Clive Stacey
Clive Stacey
Endurupptaka hvalveiða mun óhjákvæmilega leiða til neikvæðrar umfjöllunar fyrir Ísland á alþjóðavettvangi.

Clive Stacey

Sem Englendingur og Íslandsvinur síðan 1972 hef ég áhyggjur af ímynd Íslands meðal samlanda minna. Ég hef boðið upp á Ísland sem áfangastað til ferðamanna síðan löngu áður en það varð vinsælt og í gegnum áratugina hef ég tekið eftir sveiflum á þessum markaði. Hins vegar er eitt sem breytist aldrei: hvalveiðar hafa neikvæð áhrif á viðskipti, ekki einungis fyrir ferðaþjónustuna heldur líka fyrir íslenskar vörur sem væru annars aðlaðandi fyrir breska neytendur. Þessi áhrif eru nú einnig merkjanleg í mörgum öðrum löndum.

Þrátt fyrir að hafa búið á Íslandi í nokkur ár og að ég telji töluverðan fjölda Íslendinga til náinna vina minna á ég erfitt með að skilja þörfina fyrir hvalveiðar þegar flestar þjóðir heims hafa hætt þeim. Þar að auki mun það hafa enn verri áhrif á hvalaskoðunarferðir að bæta við veiðum á hrefnum.

Nokkrar lykilspurningar:

*Eftir því sem ég best veit er mjög lítill markaður fyrir hvalkjöt bæði hérlendis og erlendis og starfsemin ekki arðbær. Hvers vegna er þá verið að stunda hvalveiðar?

*Yfir 400.000 erlendir ferðamenn og Íslendingar fara í hvalaskoðunarferðir á hverju ári og þessar ferðir skila umtalsverðum upphæðum í hagkerfið. Hvalaskoðun og hvalveiðar fara ekki saman, svo að hvers vegna þarf að hefja hvalveiðar á ný?

*Með tilliti til þess að minnihluti Íslendinga styður hvalveiðar og vísindamenn frá Íslandi hafa sýnt fram á að þessi iðja sé ómannúðleg, hvers vegna ætti því að halda starfseminni áfram?

*Vörumerkið Ísland er mjög sterkt úti um allan heim, sem þýðir að fólk vill heimsækja Ísland, það vill kaupa íslenskar vörur og hefur áhuga á menningu Íslands. Hvers vegna þarf að taka áhættuna á að skemma þessa jákvæðu ímynd?

Endurupptaka hvalveiða mun óhjákvæmilega leiða til neikvæðrar umfjöllunar fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Jafnvel þótt veiðum yrði síðar hætt er óvíst að sú ákvörðun fengi sambærilega athygli. Verulegur fjöldi mögulegra viðskiptavina og áhugasamra ferðamanna gæti snúið baki við Íslandi og íslenskum vörum. Trúið mér, ég hef séð þetta raungerast í gegnum áratugina.

Ég vona að heilbrigð skynsemi ráði för í þessu máli.

Höfundur er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Discover the World.

Höf.: Clive Stacey