Þrjú ár voru í gær liðin frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu. Rússar héldu að þeir ættu létt verk fyrir höndum. Hermönnum þeirra hafði verið talin trú um að þeir væru að fara að frelsa íbúa landsins, sem myndu fagna komu þeirra. Rússar mættu hins vegar harðri andspyrnu og fengu að finna fyrir því að þeir væru ekki velkomnir.
Þótt sókn Rússa að Kænugarði mistækist hrapallega hefur Úkraínuher ekki tekist að hrekja rússneska herinn brott frá héruðunum í austur- og suðurhluta landsins og nú eru um 20% landsins á valdi Rússa.
Rússneski herinn hefur skilið eftir sig slóð blóðsúthellinga og eyðileggingar. Aðkoman að þorpum og bæjum sem Rússar lögðu undir sig og misstu aftur var hryllileg. Rússnesku hermennirnir höfðu pyntað og nauðgað og tekið fólk af lífi að tilefnislausu. Fjölmörg dæmi eru um að stríðsfangar hafi einfaldlega verið teknir af lífi. Frá héruðunum, sem Rússar hafa lagt undir sig, berast hrollvekjandi fréttir af pyntingum. Þar eru þeir teknir fyrir, sem ekki eru hlynntir hernámi Rússa.
Þetta framferði mun reyndar hafa staðið yfir allt frá því að rússneski herinn gerði innrás í Donbas 2014 í þeim tilgangi að styðja við rússneska aðskilnaðarsinna á sama tíma og Krímskagi var innlimaður í Rússland.
Þótt sennilega sé hvergi að finna skjalfestar fyrirskipanir eru stríðsnauðganir hluti af hernaði Rússa því að refsileysið er algert. Í bænum Bútsja skammt frá Kænugarði gengu Rússar fram af fullkomnu miskunnarleysi við almenna borgara. Þegar herdeildin, sem hafði verið í Bútsja, sneri aftur til Rússlands var hún sæmd heiðursmerkjum. Árið 2023 voru samþykkt lög í Rússlandi um að rússneskir hermenn í Úkraínu yrðu ekki sóttir til saka fyrir „litla og meðalstóra“ glæpi.
Stríð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu hefur verið dýrt. Mannfallið í röðum Úkraínumanna hefur verið mikið og eyðileggingin er gífurleg. Líf íbúa landsins var sett á annan endann. Milljónir flúðu land. Fjöldi manna gekk í herinn og greip til vopna, fólk sem hugðist gera allt annað við líf sitt en að vera á víglínunni.
Mannfallið hefur einnig verið mikið í röðum Rússa og virðist ráðamönnum í Kreml standa á sama um fórnirnar. Ekkert andóf er liðið í landinu. Gagnrýni á „hina sérstöku hernaðaraðgerð“ getur kostað þunga refsingu og jafnvel þarf ekki meira en að tala um frið til að lenda í fangelsi.
Þess var minnst í Kænugarði í gær að þrjú ár væru liðin frá innrás Rússa. Þar voru staddir leiðtogar víða að úr Evrópu, þar á meðal frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, sem öll lýstu yfir að bætt yrði í framlögin.
Á fundinum tilkynnti Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld hygðust auka varnartengdan stuðning við Úkraínu um 2,1 milljarð króna á þessu ári. Mun framlag Íslands því nema 3,6 milljörðum á árinu.
„Á meðal okkar er full samstaða um að standa þétt með Úkraínu á þessum viðkvæma tímapunkti þegar úkraínska þjóðin heyr varnarbaráttu sem snýr raunverulega að öryggi Evrópu allrar,“ sagði Kristrún.
„Lyktir stríðsins munu hafa afgerandi og varanleg áhrif á öryggi Evrópu og þvert á Atlantsála,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu forseta Finnlands, Lettlands, Litháens og Úkraínu og forsætisráðherra Danmerkur, Eistlands, Íslands og Svíþjóðar.
Í ávarpi sínu á fundinum flutti Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, ákall um að samið yrði um „raunverulegan, varanlegan“ frið á þessu ári.
Eftir að upphafsárás Rússa var hrundið og rússneski herinn hrökklaðist til baka hefur víglínan lítið hreyfst. Rússar hafa sótt á, en ekki með afgerandi hætti. Úkraínumenn réðust í fyrra inn í Rússland og tóku hluta af héraðinu Kúrsk. Pútín hefur átt erfitt með að kyngja því, en hefur hins vegar ekki tekist að ná Kúrsk aftur á sitt vald.
Stuðningurinn við Úkraínu hefur dugað til þess að halda aftur af Rússum, en ekki til að hrekja þá aftur að landamærum Rússlands. Átökin eru því orðin að þreytistríði sem heimtir þungan toll af Úkraínumönnum og ótækt er að malli áfram með sama hætti.
Á hinn bóginn er ömurlegt til þess að hugsa að Rússar komist upp með að ráðast inn í önnur ríki og hrifsa af þeim landsvæði og komist í þokkabót upp með að rústa innviðum án þess að borga stríðsskaðabætur. Friður í Úkraínu er langþráður, en hann má ekki verða til þess eins að Rússar geti kastað mæðinni og safnað kröftum fyrir næsta stríð – því það er engin ástæða til að ætla að Pútín hafi fengið fylli sína.