Þórunn Baldursdóttir fæddist 9. september 1919 að Þúfnavöllum í Hörgárdal. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 11. febrúar 2025. Foreldrar hennar voru Baldur Guðmundsson, f. 15. janúar 1897, d. 8. apríl 1992, bóndi á Þúfnavöllum og síðar þingvörður á Alþingi í Reykjavík, og Þórhildur Júlíana Björnsdóttir, f. 16. apríl 1895, d. 19. ágúst 1977, húsfreyja á Þúfnavöllum og í Reykjavík. Þórunn átti tvö yngri systkini, Björn, f. 26. september 1921, d. 24. júlí 1988, og Huldu, f. 12. júní 1923, d. 31. ágúst 2013.
Eiginmaður Þórunnar var Valur Vilhjálmsson, fæddur Walter Raymond Petty, f. 6. mars 1919, d. 13. júní 1986, verslunarmaður. Foreldrar hans voru William Petty, f. 1890, d. 1964, og Frances Petty, fædd Cawton, f. 1896, d. 1988. Þau bjuggu í Scarborough í Yorkshire, Englandi.
Dætur þeirra eru 1) Sólveig Valsdóttir Nau, f. 19. september 1942, starfaði á rannsóknar- og þróunarstofnun. Eiginmaður hennar var Clarence L. Nau, f. 1939, d. 2010. Börn þeirra eru a) Audrey Jane Koch, f. 1961, eiginmaður Laurence Koch og b) Walter Raymond Nau, f. 1965, d. 2011. 2) Svanhildur Frances Valsdóttir, f. 25. nóvember 1950, kennari. Dóttir hennar og Péturs Einarssonar er a) Þórunn Elín Pétursdóttir, f. 1972, sambýlismaður hennar er Þorsteinn Arnalds. 3) Áslaug Íris Valsdóttir, f. 2. júlí 1961, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Börn hennar og Sigursveins Friðrikssonar eru a) Ómar Sigursveinsson, f. 1981, b) Þórhildur Vala Sigursveinsdóttir, f. 1982, eiginmaður hennar er Valgeir Jónsson. Börn hennar og Jóhanns Geirssonar eru c) Kjalar Þór Jóhannsson, f. 1993, og d) Árdís Ilmur Jóhannsdóttir, f. 1996, sambýlismaður hennar er Guðmundur Hjaltason. Barnabarnabörnin eru níu.
Þórunn ólst upp í sveitinni og sótti þar farskóla. Síðar stundaði hún nám við stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri. Hún starfaði hjá Landssímanum á Akureyri, en að lokinni síðari heimsstyrjöldinni flutti hún ásamt eiginmanni og dóttur til Reykjavíkur. Auk húsmóðurstarfa rak hún þar um tíma sína eigin verslun, Angliu, þar sem hún seldi barnaföt sem hún saumaði sjálf og ýmsan annan varning. Lengst starfaði hún þó hjá Landssímanum – talsambandi við útlönd. Í frístundum bætti hún við sig í tungumálaþekkingu, prjónaði og saumaði, stundaði jóga og göngur og spilaði bridds.
Útförin verður frá Áskirkju í dag, 25. febrúar 2025, klukkan 13.
„Talsamband við útlönd“.
„Get ég fengið að tala við Þórunni Baldursdóttur?“
„Þetta er hún!“
Það var ósjaldan að ég hringdi í ömmu í vinnuna beint eftir skóla. Á yfirborðinu voru erindin misjöfn, en aðalerindið var að finna fyrir örygginu og hlýjunni sem hún var meistari í að veita. Það var bæði skrýtið og skemmtilegt þegar hún svaraði sjálf í vinnusímann, því þá gægðist maður skyndilega inn í vinnulífið hennar og hún fékk um leið að heyra þegar maður vandaði sig í símann. Þegar ég var yngri var hún oft heima á morgnana og þá hlustuðum við á Morgunstund barnanna meðan hún sýslaði í eldhúsinu og svo gerðum við oft jógaæfingar í stofunni. Amma gerði ýmsar skrýtnar æfingar og stöður eins og sólarhyllinguna, svaninn og það sem óhuggulegast var, kóbraslönguna. Ég reyndi eins og ég gat að fylgja með. Stundum sveifluðum við okkur líka með morgunleikfiminni í útvarpinu. Best í heimi var að leggjast með bók bak við sófann í stofunni, upp við ofninn. Í minningunni var ég oft með mjólkurglas og kex við þessa iðju, en það var þó stranglega bannað, því ekki mátti mylja neitt niður í teppið í stofunni. Amma hlýtur að hafa verið í vinnunni þá! Við amma lásum líka saman, oftast ljóð og dáðumst að fegurð orðanna.
Amma kunni þá list að hafa jafnvægi í lífinu. Hún var yfirleitt alltaf að, en tók sér reglulega pásur. Þá tilkynnti hún gjarnan að hún ætlaði „að skipta um gír“ og maður lærði fljótt að þá mætti ekki trufla hana. Hún lagðist inn á bedda, hlustaði á útvarp, kíkti á dönsku krossgáturnar og lokaði kannski augunum í smá stund. Oft fórum við líka í stutta göngutúra saman, sikk sakk um Hlíðarnar eða í Litlu-Öskjuhlíð og horfðum yfir borgina.
Á unglingsárunum kom ég sjaldnar til ömmu í Barmahlíðina, en fljótlega eftir að ég byrjaði í MH hætti amma að vinna og ég gat þá gengið að henni vísri í pásum. Ég sótti í „að skipta um gír“, komast burt í smá stund úr erlinum og í öryggið og hlýjuna í eldhúskróknum hennar. Þar gat ég varpað af mér öllum áhyggjum heimsins. Eftir því sem ég eltist og þroskaðist breyttust umræðuefnin og amma fylgdi með í þeim öllum – líka þegar hún var komin hátt á tíræðisaldur. Auk þess að fara yfir það sem var helst á baugi persónulega, voru þjóðmál ýmiss konar, heimspeki, tungumál og eilífðarmálin gjarnan á okkar borði. Við lofuðum hvor annarri að vinka þeirri sem eftir sæti „að handan“ ef það væri mögulegt. Eitt sumarið, fyrir um 30 árum, heimsóttum við allar kirkjur borgarinnar, því amma vildi kynna sér bæði kirkjur og presta bæjarins. Kannski var hún að undirbúa eigin brottför? Það reyndist alltof snemmt, því hún varð allra kerlinga elst. Hún var ótrúlega hress og skýr fram á síðasta dag, áhugasöm og lífsglöð, með hlýja og nærandi nærveru. Hjarta mitt er barmafullt af þakklæti yfir að hafa átt svona stórkostlega ömmu. Ég hlakka til að fá vink frá henni og vona að það verði hún sem svari í símann þegar það kemur að því að ná talsambandi við „útlönd“.
Þórunn Elín
Pétursdóttir.