Uppsteypu er nú lokið og svipur kominn á tvær nýjar byggingar í hinum nýja miðbæ á Selfossi. Þetta eru hús á lóðunum Eyravegi 3-5, sem eru syðst og vestast á miðbæjarsvæðinu, og eru í stíl við aðrar byggingar þar. Fyrirmyndirnar að þessum byggingum eru tvö eldri hús sem löngu eru horfin. Þarna ræðir um Amtsmannshúsið í Þingholtunum í Reykjavík, sem var reist 1879 en rifið 1972. Hitt húsið hefur svip Hótels Akureyrar sem var reist 1902 en brann 1955.
Húsin tvö, 2.500 fermetrar að samanlögðu flatarmáli, verða steinsteypt með timburklæðningu á ysta byrði; þrjár hæðir og ris. Standa sjálfstæð en verða tengd með glerbyggingu. Á jarðhæð er gert ráð fyrir verslun eða þjónustustarfsemi. Á efri hæðum verða 12 íbúðir, samkvæmt því sem Vignir Guðjónsson framkvæmdastjóri Sigtúns – þróunarfélags greinir frá.
„Upphaflega var gert ráð fyrir að skrifstofur yrðu á öllum hæðum húsanna tveggja. Þær fyrirætlanir breyttust í ferlinu og við settum íbúðir þarna inn í staðinn, enda talsverð eftirspurn eftir slíkum. Tugir íbúða til viðbótar munu svo bætast við á næstu árum, samhliða áframhaldandi uppbyggingu í miðbænum. Svæðið er vinsælt,“ segir Vignir.
Framkvæmdirnar í nýja miðbænum nú eru 2. áfangi verkefnisins; en þar eru undir samtals 43 byggingar, lítil og stór hús, á 6-7 reitum. Því fylgir bygging bílastæðahúss, sem nú er komið í not og tekur alls 220 ökutæki. sbs@mbl.is