Sviðsljós
Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Sveitarstjórn ákvað að kalla formlega eftir viðbrögðum við beiðni um óformlegar þreifingar um sameiningu Strandabyggðar við Reykhólahrepp og Dalabyggð, sem eru tvö af okkar helstu samstarfssveitarfélögum,“ segir Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt svari sveitarstjórnar Reykhólahrepps við erindinu telur sveitarstjórnin ekki forsendur til að ganga til formlegra sameiningarviðræðna við önnur sveitarfélög eins og sakir standa.
„Það er mjög mikil og góð samvinna í gangi á milli sveitarfélaganna og samstaða um allskonar verkefni. Við erum með sameiginlegan skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, rekum brunavarnir saman með Ströndum, þ.e. Kaldrananeshreppi og Árneshreppi, auk okkar í Strandabyggð. Við erum einnig með svæðisskipulag og mjög öflugt samstarf og við sveitarstjórarnir eigum í nánum samskiptum. Við vildum samt koma þessu á formlegri stað og sendum þess vegna þetta erindi og hefur því verið svarað þannig, hvað Dalabyggð varðar, að á meðan þeir standa í óformlegum viðræðum um sameiningu við Húnaþing vestra, þá opna þeir ekki á aðrar viðræður,“ segir Þorgeir.
Að hans sögn hefur Reykhólahreppur ekki verið tilbúinn til að opna á neinar sameiningarviðræður við nokkurt sveitarfélag að svo stöddu, vegna verkefnastöðu og uppbyggingar í sveitarfélaginu. „Þetta eru svör sem við áttum allt eins von á og breyta litlu í sjálfu sér. Við munum halda áfram okkar samstarfi og fylgjumst með hvernig þeirra mál þróast,“ segir Þorgeir.
Þorgeir segir að í sínum huga væri mjög áhugavert að skoða sameiningu Strandabyggðar við Dalabyggð og Húnaþing vestra, ef til sameiningar þeirra tveggja kæmi.
„Við deilum hér bæði landsvæði og hafsvæði. Það er landbúnaður sem einkennir öll þessi sveitarfélög og við þurfum góða samstarfsaðila þar,“ segir Þorgeir.
Í Strandabyggð eru 414 íbúar, en í Reykhólahreppi eru ríflega 230 manns búsettir. Í Dalabyggð búa aftur á móti um 660 manns og um 1.210 í Húnaþingi vestra, en Húnvetningar þurfa ekki að sameinast neinu öðru sveitarfélagi stærðarinnar vegna. Í stefnu stjórnvalda hvað sameiningarmál varðar er miðað við að lágmarks íbúafjöldi sveitarfélags skuli vera 1.000 manns eftir næstu sveitarstjórnarkosningar, en þær verða haldnar á vordögum 2026.
Þorgeir bendir á að á slóðum Strandabyggðar séu fimm sveitarfélög sem mynda Strandir, Reykhóla og Dali og segir hann að samanlagður íbúafjöldi þeirra myndi ekki ná 2.000 manns.
„Við erum landfræðilega stórt sveitarfélag en yrðum ekki stórt í mannfjölda,“ segir hann og veltir jafnframt upp þeirri spurningu hvort endilega eigi að líta á landfræðilega nálægð sveitarfélaga þegar sameiningarmál koma til skoðunar.
„Geta ekki verið samstarfsfletir með sveitarfélögum annars staðar, þótt landfræðilega séu þau ekki augljósasti kosturinn? Ég held að aðrar breytur séu farnar að skipta meira máli en landafræðin,“ segir Þorgeir.
Sameiningar sveitarfélaga hafa verið í gangi síðustu misserin. Þannig sameinuðust Húnabyggð og Skagabyggð í fyrra og þá hafa íbúar Árneshrepps litið til sameiningar við annað sveitarfélag. Þá hafa staðið yfir óformlegar sameiningarviðræður á milli Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga.
Sameiningarviðræður
Dalamenn og Húnvetningar
Óformlegar viðræður eru í gangi á milli Dalabyggðar og Húnaþings vestra um sameiningu sveitarfélaganna. Verkefnanefnd er að störfum og haldnir hafa verið tveir fundir. Þetta segir Magnús Magnússon, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra, í samtali við Morgunblaðið.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að ganga til formlegra viðræðna. Segir Magnús að íbúafundir verði væntanlega haldnir í lok mars í báðum sveitarfélögunum. Hann segir að ekki hafi borið á neikvæðri stemningu gagnvart hugmyndunum. Verið sé að safna gögnum og það verði ekki fyrr en formlegar sameiningarviðræður myndu hefjast sem töluleg gögn yrðu kynnt til sögunnar, sem einnig yrði gert á íbúafundunum. Málið yrði unnið skref fyrir skref sem tæki væntanlega þetta ár og mögulega yrði gengið til atkvæða í kringum næstu áramót.