Skóli Vandmeðfarið er þegar gerandi og þolandi ofbeldis eru í sama skóla.
Skóli Vandmeðfarið er þegar gerandi og þolandi ofbeldis eru í sama skóla. — Morgunblaðið/Karítas
„Þetta er ákveðið vandamál sem við erum að horfa upp á í skólakerfinu. Við erum stundum með þolanda og geranda í sama skóla og þurfum bara að tryggja að þeir séu ekki í nálægð hvor við annan. En það er alltaf áskorun,“ segir Steinn…

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

„Þetta er ákveðið vandamál sem við erum að horfa upp á í skólakerfinu. Við erum stundum með þolanda og geranda í sama skóla og þurfum bara að tryggja að þeir séu ekki í nálægð hvor við annan. En það er alltaf áskorun,“ segir Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Viðtal Morgunblaðsins við föður stúlku sem lenti í hrottafengnu ofbeldi á skólalóð Breiðagerðisskóla í október árið 2023, þegar tveir drengir réðust á hana með stíflueyði, hefur vakið mikla athygli. Stúlkan særðist alvarlega og glímir enn við afleiðingarnar sem raunar munu fylgja henni alla ævi. Faðir hennar segir úrræðaleysi hafa einkennt viðbrögð skólayfirvalda, þar sem annar gerandinn, skólabróðir stúlkunnar, var látinn víkja úr skólanum í eina viku. Á endanum drógu foreldrarnir dóttur sína úr skólanum.

Steinn segir það vandmeðfarið þegar gerandi og þolandi eru í sama skóla, eða sama bekk, þegar ofbeldi kemur við sögu. Það fari ákveðið ferli í gang innan skólans þegar slík mál koma upp auk þess sem barnaverndaryfirvöld komi að málinu.

„Ég ætla svo sem ekkert að fullyrða að við höfum nógu mörg úrræði en það er vissulega vandmeðfarið hvernig þessi mál eru tekin fyrir,“ segir Steinn.

„Og oftar en ekki hefur gerendum – og nú er ég bara að vísa til þess sem hefur stundum verið gert – verið vísað tímabundið úr skóla. Svo koma þeir aftur í skólann og eru þá með sértækan stuðning til að tryggja að þolandinn geti verið í skólanum og búið við ákveðið öryggi.“

Fráfarandi formaður skóla- og frístundaráðs sagði við mbl.is að ofbeldis- og eineltisvandinn í Breiðholtsskóla, sem umfjöllun mbl.is varpaði ljósi á fyrir rúmri viku, væri ef til vill birtingarmynd stefnu menntayfirvalda um skóla án aðgreiningar. Steinn hefur áður bent á að Íslendingar standi fremst hvað varðar skóla án aðgreiningar.

„Skóli án aðgreiningar hefur gengið vel á Íslandi en auðvitað hafa komið upp tilvik sem þarf að taka á. En það gerist líka þegar við erum með skóla sem eru ekki með sama kerfið,“ svarar hann.

„Það eru alltaf þessi sömu vandamál til staðar hvort sem þú ert með skóla án aðgreiningar eða ekki.“

Höf.: Agnar Már Másson