jasonarson, f. 9.9. 1921, d. 24.12. 2014, pípulagningameistari, og Áslaug Sigurgeirsdóttir, f. 26.4. 1929, d. 5.5. 1987, óperusöngkona.

Dóttir Magnúsar með fyrri eiginkonu, Sigrúnu Axelsdóttur, f. 14.4. 1947, er 1) Anna Lára, f. 10.4. 1972, vinnur við iðju- og félagsstarf á Hrafnistu, gift Arnari Jökli Agnarssyni flugstjóra. Þau eru búsett í Reykjavík. Börn Önnu Láru eru Magnús Friðrik, f. 1999, og Sigrún Ásta, f. 2002, Halldórsbörn, og sonur Önnu Láru og Arnars er Baldur Björn, f. 2007.

Dætur Magnúsar og Kristínar eru tvær. 2) Áslaug, f. 27.5. 1988, lögfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, búsett í Reykjavík. Börn hennar eru Kolbeinn, f. 2018, og Kristín, f. 2020, Jónsbörn, og 3) Margrét, f. 22.3. 1990, hár- og förðunarfræðingur, í sambúð með Gunnari Erni Einarssyni verkefnastjóra. Þau eru búsett í Garðabæ. Börn þeirra eru Atlas Orri, f. 2019, og Óðinn Orri, f. 2023.

Bróðir Magnúsar var Gísli Torfason, f. 10.7. 1954, d. 21.5. 2005, stærðfræðikennari og landsliðsmaður í fótbolta.

Foreldrar Magnúsar voru Anna Bergþóra Magnúsdóttir, f. 7.6. 1914, d. 31.1. 2002, húsmóðir, og Torfi Helgi Gíslason, f. 22.3. 1920, d. 15.3. 1992, verkamaður.