Ragnhildur Guðrún Guðmundsdóttir fæddist 21. desember 1933. Hún lést 11. febrúar 2025.
Útför Ragnhildar fór fram 24. febrúar 2025.
Elsku Dúna amma.
Við kveðjum þig í dag með söknuð í hjarta. Nú ert þú komin á fullkominn, blessaðan og indælan stað þar sem þú hefur eflaust hafið kjarabaráttu og jafnvel búin að skella í eitt stykki verkfall. Búin að dressa þig upp í þitt fínasta púss, komin í hælana aftur og leðurbuxurnar, með rauða varalitinn þinn. Við minnumst þín sem ömmu nagla sem lést aldrei vaða yfir þig, tókst alltaf á móti okkur opnum örmum og hafðir alltaf óbilandi trú á öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Skemmtilegir voru tímarnir í kringum jólin, laufabrauðsbakstur, afmæli og jóladagsboðið sem alltaf var svo skemmtilegt að koma í. Þar fengum við að leika okkur með slæðurnar, fötin þín og allt sem okkur datt í hug, þú sagðir aldrei nei. Svo má nefna allar fjölskylduferðirnar, útilegurnar og góðu stundirnar á Apavatni.
Hvíldu í friði elsku amma okkar.
Guðlaug, Ólafur,
Margrét og Þóra
Kristín Magnúsarbörn.
Elsku Dúna amma, nú ertu farin frá okkur og minningarnar um þig streyma inn. Við höfum alltaf vitað hversu heppin við erum að hafa fengið að hafa þig í okkar lífi.
Að alast upp með konu eins og Dúnu ömmu sem fyrirmynd var forréttindi. Hún var algjör nagli, hörð í samningum, fylgin sér og lét engan vaða yfir sig, nema okkur barnabörnin og það gerði hún með bros á vör. Við bjuggum til föt úr fínu silkislæðunum hennar, lékum með dýru snyrtivörurnar hennar, sváfum í silkináttfötunum hennar og borðuðum nammi þegar við vildum því Dúna amma var amma sem sagði aldrei nei. Í hennar huga gerðum við aldrei neitt rangt. Við vorum fullkomin, blessuð og indæl!
Þegar við hugsum til baka standa upp úr allar ferðirnar á Apavatn og Munaðarnes með stórfjölskyldunni þar sem við barnabörnin rifumst um það hvaða hópur fengi að sofa með ömmu í herbergi. Amma naut sín þegar allir voru saman og hugsum við með hlýju til allra jólaboðanna, árlega laufabrauðsbakstursins og jólaballanna þar sem oft var mætt í eins fötum sem amma hafði keypt í útlöndum.
Dúna amma kenndi okkur fljótlega mikilvægi þess að semja um kjör, að vera meðvituð um réttindi okkar á vinnumarkaði og minnti hún okkur reglulega á baráttuna, sem hún tók stóran þátt í. Einnig sýndi hún okkur hvernig hægt er að vera sjálfstæð kona í karllægum heimi. Hún var fyrirmynd okkar allra. Amma var sterkur ræðumaður en hún kenndi okkur jafnframt mikilvægi þess að hlusta og að það væri jafn mikilvægt að tala ekki bara til að tala heldur ætti maður að tala þegar maður hefði eitthvað að segja.
Dúna amma var alltaf glæsileg til fara, hvort sem það var í lopapeysu í ferðalögum uppi á hálendi, með rauðan varalit í verslunarferðum eða í leðurbuxum á tíræðisaldri. Hún fylgdist alltaf með hvað var í tísku á hverjum tíma fyrir sig, sem kom sér mjög vel fyrir okkur stelpurnar á unglingsaldri. Hversu algengt er það að barnabörn fái lánuð föt og skó hjá ömmu sinni?
Það var alltaf notalegt að heimsækja ömmu og spjalla um daginn og veginn. Hún sýndi því sem við vorum að gera mikinn áhuga og var mjög stolt af öllum sínum afkomendum. Og við vorum og erum stolt af henni.
Elsku Dúna amma, við kveðjum þig með hlýju og söknuði og orðunum sem þú kvaddir okkur alltaf með: Lifi byltingin!
Þín fullkomnu, blessuðu og indælu barnabörn,
Ragna Laufey, Maríanna, Elfa Hrund og Ólafur (Óli).
Minningar um Dúnnu ömmu eru óteljandi og dýrmætar, og erfitt er að velja úr þær sem lýsa henni best. Hún var ljúf og hlý kona sem elskaði ættingja sína af öllu hjarta. Fyrir henni voru barnabörnin „fullkomin, blessuð og indæl“, og hún lét engan efast um það.
Dúnna amma var mikill kvenréttindakona sem trúði á sjálfstæði kvenna og hvatti þær til að vera sterkar og ákveðnar. „Dúllurnar hennar ömmu“ voru ekki bara sætar og yndislegar, heldur líka hugrakkar og ákveðnar, alveg eins og hún sjálf. Hún dæmdi engan og tók alltaf á móti fólki af virðingu. Orð hennar í viðtali við Vikuna lýsa henni vel: „Fólk kemur til okkar með reisn og við reynum að taka á móti því með reisn.“
Hún prjónaði mikið og skapaði fallegar flíkur fyrir vini og ættingja. Hún elskaði einnig að ganga um hálendið, fann frelsi í náttúrunni og fór í margar gönguferðir um íslenskt hálendi. Kaffibollinn var ómissandi, alltaf með molasykri, og hún naut þess að spjalla yfir góðum kaffisopa.
Hún gaf mikið af sér til samfélagsins og starfaði lengi sem formaður Mæðrastyrksnefndar, þar sem hún lagði sig fram við að hjálpa mæðrum og börnum sem áttu erfitt. En þrátt fyrir öll góðverkin var hún líka mikil pæja! Hún var alltaf vel til höfð, með rauðan varalit og stíl sem fáar konur yfir nírætt gætu keppt við – enda ekki margar konur á hennar aldri sem klæðast leðurbuxum af jafn miklum glæsileika. Dúnna amma gerði heiminn skemmtilegri og litríkari með sinni einstöku nærveru.
Dúnna amma var einstök kona, sterk, hjartahlý og litrík, og hún skildi eftir sig ógleymanleg spor í lífi þeirra sem hana þekktu.
Blessuð sé minning hennar.
Hlýja þín og kærleikur munu lifa áfram í hjörtum okkar. Minningar um þig fylla okkur þakklæti og hlýju, og við munum ávallt minnast þín með söknuði og bros á vör.
Helga Guðrún, Jón Ólafur og Atli Þór Gunnarsbörn
og fjölskyldur.
Við Dúna vorum í sama sólkerfi, það var pláss fyrir okkur báðar því hlutverk okkar voru ólík. Við vorum á sporbaug hvor um aðra, nálægar og aldrei svo fjarlægar að aðdráttaraflið fjaraði út.
Dúna var glæsileg, klár, leitandi og með mikla réttlætiskennd. Henni varð tíðrætt um Kópasker sem átti sinn sérstaka sess og ævinlega talaði hún fallega um föður sinn. Ísafjörður átti mörg hennar ár og drengirnir hennar fjórir. Heimilið naut krafta hennar, Ólabakarí, Loftskeytastöðin og Póstur og sími. En þetta dugði Dúnu ekki, hún var stór, hún var leitandi, hún þurfti meira rými, stærri áskoranir … svo hún flutti.
Dúna var eldhugi og afar pólitísk, var mikil kvenréttindakona og vildi bættan hag kvenna, að þær hefðu frelsi til að velja og fræðast. Hún tók fagnandi þátt í kvennafrídeginum 24. október 1975, nokkru síðar tók hún ásamt starfssystrum sínum þátt í verkfalli og lét ekki trufla þá samstöðu þó leitað væri að þeim af lögreglunni á Ísafirði, ásakaðar um lögbrot. En bættur hagur kvenna var ekki hennar einasta mál á dagskrá. Hún vildi bæta hag allra sem minna mega sín eins og sýndi sig m.a. í verkalýðsbaráttunni og í störfum hennar sem formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur um árabil.
En við vorum reikistjörnur og ferðuðumst um á sporbaug. Dúnu gat ég séð úr fjarlægð en nálægðin gaf okkur líka tækifæri í Vesturberginu einn vetur og við urðum mæðgur. „Þú ert dóttirin sem ég aldrei eignaðist,“ sagði hún stundum og þess naut ég, hún var mér góð, hvetjandi og hlý. Um allt gátum við talað, það þægilega og hið óþægilega, ljóð voru lesin og á stundum ómaði tónlist. Grace Jones var okkar kona.
Móðir mín tengdi okkur Dúnu saman í upphafi. Við áttum báðar sterkar minningar um hana sem við oftsinnis rifjuðum upp og yljuðum okkur við eftir lát hennar.
Núna eru þessar vinkonur báðar gengnar. Dúna mun eins og reikistjarna halda áfram sinni leið um sporbaug sem er okkur ekki sýnilegur. Fjarlæg en líka nálæg í öllum þeim góðu minningum sem ég á um hana.
Guðrún Guðmundsdóttir.
Mér er enn í fersku minni þegar ég heimsótti fyrst skrifstofu Vinstri-grænna í Hafnarstræti fyrir aldarfjórðungi eða svo. Þar var ég mætt á fund, rataði ekki um húsið þar sem flokkurinn leigði eina skrifstofu, en fann hana að lokum. Á móti mér tók yndisleg kona sem sýndi með öllu sínu viðmóti að ég væri velkomin. Þarna lágu leiðir okkar Ragnhildar G. Guðmundsdóttur fyrst saman og þær áttu eftir að liggja oftar saman á komandi árum og áratugum.
Ragnhildur var baráttukona af lífi og sál. Þegar ég kynntist henni hafði hún verið virk í verkalýðsbaráttu um árabil. Meðal annars hafði hún verið formaður Félags íslenskra símamanna árum saman og verið kjörin varaformaður BSRB. Hún var óþreytandi eldsál meðfram störfum sínum og hélt því áfram eftir að hún lauk störfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Þá tók hún sæti í stjórn Kvenréttindafélags Íslands og seinna tók hún sæti í stjórn Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Hún varð formaður nefndarinnar ekki löngu eftir að leiðir okkar lágu fyrst saman og gegndi því starfi í ellefu ár.
Ragnhildur var viðræðugóð og ævinlega var gaman að setjast með henni og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar. Hún fylgdist enda vel með samfélagsumræðunni og tók þar ávallt málstað lítilmagnans. Ragnhildur vissi af eigin langri reynslu hve miklu samstaða verkafólks gat skilað og var sannfærð um að vonin um réttlátara samfélag gæti verið ótrúlegt hreyfiafl. En hún sló líka á létta strengi og gat hlegið dátt að skondnari hliðum samfélagsins.
Ég lærði eitt og annað af Ragnhildi líkt og ýmsum öðrum baráttukonum sem ég kynntist í störfum mínum í stjórnmálum. Ekki síst að fólkið „á gólfinu“ er sálin í lýðræðislegum stjórnmálaflokkum og þaðan kemur lífið og næringin í öllu stjórnmálastarfi. Og Ragnhildur gaf af sér í hvert skipti sem við hittumst. Alltaf fann ég hlýja strauma og stuðning frá henni.
Nú þegar við kveðjum þessa sómakonu með virðingu og vináttu er vert að muna að hvert og eitt okkar getur skilað samfélaginu í réttlætisátt. Það gerði Ragnhildur með lífi sínu og störfum og var þannig öðrum innblástur.
Katrín Jakobsdóttir.
Ragnhildur Guðmundsdóttir varð aldrei gömul. Í árum talið kannski, en andinn var ungur og síkvikur. Þetta er einkennandi fyrir þá sem horfa á tilveruna björtum augum. Og það gerði Ragnhildur.
Ég heimsótti hana stundum í Skógarbæ þar sem hún bjó sín síðustu ár. Þar væri frábært að vera, sagði hún, yndislegt starfsfólk og heimilisfólkið hvert öðru betra. Þetta væri náttúrlega orðið aldrað fólk, það er að segja öll hin.
Svona var Ragnhildur, hún vildi líf og fjör í kringum sig og sjálf lét hún ekki sitt eftir liggja, lagði jafnan inn góða stemningu.
Um árabil vorum við Ragnhildur Guðmundsdóttir eins nánir samstarfsmenn og hugsast getur, annað formaður og hitt varaformaður BSRB. Traust okkar í milli var fullkomið og um allt sem máli skipti vorum við sammála.
Ég minnist þess ekki að nokkurn tímann hafi borið skugga á samstarf okkar og oft hugsaði ég hve gott það væri að vera í sama liði og hún.
Og nú þegar ég horfi yfir farinn veg hugleiði ég hvað það var sem mér þótti mest um vert í fari Ragnhildar sem félaga í baráttu fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks og gegn ásókn peningaafla í innviði samfélagsins. Það var óttaleysið, hve óbangin hún var.
Þingeysk mikilmennska hefur eflaust haft sitt að segja, upp til hópa þótti fólkinu af Sléttunni engin sérstök ástæða til að biðjast afsökunar á sjálfu sér, sem var náttúrlega hárrétt mat. Hverjum þeim sem sat handan samningaborðsins gegnt Ragnhildi Guðmundsdóttur var tekið sem jafningja og aldrei meira en það.
Hún hafði óbilandi trú á því að öllum bæri réttmætur skerfur af þjóðarverðmætunum og ekki agnarögn minna. Og þegar einkavæðingarsinnar vildu hafa sitt fram þá var henni að mæta.
Íslensk menning var Ragnhildi hugleikin, vildi hlúa að tungunni og hafði stundum af því áhyggjur að þar væru menn að gefa um of eftir. Þetta væri eins og með allt annað í lífinu, að það sem ekki væri lögð rækt við, visnaði. Að sama skapi blómstraði garðurinn sem við nærðum og ræktuðum.
Ein spakmæli koma mér jafnan í hug þegar Ragnhildar Guðmundsdóttur er getið og það vegna þess að þau eru hennar. Þegar haft var á orði að þetta eða hitt væri að gerast, til góðs eða ills, þá andmælti hún jafnan og sagði að það mættu menn vita að ekkert gerðist af sjálfu sér: „Það eru nefnilega alltaf gerendur.“
Þetta eru orð að sönnu, alltaf eru gerendur. Þetta eru sannindi sem láta ekki mikið yfir sér en eru þeim mun mikilvægari og í rauninni mjög róttæk. Þau minna okkur á að ef við viljum breytingar þá verðum við að hætta að horfa á lífið úr áhorfendastúkunni og vinda okkur í slaginn. Væri þróunin að taka ranga stefnu að okkar mati, væri það ekki samkvæmt einhverjum lögmálum heldur vegna þess að gerendur væru þar að verki. Okkar væri þá að taka á móti eða gerast brautryðjendur, vildum við stefna í aðra átt.
Ég kveð mína góðu vinkonu með eftirsjá. Við Vala færum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Ögmundur Jónasson.