Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Í ítarlegu erindi sem Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar skipstjóra, hefur sent formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er það mál rakið sem verið hefur til umfjöllunar á síðum Morgunblaðsins undanfarna daga.
Þar er auk þess farið fram á að rannsóknarnefnd verði skipuð í því augnamiði að rannsaka þátt Ríkisútvarpsins og starfsmanna þess í hinu svokallaða byrlunarmáli. Er ferill þess máls rakinn í tímalínu hér til vinstri.
Er beiðnin lögð fram á grundvelli lagaheimildar sem finna má í 13. gr. laga nr. 55/1991 en þar er fjallað um þingsköp Alþingis.
Þar er sérstaklega óskað eftir því að svara verði leitað við því hvort háttsemi starfsmanna RÚV í tengslum við málið samræmist lögbundnu hlutverki RÚV. Hvort háttsemin hafi verið í samræmi við siðareglur Blaðamannafélags Íslands og fjölmiðlalög. Hvort það samræmist hlutverki RÚV að útvega öðrum fjölmiðlum gögn sem RÚV sjálft sér ekki ástæðu til að nýta sér. Hvort útvarpsstjóri eða aðrir stjórnendur stofnunarinnar hafi haft vitneskju um eða komið að ákvörðunum er varði málið. Og hvort ástæða sé til þess að setja lög sem taki af allan vafa um að undantekningarákvæði tveggja greina hegningarlaga er lúta að brotum gegn friðhelgi einkalífs borgaranna sé ekki ætlað til þess að veita blaðamönnum ríkari rannsóknarheimildir en lögreglu.
„Þótt ákveðið hafi verið að hætta rannsókn málsins og ljóst sé að refsingum verði ekki fram komið, telur umbjóðandi minn þörf á því að tekið verði af skarið um það hvort íslenska ríkið láti það óátalið að Ríkisútvarpið standi fyrir gagnastuldi og grófum brotum gegn friðhelgi einkalífs almennra borgara,“ segir meðal annars í bréfinu til nefndarinnar.
Bent er á að ekki einu sinni lögreglan hefur heimild til þess að rannsaka síma eða tölvur án samþykkis rétthafans eða dómsúrskurðar, jafnvel þótt uppi sé grunur um svívirðilega glæpi. „Undirrituð telur það ekki geta staðist, sem sakborningar í málinu hafa haldið fram, að undantekningarákvæðum [hegningarlaga] sé ætlað að veita blaðamönnum ríkari rannsóknarheimildir en lögreglu. Verði sú krafa ofan á verða afleiðingarnar þær að fólk sem bundið er trúnaðarskyldu í störfum sínum getur ekki tekið þá áhættu að nota síma eða tölvur, tölvupóst eða gagnageymslur sem hægt er að komast í gegnum slík. Slíkar afleiðingar varða bersýnilega hagsmuni almennings, lögaðila og raunar hagsmuni ríkisins sjálfs,“ segir lögmaðurinn í niðurlagsorðum.