Gunnar Gunnarsson
Stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu er landvinningastríð. Rússar hafa stundað hliðstæðan stríðsrekstur í mörg hundruð ár. Þetta gleymist gjarnan í umræðu um stríðið í Úkraínu þar sem athyglinni er beint að samskiptum Rússlands við vestræn ríki og sér í lagi við Bandaríkin vegna aðildarumsóknar Úkraínu að NATO. Það sem gleymist er ekki síst að huga að því hvers konar land Rússland er.
Nýlenduveldið
Rússland var í gegnum tíðina og fram undir 1930 almennt kallað nýlenduveldi. Eftir það var orðið tekið úr umferð enda var það ekki í takt við tíðarandann í Rússlandi eftir að kommúnistar tóku öll völd. En það var og er töluverður munur á nýlenduveldinu Rússlandi og vestrænum nýlenduveldum fyrri daga. Vestræn ríki gáfu nýlendurnar frá sér á 19. og 20. öld. Það var eftir harða baráttu íbúa viðkomandi ríkja. Í Rússlandi var þetta með öðrum hætti. Rússar leituðu yfirleitt ekki til fjarlægra landa í útþenslu síns ríkis heldur beindu augum að næstliggjandi svæðum við heimahagana. Þeir stækkuðu landið með því að leggja undir sig risastór svæði bæði í Evrópu og Asíu og gera að sínum.
Þannig varð til það gríðarlega stóra ríki, sem er Rússland samtímans. Í landflæmi talið er Rússland stærsta ríki veraldar. Það nær yfir 17 milljónir ferkílómetra og teygir sig frá Evrópu í vestri og yfir til Kyrrahafs í austri. Flug frá Pétursborg til Kamsjatka er 11 klukkustunda ferð, vegalengd sem er meira en 9.000 kílómetrar. Í rússneska ríkjasambandinu eru töluð 145 tungumál, þjóðir og þjóðarbrot eru yfir 190 talsins. Íbúar eru 145 miljónir. Það segir sig sjálft að þetta risavaxna land varð ekki til af sjálfu sér. Það varð til með landvinningum í mörg hundruð ár, mestan part frá 17. öld fram á þá tuttugustu. Rithöfundurinn Leó Tolstoy sagði einhverju sinni í ritsmíð „að aðstæður sem leiddu til þess að öll þessi þjóðerni eru hluti af Rússlandi eru tilviljunarkenndar og tímabundnar“.
Sovétríkin
Í Sovétríkjunum bjuggu 277 milljónir manna. Til samanburðar búa um 145 milljónir manna í Rússlandi. Í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna í desember 1991 birtust 14 ný ríki á landakortinu. Þetta voru auk Rússlands, Eistland, Lettland, Litháen, Georgía, Armenía, Aserbajdan, Moldóva, Úsbekistan, Túrkmenistan, Kyrgistan, Tadsikistan, Hvíta-Rússland og Úkraína. Þau hlutu öll alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfstæð þjóðríki.
Allt voru þetta afleiðingar þess að Sovétríkin hrundu hvort sem er í efnahagslegum eða pólitískum skilningi. Rússland sem var kjarninn í Sovétríkjunum stóð á brauðfótum. Við þær aðstæður treysti Boris Jeltsin, þáverandi forseti Rússlands, sér ekki til að hafna kröfum ofangreindra ríkja um sjálfstæði.
Stríðsátök
Undir árslok 1991 lýsti Tjetsnía sem er í Kákasus yfir sjálfstæði. Rússneskar hersveitir skárust í leikinn undir árslok 1994. Átökin stóðu fram til 1996 þegar samið var um frið á þeim forsendum að Tjetsnía fékk viðurkenningu á sjálfstæði í reynd (de facto). Rússar hófu átökin að nýju árið 1999 undir forystu Pútins sem lauk með fullum sigri Rússa á árinu 2000. Stríðið var grimmt og mannfall mikið. Vesturlönd héldu sér til hlés í stríðinu og litu svo á að um væri að ræða rússneskt innanríkismál.
Stríðsátök brutust út 2008 milli Georgíu og Rússlands þegar Rússar gerðu innrás í landið eftir að þarlendir beittu hervaldi gegn aðskilnaðarsinnum í landshlutanum Suður-Ossetíu. Áður hafði Rússland stutt aðskilnaðarsinna í landshlutanum Abkasíu í Georgíu. Þeir lýstu síðan bæði Suður-Ossetíu og Abkasíu sjálfstæð ríki.
Samskiptin við vestrið
Fyrstu árin eftir fall Sovétríkjanna voru samskipti Rússlands við Vesturlönd á tiltölulega góðum nótum en fljótlega skipuðust veður í lofti. Rússum þótti vestrið og einkum Bandaríkin ekki sýna þeim nægilega tillitssemi og virðingu þegar rússneskir hagsmunir voru í húfi. Samskiptin fóru versnandi og þegar komið var fram á 21. öldina varð smám saman ljóst að Rússland fór sínar eigin leiðir þegar kom að utanríkismálum (dæmi Georgía). Ræða Vladimirs Pútins á öryggismálaráðstefnunni í München 2007 þótti marka kaflaskil en þar fór hann mjög gagnrýnum orðum um vestrið og sérstaklega utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Innrás í Úkrainu
Í marsmánuði 2014 innlimaði Rússland Krímskaga með formlegum hætti en hann hafði verið partur af Úkraínu frá 1954. Aðdragandinn var sá að hópur óeinkennisklæddra Rússa tók yfir lykilstaði á Krím, setti til valda ríkisstjórn sem var hliðholl Rússum og stóð fyrir allsherjaratkvæðagreiðslu um innlimun Krímskaga í Rússland. Atkvæðagreiðslan fór eins og til var ætlast og mikill meirihluti íbúa studdi innlimun Krímskaga í Rússland. Á Vesturlöndum var lögmæti atkvæðagreiðslunnar sem von var ekki viðurkennt og hefur ekki verið það fram til þessa dags.
Á sama tíma og Rússar innlimuðu Krímskaga gerðu þeir innrás í austurhluta Úkraínu (Donbas). Tilefnið var stuðningur við rússneska aðskilnaðarsinna. Úkraína tók til varna. Mannfall á báða bóga var töluvert. Fyrir tilstilli Frakka og Þjóðverja náðust samningar við Rússa (Minsk 1 og 2) um vopnahlé sem hélt þó aldrei að fullu. 24. Febrúar 2022 réðust Rússar inn í landið með herliði sem taldi í kringum 190000 manns. Herliði Úkraínu tókst að afstýra hertöku höfuðborgarinnar Kiev og fleiri svæða. Rússar beindu þá augum að austurhlutanum og hefur á þremur árum tekist að hernema stór svæði í Donbas og ráða nú yfir um 20 prósentum landsvæðis Úkraínu sem telur í heildina 600000 ferkílómetra.
Úkraina og Rússland
Í gegnum aldirnar hefur gjarnan verið talað um Stóra-Rússland, Hvíta-Rússland og Litla-Rússland (Úkraína). Það segir einhverja sögu um hversu nátengd Rússland og Úkraína hafa verið í gegnum tíðina. Raunar var það svo að t.d. á nítjándu öld voru Úkraínumenn ekki taldir vera þjóð í gögnum þáverandi stjórnvalda Rússlands heldur „þjóðflokkur“. Vladimir Pútin forseti Rússlands tekur mið af þessu í grein sem birtist í hans nafni á vefsíðu Kremlar 12. júlí 2021. Þar rekur hann í alllöngu máli og með vísan í sagnfræði þá afstöðu sína að Rússar og Úkraínumenn séu ein og sama þjóðin. Greinina má lesa á vefsíðu Kremlar (en.kremlin.ru).
Það er næsta augljóst hverjum þeim sem kynnir sér landfræðilega legu Úkraínu á landakorti eða sækir landið heim að hagsmunir Úkraínu felast í því að halda áfram að þróa samskipti sín við Rússland en horfa einnig til vesturs óháð því hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd á hverjum tíma. Úkraínsk stjórnvöld stefndu að þessu m.a. með samningi á sviði stjórnmála og efnahagsmála við ESB. Rússar voru ekki tilbúnir til að samþykkja samninginn og beittu miklum þrýstingi til að gera hann afturkræfan. Mikil mótmæli brutust þá út í Úkraínu (nóvember 2013) sem hafa jafnan verið kennd við torgið Maidan í Kiev. Þáverandi forseti flúði land. Í maímánuði 2014 var kjörinn nýr forseti Petro Poroschenko sem undirritaði samstarfssamning við ESB í júní 2014.
Á þeim tíma höfðu Rússar þegar hafið hernað í Donbas sem var fram haldið með allsherjarinnrás í austur- og suðurhluta landsins 24. febrúar 2022. Þrjú ár eru liðin og mannfall hefur verið mikið á báða bóga. Talið er að fallnir og særðir hjá Rússum telji um 800 þúsund manns.
NATO og ESB
Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess að Rússar beiti hervaldi gagnvart Úkraínu greinilega með það að markmiði að leggja landið undir sig. Þegar horft er til sögunnar má sjá að ríki fara ekki í stríð nema þau telji fullreynt að ná pólitískum markmiðum með öðrum hætti en vopnavaldi. Rússar reyndu í mörg ár en tókst ekki að ná tökum á Úkraínu með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi.
Það sem hvað oftast hefur verið nefnt sem ástæða fyrir innrás Rússlands í Úkraínu er aðildarumsókn landsins að ESB og NATO. Efalítið eru það þættir sem haft hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimirs Pútins. En þegar litið er til sögu samskipta Rússlands og Úkraínu verður ekki hjá því komist að álykta að skýringanna er ekki síst að leita í nýlendustefnu sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Stríðið í Úkraínu sýnir að nýlenduveldið Rússland er enn til staðar og nálgast nærliggjandi lönd og svæði á sömu nótum og það hefur alltaf gert.
Höfundur er fyrrverandi sendiherra. Hann var sendiherra gagnvart Rússlandi og Úkraínu 1994-1998 og fastafulltrúi í NATO 2002-2008.