Trausti Bergmann Óskarsson fæddist í Reykjavík 4. ágúst 1950. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 11. febrúar 2025.
Foreldrar hans voru Svava Júlíusdóttir, f. 21. desember 1927, d. 13. júní 1966 og Óskar Sigurðsson, f. 16. júní 1917, d. 11. apríl 1981. Trausti var einn af sex bræðrum, hinir eru Júlíus, f. 1948, Sigurður, f. 1949, Jóhann, f. 1951, Jón, f. 1954 og Jens, f. 1957.
Sonur Trausta er Óskar Bergmann, f. 14. október 1974. Óskar var ættleiddur af hjónunum Alberti Valdimarssyni, f. 1938, og Ingibjörgu Sigmundsdóttur, f. 1942, d. 2019.
Eftirlifandi eiginkona Trausta er Sólveig Ívarsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1945. Börn hennar eru: 1) Rafn A. Sigurðsson, f. 1966, eiginkona Ólöf Aðalsteinsdóttir, f. 1964. Börn þeirra eru Hulda og Sigurður. 2) Elísabet Ó. Sigurðardóttir, f. 1969, eiginmaður hennar er Sverrir H. Hjálmarsson, f. 1969. Börn þeirra eru Thelma Rut, Róbert Ívar, Hjálmar Húnfjörð og Embla Sól. 3) Ingveldur Á. Sigurðardóttir, f. 1973, eiginmaður hennar Þorsteinn Jóhannsson, f. 1963, d. 2014. Börn þeirra eru Sólveig Helga, Elísabet Ósk og Jóhann Alexander. Sambýlismaður Ingveldar er Markús Hallgrímsson, f. 1966. Langafabörnin eru fjögur.
Trausti starfaði við ýmis störf til sjós og lands. Helst er að nefna sjómennsku, fiskvinnslu, byggingarvinnu og almenn verkamannastörf. Hann starfaði einna lengst á Keflavíkurflugvelli við þjónustustörf fyrir herinn. Hans helsta áhugamál var tréútskurður og trérennismíði sem þróaðist úr áhugamáli í starf í seinni tíð. Þar með talið er kennsla og leiðsögn bæði hér á landi og erlendis og átti hann farsælan feril á þessu sviði. Hann var einn af hvatamönnum stofnunar áhugafélags um trérennismíði hér á Íslandi, sem er í dag einn virkasti handverkshópur landsins. Trausti var af mörgum talinn einn af betri trérennismiðum þjóðarinnar. Hann stundaði einnig myndlist ásamt ýmissi annarri listsköpun enda lék allt í höndunum á honum.
Útför Trausta fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 25. febrúar 2025, klukkan 13.
Ég var staddur á suðrænum slóðum þegar ég fékk símtal að heiman. Nafni minn, fyrrverandi stjúpi og kær vinur er fallinn frá. Það er mjög sárt. Og einhvern veginn enn sárara að fá slíkar fréttir þegar maður er langt að heiman.
Bergmann, eins og ég kallaði hann oftast af því að við bárum sama nafn og mér fannst það skrýtið, var hluti af fjölskyldu minni á árunum 1981-1987. Þegar ég var á aldrinum 13-19 ára. Ég hef oft hugsað til þeirra ára, Njálsgötuáranna, sem eins af bestu tímabilum lífs míns. Hann kom inn í líf mitt sem einhvers konar haldreipi á tíma sem ég þurfti svo sannarlega á slíku að halda.Við nafnarnir eyddum miklum tíma saman. Ekki bara á heimilinu, heldur unnum við líka saman í nokkur ár hjá Icepak á gamla Varnarsvæðinu. Þar var hann eðlilega alltaf kallaður Trausti og ég var kallaður junior. Mér þótti það mjög svalt. Það voru góðir tímar. Við urðum fljótt nánir og góðir vinir.
Við héldum sambandi alla tíð eftir að sambúð hans og mömmu lauk. Hér áður fyrr fórum við oft saman á völlinn eða í bíó. Hann var alltaf tilbúinn í eitthvað slíkt þegar ég spurði. Hann gladdist ávallt þegar ég hringdi í hann og ég man hvað mér fannst það alltaf gott. Það hafði myndast einhver strengur á milli okkar sem aldrei rofnaði. Einhver tenging sem var mér afar kær. Að hluta til var það vegna föðurleysis míns. Og mig grunar að ég hafi mögulega fyllt upp í eitthvað tómarúm í hans tilveru líka. Mikið ósköp þótti mér vænt um hann nafna minn. Og ég fann hvað honum þótti vænt um mig. Það er fátt dýrmætara en slík tilfinning. Hún mun fylgja mér út lífið.
Ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir það að hafa náð að hitta hann á Landspítalanum skömmu áður en hann dó. Ég finn ennþá fyrir síðasta faðmlaginu okkar. Ég sagði honum að það væri ekki í boði að deyja strax. Hann brosti bara. Ef ég mun einhvern tímann eignast afkomanda sem verður skírður eftir mér, mun sá fá að vita að það var einu sinni annar Trausti. Sem var gull af manni og á þátt í því hver ég er. Trausti Bergmann var eina föðurímyndin sem ég hef átt og fáir menn hafa reynst mér jafn vel. Hann mun alltaf eiga stað í hjarta mínu sem sá maður sem komst næst því að vera pabbi minn.
Trausti Már Ingason.